Jón Gunnar Sveinsson fæddist 10. júlí 1959. Hann lést 28. mars 2020.

Útför fór fram í kyrrþey.

Fallinn er frá, langt um aldur fram, Jón Gunnar Sveinsson, ötull stjórnarmaður í starfi Blaksambands Íslands. Ég starfaði með Jóni Gunnari um árabil í stjórn Blaksambands Íslands, jafnt sem varaformaður sambandsins og framkvæmdastjóri. Jón Gunnar var virkur í starfi sambandsins á níunda og tíunda áratug síðustu aldar og fram á 21. öldina. Það var gefandi að fá að starfa með Jóni Gunnari. Hann var hamhleypa til verka og leysti mörg erfið mál án þess að krefjast nokkurs í staðinn. Lítillæti og æðruleysi og jákvæðni yfir því að fá að leysa verkefni var aðalatriðið.

Það má segja að hann hafi verið hugsjónamaður fram í fingurgóma og sjálfboðaliði sem innti störf vel af hendi og gekk í það sem gera þurfti. Hann var umfram allt trúr og traustur störfunum sem honum voru falin, gilti þá einu hvort um var að ræða stjórnastörf, dómgæslu, þjálfun eða aðkomu að öðrum viðburðum er áttu sér stað. Hann spurði aldrei um endurgjald og alltaf tilbúinn að taka túr austur í Neskaupstað í dómgæslu eða sinna því kalli sem kom. Þetta átti ekki síst við þegar aðrir höfðu forfallast, þá var Jón Gunnar maðurinn sem bjargaði deginum og fyrir framkvæmdastjóra í lítilli hreyfingu var ómetanlegt að hafa slíkan mann sér við hlið.

Jón Gunnar var um árabil ritari stjórnar Blaksambands Íslands og leikmaður með hinu litríka blakliði Fram sem setti svip sinn á blakstarfið. Hann var ötull landsdómari og dæmdi margan frægan leikinn í rimmum félaga á Íslandi og var farsæll í sínum störfum. Það var klárt mál hver réð þegar Jón hélt um flautuna og túlkun á leikreglunum. Í þá daga þurftu menn að setja upp marga hatta; vera þjálfarar, leikmenn eða dómarar eins og venjan var í starfinu í þá daga.

Undir handleiðslu og þjálfun Jóns Gunnars urðu til margir góðir blakmenn og skemmst er minnast meistaraliðs Stjörnunnar í Garðabæ þar sem hann þjálfaði um árabil, starf sem hann hafði unun af að sinna. Þegar litið er um öxl skynjar maður að meistaratitlar Garðabæjarliðsins voru afurð langtímavinnu og hugsjóna manns sem gaf allt sem hægt var að gefa í leikinn innan vallar sem utan svo árangur gæti náðst. Oft við erfiðar aðstæður, án nauðsynlegs stuðnings og baklands eins og er í dag.

Jón Gunnar var forystumaður og leiðtogi af gamla skólanum, trúr sinni sannfæringu og umfram allt hollur þeim sem hann starfaði með og nutu orku hans og krafta án nokkurra skilyrða. Þrátt fyrir að leiðir okkar hafi ekki legið mikið saman síðustu árin, sér í lagi á meðan ég var búsettur erlendis, fylgdist maður alltaf með honum í gegnum sameiginlega vini og skynjar í dag að vegferð Jóns Gunnars markaði djúp og áhrifamikil spor í samfélag blakhreyfingarinnar hér á landi.

Við félagarnir úr blakhreyfingunni minnumst fallins félaga okkar með velvilja og umfram allt hlýju, og sendum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, stjórnarmaður í CEV, Evrópublaksambandinu og fyrrverandi framkvæmdastjóri og varaformaður BLÍ.