Viðtal
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Þegar spurt er um þjóðir sem leggja mikið upp úr góðum matvælum og merkilegri matarhefð koma lönd eins og Ítalía eða Frakkland upp í hugann, með vín sín og osta og alls kyns hnossgæti. Þar er matvælaframleiðslu gert hátt undir höfði enda þykir atvinnugreinin vera einn af burðarstólpum hagkerfisins og samfélagsins.
Nánari skoðun leiðir í ljós að sennilega er ekki til meiri matvælaþjóð en Ísland. Ný skýrsla Sjávarklasans og Matarauðs Íslands, gerð í samvinnu við Samtök iðnaðarins og Íslandsstofu, sýnir svart á hvítu að íslenskur matvælageiri er stærri en margan grunar. Árið 2017 var samanlögð velta íslenskra matvælaiðnaðarins og matvælafyrirtækja í eigu Íslendinga erlendis rösklega þúsund milljarðar króna, og hefur engin önnur vestræn þjóð jafn mikil umsvif í matvælaiðnaði miðað við höfðatölu.
Fjöldi öflugra sprota
Brynja Laxdal er verkefnastjóri Matarauðs Íslands og segir hún að bara á síðustu tíu árum hafi orðið til á bilinu 60 til 70 ný íslensk fyrirtæki sem starfi á sviði matvæla- og heilsuefnaframleiðslu, og ekki sé ósennilegt að gróskan í greininni muni halda áfram á sömu braut. Finna má ýmis dæmi um matvæla- og heilsuefnafyrirtæki sem hafa náð undraverðum árangri á skömmum tíma, og eru líkleg til að verða stór og stöndug áður en langt um líður. Má nefna ostasnakkframleiðandann Lava Cheese sem tókst á síðasta ári að afla u.þ.b. 700.000 evra í gegnum fjármögnunargátt Funderbeam, og sultu- og súkkulaðismyrjuframleiðandann Good Good sem lauk fyrir skemmstu 400 milljóna króna hlutafjáraukningu. „Oft er talað um þrjár meginstoðir íslensks atvinnulífs: ferðaþjónustu, sjávarútveg og álverin, en matvælageirinn er ekki síður mikilvægur og verðmætaskapandi, auk þess að búa til fjölda beinna og afleiddra starfa.“
Skýrsla Sjávarklasans og Matarauðs Íslands byggir á viðtölum við fjölda sprotafyrirtækja í greininni og segir Brynja að tekist hafi að greina nokkra þætti sem auki líkurnar á árangri. „Góð rekstrarkunnátta, þekking á vörunni, þrautseigja og eftirfylgni skipta sköpum en ekki síður að fá annaðhvort fjárfesta eða góða styrki inn í reksturinn til að styðja við hraðari vöxt,“ útskýrir hún.
Þá reka matvælasprotar sig á ýmsa þröskulda, eins og t.d. vöntun á svokölluðu atvinnueldhúsi. Brynja bendir á að Matís starfræki tilraunaeldhús í Reykjavík og að víða um landið séu starfræktar matarsmiðjur sem henti fyrir vöruþróun og tilraunir en ekki fyrir fjöldaframleiðslu á meðalstórum skala. „Núna er verið að vinna að því að setja atvinnueldhús á laggirnar og hefur það fengið heitið Eldstæðið. Þar ættu frumkvöðlar að geta nýtt sér eldhús, geymslur, kælibúnað, sameiginlegt dreifingarkerfi og fleira og eiga þannig auðveldara með að stækka. Þarna þarf að koma til styrk fjárfesting svo að verkefnið nái flugi.“
Matvöruverslanirnar með opinn faðminn
Mörgu má breyta til að bæta rekstrarumhverfi matvælafyrirtækja enn frekar og nefnir Brynja að það virðist á ýmsa vegu flóknara að stofna matvælafyrirtæki á Íslandi en víða erlendis. Hár launakostnaður og launatengd gjöld draga líka úr samkeppnishæfni innlendra matvælafyrirtækja, auk þess að aðföng eru dýr, flutningskostnaður hár og flökt á genginu. „Á móti kemur að margir viðmælendur nefndu að innlendir seljendur væru áhugasamir um íslenska framleiðslu og boðleiðir stuttar svo að tiltölulega auðvelt væri að koma nýrri vöru að í búðunum. Hrósa verður matvöruverslunum fyrir að vera, í dag, almennt jákvæðar fyrir því að taka inn framleiðslu íslenskra matvælafrumkvöðla.“
Auk þess að liðka fyrir aðkomu sjóða og fjárfesta segir Brynja að efla megi íslenska matvælafrumkvöðla með því t.d. að auka stuðning í formi handleiðslu og ráðgjafar á fyrstu stigum og veita aukið fjárhagslegt svigrúm með rausnarlegri afsláttum og endurgreiðslum í gegnum skattkerfið. Þá sé spennandi að skoða hvort nýta megi betur tækifæri á erlendum mörkuðum og sýnir reynslan að víða um heim ættu neytendur að vera móttækilegir fyrir íslenskri matvöru og heilsuefnum. Er skemmst að minnast þeirrar sigurfarar sem íslenskt skyr hefur farið um allan heim á undanförnum árum og er hægt að finna íslenskt vatn, íslenskt sælgæti og íslenska kjötvöru til sölu í ýmsum löndum.
„Að sækja út á erlenda markaði hefur reynst íslenskum matvælaframleiðendum bæði dýrt og afar flókið og þarf að koma á skilvirku stuðnings- og ráðgjafarteymi, mönnuðu sérfræðingum sem þekkja erlenda markaði vel og geta gefið fyrirtækjunum bæði skýr svör og styrka handleiðslu í gegnum allt ferlið.“