„Þessi sýking er þannig að margir eru með veiruna í sér en eru einkennalausir og vita ekkert af því. Við vitum að það er meiri útbreiðsla en greind sýni gefa til kynna. Þessir einkennalausu eða einkennalitlu geta smitað,“ segir Þórólfur.
„Þessi sýking er þannig að margir eru með veiruna í sér en eru einkennalausir og vita ekkert af því. Við vitum að það er meiri útbreiðsla en greind sýni gefa til kynna. Þessir einkennalausu eða einkennalitlu geta smitað,“ segir Þórólfur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er orðinn heimilisvinur flestra Íslendinga enda sést hann daglega á skjáum landsmanna. Hann er alltaf skýr, yfirvegaður og traustur enda veit hann sínu viti. Þórólfur er sérfræðingur í barnalækningum og smitsjúkdómum, doktor í lýðheilsuvísindum og hefur gegnt embætti sóttvarnalæknis í fimm ár. Í kórónuveirufaraldrinum sem gengur nú yfir er gott að vita af honum í brúnni.

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er orðinn heimilisvinur flestra Íslendinga enda sést hann daglega á skjáum landsmanna. Hann er alltaf skýr, yfirvegaður og traustur enda veit hann sínu viti. Þórólfur er sérfræðingur í barnalækningum og smitsjúkdómum, doktor í lýðheilsuvísindum og hefur gegnt embætti sóttvarnalæknis í fimm ár. Í kórónuveirufaraldrinum sem gengur nú yfir er gott að vita af honum í brúnni.

Eftir að hafa rætt bæði við Ölmu og Víði er blaðamanni ljúft og skylt að loka hringnum og tala við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni. Þau þrjú, sem kölluð hafa verið ýmist þríeykið, þrjú á palli eða tríóið, hafa frætt og um leið stappað stálinu í þjóðina síðustu tvo mánuði eða svo. Hvert og eitt kemur að borðinu með sína sérþekkingu og væri ómögulegt annað en að hafa þar sóttvarnalækni innanborðs. Þórólfur hefur gríðarlega þekkingu á sýkingum, enda á hann að baki langan feril sem smitsjúkdómalæknir og er með doktorspróf í lýðheilsuvísindum.

Í þessum frekar kuldalegu gámum við Skógarhlíðina, þar sem daglegir blaðamannafundir fara fram, áttum við fund og ræddum allt milli himins og jarðar, þó aðallega um vágestinn mikla sem skekur heiminn og litla Ísland.

Ræturnar í Eyjum

Þórólfur er fæddur á Hvolsvelli í október árið 1953, en foreldrar hans, Guðni B. Guðnason og Valgerður Þórðardóttir, eru bæði ættuð úr Rangárvallasýslu. Er Þórólfur í miðju þriggja bræðra.

Fjölskyldan flutti austur á Eskifjörð þegar Þórólfur var á öðru ári, en faðir hans fékk þar stöðu kaupfélagsstjóra. Þegar Þórólfur var á níunda ári fluttu þau til Vestmannaeyja og bjó Þórólfur þar fram á unglingsár.

„Rætur mínar liggja í Vestmannaeyjum. Við Víðir eigum margt sameiginlegt þar,“ segir Þórólfur og segist eiga þaðan afar ljúfar minningar.

„Þarna var mikið íþróttalíf og það var mikið leikið úti í náttúrunni. Ég byrjaði einnig í tónlist, þannig að það var aldrei dauð stund, en í bænum var mikið músíklíf. Ég hafði aldrei kynnst svona mikilli músík,“ segir Þórólfur.

„Ég byrjaði snemma í lúðrasveit og spilaði á trompet. Það var svo keypt píanó á heimilið en þegar fór að líða á unglingsárin leitaði hugurinn annað og ég fór að hlusta á Bítlana og keypti mér bassagítar.“

Sextán ára hélt hann upp á meginlandið og settist á skólabekk í Menntaskólanum á Laugarvatni.

„Þá var ég í raun fluttur að heiman, þó að maður færi heim á sumrin að vinna,“ segir hann og nefnir að hann hafi snemma stefnt að læknisfræði.

„Móðurbróðir minn var læknir, merkilegur maður, góður og klár. Mér fannst hann góð fyrirmynd. Ég byrjaði svo í læknisfræði haustið 1973 og þá fór þáverandi kærasta mín, núverandi eiginkona, í sjúkraþjálfunarnám til Danmerkur,“ segir hann, en þess má geta að konan í lífi Þórólfs heitir Sara Hafsteinsdóttir og er yfirsjúkraþjálfari á Landspítala Fossvogi, og eiga þau tvo uppkomna syni. Þau hafa þekkst allt frá æskuárunum í Vestmannaeyjum.

„Ég elti Söru til Danmerkur og fór í læknisfræði í Árósum en kláraði það svo hér heima.“

Áhugi á bólusetningum

Ungu hjónin bjuggu víða en fluttu svo til Connecticut í Bandaríkjunum þar sem Þórólfur stundaði nám í barnalækningum og síðar í smitsjúkdómalækningum í Minnesota.

„Ég veit ekki alveg hvað varð til þess að ég fór í barnalækningar en ég hafði alltaf gaman af börnum. Svo sérhæfði ég mig í smitsjúkdómum barna, en á þeim tíma var enginn sérhæfður í því hér. Mér fannst þetta mjög áhugavert og fékk snemma mikinn áhuga á bólusetningum, sem er besta og hagkvæmasta aðferð sem til er til að koma í veg fyrir smitsjúkdóma,“ segir hann.

„Þegar ég kom heim fór ég að vinna á Barnaspítala Hringsins sem almennur barnalæknir og smitsjúkdómalæknir og opnaði líka stofu sem ég var með til ársins 2015, en ég lokaði henni þegar ég tók við sem sóttvarnalæknir,“ segir hann en áður, eða árið 2002, hafði Þórólfur verið ráðinn yfirlæknir bólusetninga hjá þáverandi sóttvarnalækni, Haraldi Briem.

„Ég hef lifað og hrærst í þessum smitsjúkdómum lengi,“ segir hann.

„Fyrsta verkið sem yfirlæknir bólusetninga var að innleiða bólusetningar gegn svokölluðum meningókokkum C, sem er blóðsýking og heilahimnubólga. Þessi sjúkdómur getur verið mjög alvarlegur hjá börnum og unglingum. Á hverju ári fengu um 10-15 börn þennan sjúkdóm og við vorum að missa eitt til tvö börn á ári. Það var farið af stað árið 2002 að bólusetja alla undir tvítugu og það brá svo við að þessi sjúkdómur þurrkaðist algjörlega út. Það er bólusett áfram og hann sést ekki lengur hér. Það var mjög gefandi að sjá árangurinn, sérstaklega eftir að hafa verið barnalæknir og hafa horft upp á mörg börn fá þennan sjúkdóm og að hafa misst börn úr þessum sjúkdómi.“

Vorum búin undir faraldur

Við snúum okkur að máli málanna, hinni illræmdu kórónuveiru. Fáir hér á landi vita jafn mikið um hana og Þórólfur.

Áttir þú von á að svona faraldur gæti herjað á heiminn?

„Já, það kom mér ekkert á óvart en það kom mér kannski á óvart að það væri kórónuveira. Þó eru þekktir faraldrar af hennar völdum, eins og Sars-veiran árið 2002 og Mers-veiran 2012. Þeir sem hafa lært um smitsjúkdóma, faraldsfræði og lýðheilsufræði sjá að saga mannkyns er full af svona faröldrum sem ríða yfir heimsbyggðina með reglulegu millibili og valda mjög miklum usla. Saga Íslendinga er full af þessu líka í gegnum aldirnar. Síðasti alvarlegi stóri faraldurinn hér var Spánska veikin 1918. Þetta er því mjög vel þekkt og við höfðum búið okkur undir þetta. Svona heimsfaraldur inflúensu gengur yfir á þrjátíu ára fresti, þó að enginn hafi valdið eins miklum usla og 1918. Sá síðasti var hér árið 2009; svínaflensan. Hún var nokkuð alvarleg en það fannst fljótt bóluefni og hægt var að ráða við hana betur,“ segir Þórólfur og segir undirbúning hafa staðið lengi yfir á milli sóttvarnalæknis, almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra og annarra stofnana.

„Við vorum búin að gera viðbragðsáætlanir sem virkja ætti þegar svona faraldur kæmi, því við vissum að hann kæmi. Við bjuggumst frekar við faraldri inflúensu en þetta er í raun og veru það sama; sama smitleiðin en aðeins öðruvísi sjúkdómur. Við höfum unnið í þessu í mörg ár; uppfært gögn og rætt um þetta. Við vorum í raun alveg í startholunum þegar þetta byrjaði. Við vorum búin að útbúa ákveðið samskiptakerfi við heilbrigðisþjónustu og þurftum aðeins að útfæra það í ljósi þess hvernig þessi veira hegðaði sér. Það hjálpaði mjög mikið að hafa þetta kerfi tilbúið.“

Alltaf ljóst að veiran kæmi

Þegar þú heyrðir fyrst af þessari veirusýkingu í Kína, hugsaðir þú strax að þetta yrði svona slæmt?

„Nei, alls ekki. Ég heyrði af þessu fyrst í kringum áramótin; þá fóru að berast fréttir af undarlegri lungnabólgu í Kína. Og svo að þetta væri í einhverjum vexti, sérstaklega í Wuhan-borg. Þá var fullyrt, meðal annars af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, að þetta væri veira sem væri ekki að smitast á milli manna. Ég sendi þá mjög fljótlega út póst til allra heilsugæslanna og lækna og vakti athygli á þessu, og bað þá um að hafa þetta í huga ef þeir sæju ferðamenn frá Kína með undarlega lungnabólgu. Síðar bárust mjög hratt fréttir af því að þetta væri kórónuveira sem smitaðist á milli manna. Það voru alltaf að koma nýjar og nýjar upplýsingar og við vorum sífellt að uppfæra vitneskju okkar. Við fórum þá strax í að taka viðbragðsáætlanir okkar úr hillunni og hafa samband við samstarfsaðila okkar. Við sögðum þeim að dusta rykið af þessu, fara vel yfir allt og gera sér grein fyrir hvert hlutverk þeirra yrði ef þetta færi að koma hingað,“ segir hann.

„Þegar þetta fór að dreifast um Asíu vissi maður að það væri bara tímaspursmál hvenær þetta kæmi til Evrópu, sem svo gerðist. Og svo hélt þetta áfram að breiðast út.“

Svona eftir á að hyggja, hefði átt að loka landinu á einhverjum tímapunkti?

„Sú umræða kom fljótt upp hér hvort ekki ætti bara að loka Íslandi til að koma í veg fyrir að veiran kæmi hingað til lands. Mín afstaða var sú að það myndi valda miklu meiri skaða en að grípa til annarra ráðstafana. Við vitum það frá öðrum faröldrum og líkönum sem hafa verið búin til að það þyrfti að loka landinu að minnsta kosti 99% á meðan veiran væri að ganga erlendis til að koma í veg fyrir að hún komi til landsins en í besta falli seinkar það komu hennar um einhverjar vikur eða mánuði. En þú kemur ekki í veg fyrir að hún komi, og þá byrjar ballið.“

Það hefði kannski aldrei gengið, þar sem flest smitin komu með Íslendingum sem komu af skíðum erlendis og ekki hefði verið hægt að loka á það fólk.

„Akkúrat. Og á hverjum tímapunkti eru 50 þúsund Íslendingar erlendis og þá er spurningin, hvað ætlarðu að gera við allt þetta fólk? Á að loka það frá Íslandi? Það var alvarlega verið að skoða á tímabili að loka á alla Kínverja. En niðurstaðan var sú að tæknilega væri það ekki framkvæmanlegt. Enda kom á daginn að sýkingin kom með Íslendingum sem voru í fríi erlendis.“

Getum við átt von á fleiri faröldrum á næstunni og þá jafnvel verri en þessum, eins og ebólu?

„Já, en ekki ebólu. Hún er allt öðruvísi; hún smitast ekki auðveldlega milli einstaklinga heldur þarf snertingu við blóð eða vessa frá sjúklingum. Við myndum aldrei fá svona útbreiddan faraldur af völdum ebólu. En fyrir þá sem hana fá eru 50% líkur á dauða, en þetta er allt öðruvísi sýking. En svarið er já, við munum fá aftur svona faraldur. Alveg klárlega. Hvenær það verður veit ég ekki og hvort það verður heimsfaraldur inflúensu, önnur tegund af kórónuveiru eða alveg ný veira, það veit ég ekki. Þetta er ekkert búið, þetta kemur aftur. Það eina sem við vitum er að heimsfaraldur inflúensu kemur á 30-40 ára fresti, og svo aðrar veirur líka. Þess vegna þurfum við alltaf að vera í startholunum og tilbúin að eiga við þetta.“

Fórum báðar leiðir

Í samræmi við áætlanir var fljótt vitað hvernig bregðast ætti við til að takmarka tjón af völdum kórónuveirunnar.

„Fræðin um hvernig á að verjast svona sjúkdómi eru tiltölulega einföld. Það er ekki margt sem hægt er að bjóða upp á. Í grunninn er hægt að tala um tvenns konar aðgerðir. Annars vegar skaðaminnkandi aðgerðir sem felast í því að gera sem minnst til að hemja útbreiðslu veirunnar en reyna að vernda þá sem fara verst út úr sýkingunni, viðkvæma hópa. Þú reynir að styrkja heilbrigðiskerfið til að það sé tilbúið að eiga við þetta en gerir ekkert mikið meira. Hins vegar er hægt að fara þá leið að reyna með öllum tiltækum ráðum að stoppa veiruna, minnka útbreiðsluna og fækka sýkingum eins og hægt er. Við höfum farið báðar leiðir strax frá byrjun,“ segir hann.

„Spítalar og gjörgæslur undirbjuggu sig og það var reynt að slá skjaldborg utan við viðkvæma hópa. Það er skaðaminnkandi aðgerð. Hina aðgerðina, að reyna að stoppa veiruna og sveigja kúrfuna eins mikið og hægt er, fórum við líka í með því að greina einstaklinga mjög snemma, taka sýni og finna þessa einstaklinga. Beita einangrun og fara svo í smitrakningu, en það var gert í samvinnu við lögreglu. Þegar mest var unnu þrjátíu manns á tveimur vöktum, bara við það að rekja smit. Það er enginn betri í því að rekja og finna fólk en lögreglan og hefur þetta samstarf verið alveg til fyrirmyndar,“ segir Þórólfur og segir vel hafa gengið að finna fólk og setja það í sóttkví.

„Svo var farið af stað með samkomutakmarkanir. Þannig að við gerðum mjög margt til að sveigja kúrfuna niður en fórum ekki alla leið eins og sumar þjóðir sem settu á útgöngubann eða lokuðu landamærum. Við töldum ekki að það myndi skila neinum auka árangri en myndi valda miklu meiri samfélagslegum skaða. Við fórum tiltölulega væga leið og við töldum strax í byrjun að ekki væri hægt að stoppa veiruna alveg í samfélaginu. Eitt af því mikilvægasta sem við gerðum var að hvetja almenning til að passa upp á sig, passa upp á handþvott og handsprittun, virða nándarregluna og forðast margmenni. Þetta er áhrifamesta leiðin til að stoppa smitleiðir, og fólk fór eftir þessu. Árangurinn af öllu þessu var miklu meiri og betri en ég þorði að gera mér vonir um. Kúrfan togaðist niður mjög hratt og í raun hraðar en víða annars staðar,“ segir hann.

„En þrátt fyrir þetta var þetta mikið álag á spítölunum. Ef faraldurinn hefði verið helmingi alvarlegri hefði reynt verulega á þolmörk þeirra. Og ef hann hefði verið þrefalt verri hefði heilbrigðiskerfið kollvarpast. En vegna þess að okkur tókst að keyra kúrfuna niður sitjum við uppi með litla útbreiðslu, sem þýðir að það er lítið ónæmi í þjóðfélaginu og þess vegna þurfum við að halda áfram að vernda samfélagið, bæði með því að stoppa smit sem kemur hér upp innanlands, eins og við höfum gert, og tryggja að smit komi ekki hingað inn frá útlöndum. Það er verkefni núna næstu vikur og mánuði.“

Meiri útbreiðsla en staðfest smit

Nú eru afar fá smit að greinast og því litlar líkur á að maður smitist. Eru aðgerðir ekki full strangar núna?

„Þessi sýking er þannig að margir eru með veiruna í sér en eru einkennalausir og vita því ekkert af því. Við vitum að það er meiri útbreiðsla en greind sýni gefa til kynna. Þessir einkennalausu eða einkennalitlu geta smitað. Ef einn slíkur einstaklingur fer inn á hjúkrunarheimili að heimsækja ömmu sína og kastar svo kveðju á nágrannana gæti þessi eini einstaklingur, áður en hann veit af, verið búinn að smita allt hjúkrunarheimilið. Og það er fólkið sem fær sjúkdóminn illa og dánartíðnin er há. Þetta getur blossað upp, eins og gerðist í Bolungarvík, Ísafirði, Vestmannaeyjum og á Hvammstanga. Þess vegna þurfum við að vera með svona strangar aðgerðir. Það er betra að fara hægt og halda þessu niðri en að fara of hratt og fá allt í einu upp stórar hópsýkingar hér og þar og þurfa að bakka. Það væri ekki gaman að þurfa að fara aftur niður í tuttugu manna regluna og að þurfa að stoppa starfsemi víða. Við viljum komast í mark upprétt.“

Nú hefur þetta gríðarleg efnahagsleg áhrif og er það aðallega vegna hruns ferðaþjónustunnar. Þú segir það skipta máli að fá ekki ferðamenn hingað núna. Hvað erum við að hugsa um langan tíma?

„Í byrjum vorum við ekki með takmörkun á ferðamönnum en þá var ekki mikil útbreiðsla í nálægum löndum. Svo er ekki hægt að setja alla ferðamenn í sóttkví en við gerðum það við Íslendinga og það sýndi sig að það var rétt leið. Það voru fyrst og fremst Íslendingar sem smituðu hverjir aðra. Núna kemur enginn hingað og það ræðst ekki af því hvað við gerum. Þó að allt væri opið væri ekki að koma margt fólk. En við viljum samt sem áður vernda þann árangur sem við höfum náð með því að hindra komu veirunnar með ferðamönnum. Á einhverjum tímapunkti þurfum við að opna og við erum að skoða ýmsar útfærslur og einnig í samvinnu við önnur lönd. Á endanum þarf sóttvarnalæknir að koma með tillögur til heilbrigðisráðherra um hvað þurfi að gera varðandi ferðatakmarkanir. Og það er í vinnslu.“

Hvernig finnst þér að vera með þessa ábyrgð á herðum þínum?

„Mér finnst það ekki mjög þjakandi. Ég er ekki einn í þessu. Það er ráðherra sem tekur ákvarðanir á endanum. Ég vinn náið með almannavörnum og landlækni og mörgum öðrum. Þetta er rætt á víðum grunni en á endanum þarf ég að skrifa tillögur mínar og leggja fyrir ráðherra,“ segir Þórólfur og nefnir að samstarfið við Víði og Ölmu hafi gengið afskaplega vel.

„Við erum ekkert alltaf sammála en við ræðum málin.“

Sérðu fyrir þér hvað það tekur langan tíma fyrir kórónuveiruna að deyja alveg út?

„Það gæti tekið eitt til tvö ár, myndi ég halda.“

Vestmannaeyingar lausnamiðaðir

Nú ert þú Vestmannaeyingur. Hvernig ætla Vestmannaeyingar að halda Þjóðhátíð, er það ekki full mikil bjartsýni?

„Vestmannaeyingar eru alltaf bjartsýnir og lausnamiðaðir. Ég veit ekki hvernig þeir hafa hugsað sér að gera þetta og það er ekki búið að ákveða hvaða takmarkanir verða í ágúst. En við sjáum til. Þetta gæti verið erfitt. En ástæðan fyrir því að verið er að reyna að takmarka fjöldasamkomur er sú að þessar fjöldasýkingar geta komið upp úr svona samkomum. Það er alveg ljóst að aðgerðir eru íþyngjandi fyrir alla en þetta er tímabundið; þetta er ekki til frambúðar. En allt er þetta gert til að missa ekki fjölda manns úr þessari sýkingu. Við höfum misst tíu manns, þrátt fyrir að ná góðum tökum á sýkingunni. Svíar, sem hafa ekki beitt sömu ráðstöfunum og við, hafa misst hlutfallslega níu sinnum fleiri en við. Þetta þýðir það að ef faraldurinn væri eins hér og í Svíþjóð værum við búin að missa níutíu manns. Ég er ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir þessu. Það þarf bara einn eða tvo sýkta einstaklinga sem valsa um til að smita stóran hluta af hópnum með alvarlegum afleiðingum. Einn svona einstaklingur gæti smitað stóran hluta af hópnum á einni svona helgi.“

Við förum að slá botninn í samtalið og blaðamaður ákveður að taka upp léttara hjal, svona rétt í lokin.

Hvað á að gera í sumar?

„Ferðast innanlands. Það er hvergi betra að vera en á Íslandi. Ég ætla ekki til útlanda á árinu. Ísland er land mitt í ár.“

Þú sérð þá fram á að fá sumarfrí?

Þórólfur hlær.

„Ég læt mig í það minnsta dreyma um það.“