[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Landsliðskonan Rut Arnfjörð Jónsdóttir sneri heim úr atvinnumennsku á dögunum þegar hún skrifaði undir tveggja ára samning við handknattleiks lið KA/Þór sem leikur í úrvalsdeild kvenna.

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Landsliðskonan Rut Arnfjörð Jónsdóttir sneri heim úr atvinnumennsku á dögunum þegar hún skrifaði undir tveggja ára samning við handknattleiks lið KA/Þór sem leikur í úrvalsdeild kvenna.

Rut, sem er 29 ára gömul, kemur til félagsins frá Danmerkurmeisturunum Esbjerg, en hún hefur verið atvinnumaður í Danmörku frá árinu 2008 og sá leikmaður sem hefur leikið lengst samfleytt erlendis af íslenskum handknattleikskonum á seinni árum.

Rut er í sambúð með Ólafi Gústafssyni, landsliðsmanni í handknattleik, en hann skrifaði einnig undir samning við KA á dögunum. Saman eiga þau svo soninn Gústaf Bjarka Ólafsson, sem varð tveggja ára gamall í lok febrúar á þessu ári.

„Það er frekar óþægilegt að vera í óvissu með framtíðina og þess vegna er frábært að hafa neglt þetta niður og skrifað undir samning á Akureyri,“ sagði Rut í samtali við Morgunblaðið. „Eins og ég hef sagt áður erum við bæði í handbolta og með lítinn strák í þokkabót þannig að við höfum aðeins þurft að ákveða næstu skref með tilliti til heildarpakkans ef svo má segja. Ég á einhverja ættinga hér fyrir norðan en annars erum við ekki með neina þannig tengingu. Ég get samt alveg viðurkennt það að eftir að hafa búið í útlöndum breytist hugsunarhátturinn umtalsvert.

Vissulega erum við á Akureyri en við erum samt sem áður nær fjölskyldu og vinum sem eru á höfuðborgarsvæðinu en áður. Ég hef verið úti frá árinu 2008 og mér finnst þess vegna bara æðislegt að vera komin heim í smá ró og næði. Þetta snerist fyrst og fremst um það hvað væri best fyrir okkur öll sem fjölskyldu og það er því frábær lausn fyrir okkur að fara til Akureyrar.“

Góð blanda í liðinu

Rut er uppalin hjá HK í Kópavogi en var aðeins átján ára gömul þegar hún hélt út í atvinnumennsku til Danmerkur. Hún skrifaði undir tveggja ára samning á Akureyri og er spennt að fara inn í tímabilið með ungu liði KA/Þór.

„Ég hef reynt að fylgjast með deildunum hérna heima í gegnum tíðina og það hefur stundum gengið og stundum ekki. Maður hefur sjálfur verið á fullu og undanfarin ár hef ég kannski ekki náð að fylgjast jafn vel með og ég hefði viljað. Ég á hins vegar mjög góðar vinkonur úr landsliðinu sem eru að spila hérna heima og fæ þess vegna reglulega fréttir frá þeim.

Ég vona að við í KA/Þór getum gert betur á næsta tímabili en í ár þótt það hafi vissulega verið frábært hjá liðinu að fara alla leið í úrslit bikarkeppninnar. Það væri líka gaman að geta strítt aðeins liðunum í efri hlutunum en ég er fyrst og fremst spennt að vinna með þessum ungu og efnilegu stelpum sem og eldri og reyndari leikmönnum liðsins. Blandan í leikmannahópnum er mjög góð og við sem eldri erum getum vonandi hjálpað yngri leikmönnunum eins og best verður á kosið.“

Á von á jafnari deild

Rut lék með Tvis Holstebro, Randers, Midtjylland og nú síðast Esbjerg á tólf ára atvinnumannaferli sínum í Danmörku en eftir að sonur þeirra Ólafs fæddist í febrúar 2018 viðurkennir hún að hugurinn hafi farið að leita heim. Rut er hins vegar ekki eina landsliðskonan sem er á heimleið og hún á von á því að úrvalsdeildin verði jafnari og meira spennandi í ár en oft áður.

„Ég var orðin hálfpartinn vön því að vera erlendis enda búin að eyða nánast einum þriðja ævinnar erlendis. Eftir á að hyggja er það fyrst og fremst ótrúlega gaman að hafa átt jafn góðan feril og raun ber vitni. Það var heiður að spila með þeim liðum sem ég fékk tækifæri til að spila með en eftir að við urðum fjölskylda og Gústaf Bjarki kom í heiminn fórum við aðeins að leiða hugann að því að snúa aftur heim. Svo fær maður auka löngun líka í að snúa aftur þegar ástandið er eins og það er í heiminum í dag vegna kórónuveirufaraldursins.

Eins og staðan er í dag á ég erfitt með að meta styrkleika deildarinnar, með tilliti til þess þegar ég var hérna síðast. Nánast allir þeir leikmenn sem hafa spilað erlendis undanfarin ár eru á leiðinni heim og ég hef fulla trú á því að deildin verði sterkari á næstu leiktíð en á síðasta tímabili, miðað við þá leikmenn sem eru á leiðinni heim í það minnsta. Ég á von á hörkukeppni og að deildin verði jafnari en oft áður.“

Horfir stolt til baka

Rut vann EHF-Evrópukeppnina með Holstebro árið 2013 og þá varð hún danskur bikarmeistari með Randers árið 2016. Þá varð hún Danmerkurmeistari með Esbjerg tímabilið 2018-19 og tímabilið 2019-20 eftir að því var aflýst vegna kórónuveirunnar.

„Ég hef lítið pælt í þessu í gegnum tíðina en þegar ég er minnt á ferilinn og fólk fer að tala um hann er ég gríðarlega stolt af þessum fína og flotta ferli. Ég hef upplifað marga sigra á handboltavellinum og eins hef ég lært og þroskast mikið sem manneskja. Ég hef kynnst fullt af frábæru fólki sem ég verð ævinlega þakklát og ég horfi mjög sátt til baka yfir atvinnumannaferil minn.

Ég mæli hiklaust með því fyrir unga og efnilega leikmenn að taka þetta skref og fara í atvinnumennsku. Ég er ótrúlega ánægð með að hafa tekið slaginn og farið út árið 2008. Maður lærir ótrúlega mikið á því að búa í öðru landi og kynnast annarri menningu. Ekki það að lífið í Danmörku sé eitthvað gríðarlega frábrugðið lífinu á Íslandi en þú lærir bara svo mikið á því að standa á eigin fótum. Það er alltaf hægt að koma aftur heim ef hlutirnir ganga ekki upp,“ bætti Rut við í samtali við Morgunblaðið.

Tólf ár í atvinnumennsku

*Rut Arnfjörð Jónsdóttir lék með HK upp yngri flokkana og hafði þegar spilað þrjú tímabil með liðinu í úrvalsdeild áður en hún fór 18 ára til Danmerkur árið 2008.

*Rut lék 59 úrvalsdeildarleiki með HK á þessum þremur árum og skoraði í þeim 178 mörk.

*Hún fór til Tvis Holstebro 2008 og lék með liðinu til 2014. Þar varð hún EHF-Evrópumeistari árið 2013.

*Rut lék með Randers tvö tímabil, 2014 til 2016, og var þar danskur bikarmeistari árið 2016.

*Hún lék með Midtjylland tímabilið 2016-17.

*Rut lék með Esbjerg 2017-20 og varð danskur meistari með liðinu 2019. Það verður væntanlega einnig meistari 2020 og er komið í fjögurra liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

*Rut hefur leikið 89 landsleiki og skorað í þeim 184 mörk og hún var í íslenska landsliðinu sem lék á EM í Danmörku og Noregi 2010, á HM í Brasilíu 2011 og EM í Serbíu 2012.