Ingólfur Magnússon fæddist 10. apríl 1928. Hann lést 16. apríl 2020. Útförin fór fram 8. maí 2020.

Elsku afi. Mér hefur alltaf fundist svo magnað að í hópi ellefu barnabarna hefur okkur öllum liðið eins og við séum alltaf í algjöru uppáhaldi hjá þér. En þannig var það. Þú hafðir alltaf tíma og ánægju af því að vera með okkur og þess vegna hlakkaði ég alltaf svo mikið til að koma norður í næstu heimsókn. Ég hlakka enn til, þó að allt sé breytt. Ég hlakka til að hitta alla fjölskylduna og minnast þín og hugsa til þess að þú naust þín best þegar þú hafðir fólkið þitt hjá þér.

Ég er þér þakklátur fyrir svo margt. Ég man eftir okkur saman að spila kasínu í Klapparstígnum, að vinna í hesthúsinu og hossast um í Land Róvernum. Í minningunni var mikið gagn af mér en á seinni árum hef ég aðeins byrjað að efast um það, en alltaf fékk ég samt Brynjuís að launum. Eftir að ég mátti byrja að keyra (og áður) sagðir þú mér jafnan að ég keyrði eins og engill í olíubrók og þó ég hafi aldrei áttað mig á því hvað olíubrók er, þá er þetta líklega besta hrós sem ég hef fengið.

Ég ætla að halda áfram að kíkja eftir tappanum fyrir þig þegar ég fer Tappaskarðið og mig langar að biðja þig, eins og þú baðst mig í hvert sinn sem við hittumst, að vera ævinlega margblessaður, þríkrossaður og berrassaður.

Þinn

Baldur Brynjarsson.

Elsku Ingi afi minn er farinn frá okkur. Hann var alveg einstakur maður. Í hvert einasta skipti sem ég kom til hans mætti hann mér með einlægri hlýju og var alltaf jafn glaður að sjá mig. Ég er óskaplega þakklát að hafa fengið að hafa hann afa minn hjá mér svona lengi.

Þegar ég var barn fannst mér alveg ómissandi að fá að vera hjá afa og ömmu á Akureyri, helst allt sumarið ef hægt var. Í minningunni eru þessi sumur full af sólskini, útiveru, hestum, spilum, og bílaleikjum á teppinu í Vanabyggðinni sem var kassamynstrað þannig að hentaði frábærlega fyrir bílaleiki. Afi keyrði um á Land Róver og í minningunni var hann alltaf syngjandi hástöfum „Sólskin, sólskin, sólskin í hverri laut...“ og sveiflaði oft hendinni með eins og hljómsveitarstjóri.

Ég fékk oft að fara með afa í hesthúsið í Gilinu að gefa hestunum en man þó ekki eftir að hafa verið sett í nein erfiðisverk, ekki einu sinni að moka skít. Afastelpunni var hlíft við öllu svoleiðis. En ég fékk þó að hjálpa aðeins til við heyskap og lærði að snúa heyi með hrífu. Heimsóknir í Tjarnargerði voru ævintýraferðir, sérstaklega þegar hestarnir voru með í för. Ég var líka svo heppin að fá að fara með afa og ömmu í hestaferð austur í Kelduhverfi þó ég hafi nú ekki verið mikið á baki, ég var mest í Land Róvernum að spila við Stebba, enda nýstigin upp úr lungnabólgu.

Afi var alltaf til í að spila við mig og kenndi mér að spila marías. Það var líka mikil upplifun fyrir lítið stelpuskott að spila vist í eldhúskróknum í Vanabyggðinni með afa, ömmu og Gumma. Í þeirri vist mátti segja t.d. grand, nóló, heilu og hálfu og stundum var sögð hólmfríður, en merkingu þeirrar sagnar verður ekki ljóstrað upp hér. Seinna spilaði hann svo oft við börnin mín, helst lönguvitleysu enda er það besta spilið sem hægt er að spila við langafa.

Afi umvafði alla í kringum sig með hlýju og umhyggju og ég er óendanlega heppin að hafa átt hann sem afa minn.

Jenný Brynjarsdóttir.

Hræddist ég, fákur, bleika brá,

er beizlislaus forðum gekkstu hjá.

Hljóður spurði ég hófspor þín:

Hvenær skyldi hann vitja mín?

Loks þegar hlíð fær hrím á kinn

hneggjar þú á mig, fákur minn.

Stíg ég á bak og brott ég held,

beint inn í sólarlagsins eld.

(Ólafur Jóh. Sigurðsson)

Fákurinn kom með friði þetta vorið. Langri og gæfuríkri ævi lauk skammt þaðan sem hún hófst. Endir á viðburðaríku og farsælu ævistarfi sem líta mátti til, stoltur og sáttur.

Ingólfur Magnússon fæddist inn í samfélag bænda, verkamanna og erfiðisvinnu en í honum bjó ríkur vilji til sjálfstæðis og frelsis. Að eiga ekki sitt undir öðrum komið. Stór, kraftmikill skapmaður, ávallt stutt í hláturinn og góðlátlega stríðni. Hann var náttúrubarn og gæfumaður sem naut sín til hins ýtrasta í samvistum við aðra. Fjölskyldan var í fyrirrúmi, vinnan og þá áhugamálin – hestamennskan og ferðalögin um landið sem hann unni. Ábyrgð, skyldur og lífsgleði. Hann var athugull, minnugur, íhugull, ættrækinn og vildi öllum mönnum vel. Hann gerði ekki mikið úr sjálfum sér, var hógvær, en þeim mun meiri var gleðin yfir velgengni annarra. Skyldurækinn og tryggur vinur sem ræktaði vináttuna allar stundir sem guð gaf. Sönggleðin var honum í blóð borin. Hann söng í bílnum, við dagleg störf, á hestbaki. Hestarnir voru líf hans og yndi. Hestaferðalögin oft hápunktur sumarsins, milli fyrri og seinni sláttar. Vinir og kunningjar voru á hverju strái hvar sem hann kom. Hann naut lífsins.

Maðurinn einn er ei nema hálfur,

með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.

Og knapinn á hestbaki er kóngur um stund,

kórónulaus á hann ríki og álfur.

(Einar Benediktsson)

Ingi var stór þáttur í lífi okkar. Fjölskyldurnar tengdust traustum böndum og á erfiðum tímum var stuðningur Inga og fjölskyldu hans okkur ómetanlegur. Ferðalögin, hestar og heyskapur, ærnar og já, meira að segja kartöflurnar styrktu böndin þótt á stundum þætti mörgum kannski nóg um þrjóskuna sem hélt okkur öllum að verki í hávaðaroki, rigningu eða kulda í Gilinu, á Höfðanum, úti á Túni og uppi í Landi. Enginn gafst upp. Verkinu skyldi lokið. Eftir stóð gleðin sem fylgir góðu dagsverki.

Á kveðjustund hvarflar hugurinn yfir liðna tíð með söknuði og hlýju. Við þökkum þá gæfu að hafa átt Inga að. Minning hans lifir með okkur.

Jennýju, Önnu Þorbjörgu, Bjargeyju, Magnúsi, Karli, Dagbjörtu og fjölskyldum þeirra vottum við einlæga samúð okkar.

Helga Maggý, Jóhann

Magnús, Haukur Berg

og Lena Kristín.