Árni Arnar Sæmundsson fæddist 3. nóvember 1944 á Strönd í Ólafsfirði. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 21. apríl 2020 eftir löng veikindi.

Foreldrar hans voru Halldóra Gestsdóttir, f. 9.3. 1924, d. 17.6. 1986, og Sæmundur Pálmi Jónsson, f. 12.9. 1922, d. 16.12. 2012. Árni var næstelstur sex bræðra en þeir eru: Jón Steingrímur, f. 23.12. 1941, Gestur Heimir, f. 3.8. 1946, Hafsteinn Þór, f. 16.12. 1948, Matthías, f. 17.8. 1952, og Brynjar, f. 19.1. 1967. Árni ólst upp í Ólafsfirði hjá fósturforeldrum sínum Danilínu Önnu Sæmundsdóttur, f. 4.7. 1912, d. 1.7. 1994, og Agnari Björnssyni, f. 16.7. 1913, d. 23.5. 1986 frá eins og hálfs árs aldri. Lína var frænka Árna.

Þann 12.10. 1963 kvæntist Árni eftirlifandi maka sínum, Hönnu Maronsdóttur, f. 17.7. 1940. Þau eignuðust fjögur börn: 1) Nanna, f. 2.7. 1963, maki Sigurlaugur V. Ágústsson. Börn þeirra eru Svanborg Anna, Ágúst Kolbeinn og Arna Marín. 2) Agnar, f. 4.7. 1966, maki Ólöf Björk Sigurðardóttir. Börn þeirra eru Agnar Dan og Hafdís Ólöf. Agnar á þrjú börn með fyrri maka sínum, Valgerði B. Stefánsdóttur: Stefán Atli, Birna og Heiðdís Fríða. 3) Jón Arnar, f. 1.2. 1969, maki Kristrún Þorvaldsdóttir. Börn þeirra eru Orri Fannar, Ingigerður Lilja og Daði Hrannar. 4) Sæmundur, f. 21.7. 1970, maki María H. Þorgeirsdóttir. Börn þeirra eru Lucy Anna, Árni Arnar og Alice Ösp. Auk þess gekk Árni syni Hönnu, Maroni Björnssyni, f. 28.10. 1959, í föðurstað. Maki Marons er Halldóra Garðarsdóttir. Börn þeirra eru Hanna Dögg og Hjörvar.

Árni lauk hefðbundnu námi, fór í Iðnskóla og fékk meistararéttindi í vélvirkjun. Sjómennsku stundaði hann til fjölda ára á hinum ýmsu bátum, einnig var hann með sína eigin smábátaútgerð. Að síðustu var hann í veitingarekstri.

Útför hans fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 9. maí 2020, klukkan 14. Vegna aðstæðna verður fjöldi viðstaddra takmarkaður.

Þar sem ég er fastur erlendis og get ekki fylgt þér síðasta spölinn, elsku pabbi minn, vil ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér í gegnum árin.

Stuðninginn og ráðleggingarnar sem ég hef haft að leiðarljósi í lífinu.

Þótt síðustu ár hafi verið þér erfið líkamlega var hugurinn alltaf sá sami og baráttuandinn til staðar sem lýsir þér kannski best, eins og þú sagðir alltaf: „Það þýðir ekkert að vera með eitthvert væl.“

Spakir menn vilja meina að maður velji sér foreldra, að valið snúist um að velja þá sem kenna manni mest og leiðbeina í gegnum lífsins verkefni. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta er svona.

Þar sem líf mitt hefur verið ein allsherjar óþolinmæði og „ strax“-veiki finnst mér að ég hafi með engu móti getað valið mér betri foreldra en þig og mömmu.

Ég verð að játa að fyrir harðskelja mann eins og mig sem er ekki sá opnasti þegar kemur að því að tjá tilfinningar mínar er það þyngra en tárum taki að kveðja þig. En jafnframt er ég guðunum þakklátur fyrir allt sem þú gafst mér.

Þannig að best er fyrir mig að tjá mig með ljóði sem segir það sem mér liggur á hjarta.

Föðurminning

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góð leg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skín inn

þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkar fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem fórum við um landið út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

Hvíl þú í friði, elsku pabbi minn.

Þinn sonur,

Sæmundur.