Valborg Sigurðardóttir fæddist 27. ágúst 1926. Hún lést 18. apríl 2020.

Útför hennar hefur farið fram.

Valborg, móðursystir mín, Valla frænka, var mannþekkjarinn vitri og lífsreyndi gleðigjafinn; það var hlýtt í návist hennar hljóðlátri og þar var gott að vera. En þótt Valla þyrfti ekki á því að halda að tjá kærleika sinn og skilning á mannfólkinu með orðafjöld var frásagnarlistin henni í blóð borin, ekki síður en list gjafmildu handanna hennar, líkt og öllum systkinunum samrýndu í Sandgerði á Raufarhöfn. Hún var næm á hið broslega í tilverunni og hló jafnfallega og hún gerði allt annað. Atvik og aðstæður og hið óviðjafnanlega tungutak átthaganna, allt glóði það og lifði í andránni, en gamansemin var alltaf græskulaus og glöð og tær, aldrei á kostnað annarra. Allir þessir mannkostir eru einnig ríkir í fari afkomenda hennar.

Öðru fremur hefur Valla frænka þó í huga mínum alltaf verið ímynd mildinnar, þeirrar elsku sem börn finna svo vel: hið milda ljós. Og þannig verður minningin um hana. Ég þakka Völlu allt það sem hún gaf og var mér og mínum. Börnum Völlu, tengdabörnum, barnabörnum, barnabarnabörnum og öðrum þeim sem unnu henni votta ég innilega samúð við fráfall hennar. Blessuð sé minning Valborgar Sigurðardóttur.

Helgi Grímsson.