Þorvaldur Jónsson fæddist 17. júní 1936. Hann andaðist 29. apríl 2020.

Þorvaldur var jarðsunginn 8. maí 2020.

Elsku afi.

Þegar ég fór að hugsa hvað ég ætti að skrifa rifjuðust upp margar skemmtilegar minningar og kom alltaf betur í ljós hversu mikið ég leit upp til þín og hvað mér fannst þú alltaf flottur, allt frá barnæsku þar til dagsins í dag. Það er mér mjög dýrmætt að hafa átt sömu áhugamál og þú, sem voru laxveiðar og síðar golf. Það gerði það að verkum að við áttum margar gæðastundir saman síðustu árin að gera það sem okkur fannst skemmtilegast.

Afi kenndi mér að veiða þegar ég var ungur strákur og fórum við ófá skipti saman í veiðiferðir. Síðustu árin var það orðið árlegt hjá okkur og eitt af því sem ég hlakkaði mest til á hverju ári. Í einni af síðustu ferðum okkar gekk ég niður með ánni og sá hann liggjandi við árbakkann eins og Jesú krossfestan með veiðistöng í hendi. Ég vissi ekki hvort hann væri lífs eða liðinn og óð ég yfir ána til að athuga hvort það væri ekki örugglega í lagi með hann. Það var auðvitað í góðu lagi með gamla, hann var bara að njóta staðar og stundar og þess að vera til. Held það hafi verið þá sem ég áttaði mig á að það væru kannski ekki margar veiðiferðir eftir.

Það var bara ein leið til að eiga fleiri stundir saman og það var að byrja í golfi. Afa fannst ekkert skemmtilegra en að spila golf síðustu árin. Hann hafði oft reynt að telja mér trú um að byrja en það var þarna sem ég sá ástæðu til þess. Ég hafði ótrúlega gaman af því að spila golf með afa, því þegar ég spilaði með honum snerist þetta um að njóta en ekki að keppa. Ég hef reynt eftir bestu getu að tileinka mér það og þá þolinmæði sem hann hafði á vellinum.

Þegar við töluðum saman í síðasta skipti óraði mig ekki fyrir því að þetta yrði síðasta samtal okkar. Ég hefði viljað segja svo margt við þig, elsku afi.

Ég mun sakna þín mikið og minningarnar mun ég varðveita að eilífu.

Þinn

Arnar.

Afi, þú varst mér svo kær, ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að leika mér í Sandá, borða einn af þessum risastóru löxum sem þú veiddir, leika mér á Syðra-Fjalli og fá að eyða tíma þar eins mikið og ég vildi. Þú varst svo heilbrigður og ungur í eðli þínu. Ég bjóst aldrei við því að þú myndir fara frá okkur svona snemma. Þú varst stoltur af öllum ungunum þínum og fyrir þig verð ég alltaf þakklát.

Ég ætla að vera alveg eins og þú þegar ég verð komin á þinn aldur, gera það sem mér finnst skemmtilegast, leika mér að lífinu, njóta þess að vera til og deyja sátt.

Takk fyrir að ala mömmu mína svona vel upp, þrátt fyrir að hafa misst ömmu svona snemma. Ég vona að þú hittir ömmu, að þið séuð saman á himnaríki og finnið fyrir ást, umhyggju og friði.

Ég á eftir að sakna þín að eilífu.

Þín

Birta Þöll.

Loks beygði þreytan þína dáð,

hið þýða fjör og augnaráð;

sú þraut var hörð – en hljóður nú

í hinsta draumi brosir þú.

(Jóhannes úr Kötlum)

Kær vinur er kvaddur í dag. Við höfðum tvenns konar áhugamál sem leiddu okkur saman, en það var golfið og AA-fundirnir, hvort tveggja gaf okkur mikla lífsfyllingu og úr varð einlæg vinátta sem ég mun sakna mjög.

Fullur þakklætis fyrir gengnar stundir mun ég leyfa hlýjum minningum að græða sárin.

Sorg og eftirsjá hreiðrar um sig í brjóstinu svo undan svíður, en fullvissan um að hann lifir þar sem ljósið ekki deyr léttir sorgina.

Við hittumst í landinu

þangað sem fuglasöngurinn fer,

þegar hann hljóðnar.

(Jökull Jakobsson)

Hendrik (Binni).

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Þorvaldi. Ég man ennþá eftir því þegar ég mætti í Hafnarhúsið á skrifstofu Þorvaldar Jónssonar skipamiðlara.

Árið var 1997 og ég átti að aðstoða við bókhaldið, sem ég hafði reyndar lítið vit á á þeim tíma. Ég þekkti hann lítið þá, hafði eingöngu hitt hann nokkrum sinnum en hann var mágur pabba míns og pabbi Únnu og Elsu, sem eru frænkur mínar. Þetta var mér þvílíkt gæfuspor, því næstu níu árin vann ég hjá honum, alveg þangað til skrifstofunni var lokað í janúar 2006. Þorvaldur var einstakur maður, harður en sanngjarn í viðskiptum og þvílíkt ljúfmenni. Hann kenndi mér svo margt og leyfði mér að prófa hitt og þetta í vinnunni, þannig að ég varð reynslunni ríkari. Hann hvatti mig líka áfram í námi sem ég stundaði með vinnu og verð ég honum ævinlega þakklát fyrir það.

Mikið var það sárt þegar ég frétti af þér inni á spítala, ég hélt alltaf í vonina að þú myndir koma sterkur til baka en svo brotnaði ég niður morguninn 29. apríl þegar mamma hringdi í mig og lét mig vita að þú værir allur. Síðustu daga hef ég mikið hugsað til þessara ára hjá þér í Hafnarhúsinu, þú varst í svo miklu uppáhaldi hjá mér. Ég man eftir öllum pappírsstöflunum á skrifborðinu þínu, þar sem þú sagðir að allt væri í röð og reglu og allt gastu fundið, þetta var bara spurning um að kunna að leita. Ég man eftir smitandi hlátrinum þínum og allri veiðidellunni. Ég man þegar þú fékkst fyrsta golfsettið frá börnunum þínum og þú ætlaðir sko alls ekki að eyða tímanum þínum í golfi en síðustu árin þín hef ég nær eingöngu heyrt af þér á golfvellinum, þar voru þínar bestu stundir. Ég man eftir vínarbrauðinu og kleinunum, þegar þú sagðir:

„Brynja mín, þú veist ekki af hverju þú ert að missa, verður að fá þér ostsneið á kleinuna“ og að sjálfsögðu var það rétt hjá þér. Í dag fæ ég mér ennþá kleinu með smá osti.

Ég veit að Anna tekur vel á móti þér og hugsar vel um þig. Börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum votta ég samúð mína. Minning um yndislegan mann mun lifa í hjörtum okkar allra. Þín

Brynja Steinsen.