Leikhlé Ingi Þór Steinþórsson fer yfir sviðið með sínum mönnum. Hann segir nú skilið við uppeldisfélagið.
Leikhlé Ingi Þór Steinþórsson fer yfir sviðið með sínum mönnum. Hann segir nú skilið við uppeldisfélagið. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KR Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Körfuknattleiksdeild KR staðfesti í gær að Inga Þór Steinþórssyni hefði verið sagt upp störfum. Ingi gerði fjögurra ára samning við KR í júní 2018 og var því við störf í tæp tvö ár.

KR

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is Körfuknattleiksdeild KR staðfesti í gær að Inga Þór Steinþórssyni hefði verið sagt upp störfum. Ingi gerði fjögurra ára samning við KR í júní 2018 og var því við störf í tæp tvö ár. Ingi tók við af Finni Frey Stefánssyni, sem gerði KR að Íslandsmeistara fimm ár í röð, og bættist sá sjötti við á fyrsta tímabili Inga með liðið.

Kórónuveiran kom hins vegar í veg fyrir að KR gæti reynt við sjöunda Íslandsmeistaratitilinn í röð, þar sem tímabilinu var aflýst áður en úrslitakeppnin fór af stað. KR var þá í fjórða sæti Dominos-deildarinnar og búið að vinna fjóra leiki í röð, þ. á m. tvö efstu liðin; Stjörnuna og Keflavík. Þrátt fyrir það var Inga vikið frá störfum.

„Það er aldrei gott að vera rekinn og þetta er í fyrsta sinn sem ég er rekinn á ævinni,“ sagði Ingi við Morgunblaðið eftir tilkynningu KR-inga. Ingi starfaði hjá KR sem þjálfari og aðstoðarþjálfari frá 1999 til 2004 og svo aftur frá 2008 til 2009. Gerði hann liðið m.a. að Íslands- og bikarmeistara árið 2000. Eftir það lá leiðin til Snæfells, þar sem hann stýrði karla- og kvennaliðum félagsins með afar góðum árangri og varð alls fjórum sinnum Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari.

Ekki auðveld ákvörðun

„Einhver sagði að maður yrði ekki alvöruþjálfari fyrr en maður væri rekinn í fyrsta skipti,“ bætti Ingi við. Hann hafði áhuga á að halda áfram með liðið, en að mati stjórnar körfuknattleiksdeildar KR var það best fyrir liðið að leita annað.

„Það voru viðræður fram og til baka en þetta er ákvörðun sem stjórnin endaði á að taka. Þeir gera það sem þeir telja að sé best fyrir liðið. Á þessum tímapunkti var þetta það besta fyrir liðið að þeirra mati og það þarf að virða. Þeir bera ábyrgð á þessari ákvörðun og hún hefur ekki verið auðveld fyrir þá. Ég var sömuleiðis yfirþjálfari barna- og unglingastarfsins, svo að þetta hefur víðtæk áhrif hjá félaginu.“

Inga var boðið að halda áfram að starfa hjá félaginu og gafst honum kostur á að verða yfirmaður körfuboltamála hjá KR. Ingi hafnaði því boði, þar sem hann vill halda áfram í þjálfun. Ferilskráin talar sínu máli og Ingi hefur nóg fram að færa.

„Ég ákvað að skora á sjálfan mig sem þjálfara og sjá hvort ég fyndi ekki aðra áskorun í þessu starfi. Ég tel mig fyrst og fremst vera þjálfara og ég veit ég get gert miklu betur en ég hef verið að gera. Ég er með þá kenningu að þann dag sem ég kann allt og veit allt og er með allt 100 prósent, þá er kominn tími á að hætta. Ég tel þann tímapunkt ekki vera kominn og ég ætla að sjá hvaða möguleika ég hef í stöðunni.“

Í svipaðri stöðu og Heimir

Ingi líkti stöðu sinni við þá stöðu sem knattspyrnuþjálfarinn Heimir Guðjónsson var í þegar hann var rekinn frá FH í október 2017, þar sem öll félög efstu deildar karla eru með þjálfara á samningi. Að lokum fór Heimir til HB í Færeyjum, en Ingi ætlar að bíða þolinmóður.

„Ég held ég sé í svipaðri stöðu og Heimir Guðjónsson vinur minn var í þegar hann fór frá FH. Það er nánast búið að loka öllu í efstu deild. Við sjáum hvaða möguleikar koma á borðið hjá mér og ég ætla að vinna með það. Það er áskorun sem ég ætla að sækjast eftir,“ sagði Ingi.

Hann er ánægður með eigin árangur hjá KR, en á sama tíma svekktur yfir að ekki náðist að ljúka tímabilinu þar sem KR-ingar voru á miklu skriði og til alls líklegir í úrslitakeppninni.

„Þjálfarar og leikmenn eru metnir á niðurstöðu og tölum. Við erum ríkjandi Íslandsmeistarar og ég tel okkur hafa gert gríðarlega vel í að verða Íslandsmeistarar á síðustu leiktíð. Á þessu tímabili voru öll teikn á lofti að liðið væri að sækja þann sjöunda í röð. Það er svekkjandi fyrir mig sem þjálfara að geta ekki klárað það og vera metinn af niðurstöðu vetrarins,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson.

KR á enn eftir að tilkynna eftirmann Inga en að öllum líkindum mun Darri Freyr Atlason taka við því krefjandi starfi. Darri gerði kvennalið Vals að þreföldum meisturum á síðasta ári og deildarmeisturum á þessari leiktíð og er uppalinn KR-ingur.