Reynir Vignir
Reynir Vignir
Eftir Reyni Vignir: "Mér finnst verkum beggja þessara ágætu ljósmyndara sýnd mikil óvirðing með þeim vinnubrögðum sem birtast í bókinni."

Bókmenntahluti Kiljunnar hjá RUV í síðustu viku fjallaði m.a. um bókina Stjörnur og stórveldi eftir Jón Viðar Jónsson og ræddu tveir gagnrýnendur hana ásamt umsjónarmanni. Bókin fékk í vetur verðlaun sem besta bók í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis og útgefandi hennar tók við verðlaununum úr hendi forseta Íslands við hátíðlega athöfn að Bessastöðum.

Gagnrýnendur Kiljunnar fóru fögrum orðum um bókina, efnistök, ritstíl og vinnubrögð höfundarins og sögðu hana varpa nýju ljósi á ýmislegt í leikhúsheiminum og ekki síst hvað gerðist á bak við tjöldin, á árunum 1925–1965, sem er tímabilið sem fjallað er um í bókinni. Og annar gagnrýnendanna sagði svo orðrétt: „Myndirnar í bókinni eru dásamlegar“. Þessi orð ýttu við mér og ég tel rétt að vekja athygli á leiðindavillum varðandi myndirnar í bókinni . Ég benti útgefanda bókarinnar á villurnar í samtali nýlega og hann harmaði þær, þegar hann áttaði sig á þeim, en um þær hefur samt ekkert verið fjallað frekar af honum eða höfundi bókarinnar.

Samkvæmt myndaskrá eru alls 164 myndir og teikningar í bókinni. Ég tek undir orð gagnrýnandans um myndirnar og þær gefa bókinni aukið gildi, enda frásagnir af leiksýningum frekar þurrar án mynda. Í myndaskránni er við hverja mynd getið um nöfn leikara, leiksýningar, ljósmyndara og hver sé eigandi myndanna. Eins og gefur að skilja er þar að finna mikinn fjölda nafna.

Af þessum 164 myndum eru 34 myndir, eða rúmlega 1/5 hluti, merktar ljósmyndara sem í bókinni heitir Vignir Sigurgeirsson. En enginn ljósmyndari var til með því nafni. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er þarna steypt saman nöfnum tveggja vel þekktra ljósmyndara sem starfandi voru á þessum árum þeirra; Sigurhans Vignir og Vigfúsar Sigurgeirssonar. Eftirnöfn þeirra eru notuð til að búa til nafn það sem birt er sem höfundarnafn í myndaskránni.

Þegar myndirnar eru skoðaðar sést glöggt að margar þeirra eru áritaðar með nafni höfundar, þannig að ekki fer milli mála hver ljósmyndarinn er. Ég hlakkaði til að sjá myndirnar í bókinni þegar ég náði mér í hana fyrr í vetur, auk þess sem efni hennar er áhugavert og bókin verðlaunuð. Sigurhans Vignir var afi minn, ég þekki ljósmyndasafn hans og handbragð nokkuð vel og átti von á að sjá margar myndir hans í bókinni. Eftir að hafa skoðað bókina rækilega sé ég að hann tók mikinn meirihluta þeirra 34 mynda sem eru ranglega merktar. Hans er hins vegar hvergi getið sem höfundar ljósmynda í bókinni.

Sigurhans notaði Vignir sem höfundarnafn og áritaði myndir sínar þannig. Hann ljósmyndaði mikið fyrir Leikfélag Reykjavíkur fyrir 1950 en var síðan aðalljósmyndari Þjóðleikhússins á fyrsta áratug starfsemi þess og myndaði nánast allar sýningar í húsinu, auk þess að taka aðrar myndir fyrir Þjóðleikhúsið. Myndir hans frá þessum tíma hafa mikið gildi fyrir leiklistarsöguna, hafa ætíð vakið verðskuldaða athygli og stórar eftirtökur þeirra oft verið til sýnis á vegum leikhúsanna. Því miður þekki ég hins vegar ekki myndatökur Vigfúsar Sigurgeirssonar fyrir leikhúsin á þessum árum.

Mér finnst verkum beggja þessara ágætu ljósmyndara sýnd mikil óvirðing með þeim vinnubrögðum sem birtast í bókinni og því sé rétt að vekja athygli á þeim hér. Það er líka umhugsunarefni hvernig villurnar gátu farið framhjá öllum sem að gerð bókarinnar komu, jafnt höfundi, útgefanda sem öðrum. Bókin hefur svo væntanlega fengið mikla skoðun hjá dómnefnd þeirri sem valdi hana besta í sínum flokki eins og getið var um hér að ofan.

Gagnrýnendur bókarinnar hafa heldur ekki bent á þessar villur og þar af leiðandi hefur hvergi opinberlega verið vakin athygli á þeim eða leiðréttingum komið á framfæri. Ég reikna með að fleiri en ættingjar ljósmyndaranna geti gert kröfur um meiri vandvirkni við útgáfu bókar sem skilgreind er að hluta sem fræðirit.

Höfundur er viðskiptafræðingur og leikhúsáhugamaður.

Höf.: Reyni Vignir