Eymundur Þórarinsson fæddist 26. ágúst 1951. Hann lést 30. apríl 2020.

Útförin fór fram 8. maí 2020.

Þrautseigja, dugnaður, traustur vinur. Þessu kynntist ég og fann í fyrsta skipti sem við Eymundur hittumst og töluðumst við. Mikið til vegna þessara þriggja orða varð hann mikill örlagavaldur í mínu lífi. Að gefast upp var ekki til í orðabók Eymundar. Hann sótti hart að mér að fá mig í vinnu við að temja hesta hjá sér í Saurbæ vorið 2007. Ég hafði þá verið að vinna um veturinn hjá Sólveigu Stefánsdóttur og Jóhanni Þorsteinssyni á Sauðárkróki. Hann hætti ekki fyrr en ég kom í heimsókn í Saurbæ og skoðaði með honum fjósið sem hann hafði sjálfur innréttað upp á nýtt og gert hesthús, sem og annan húsakost. Þetta fannst mér ótrúlega magnað. Þessi elja, dugnaður og að vera ánægður og stoltur með sitt hreif mig. Eymundur var hörkugóður sölumaður og seldi hann mér hugmyndina að koma og vinna fyrir hann. Ég og Heiðrún höfðum kynnst töluvert áður og var ég efins um að fara að vinna á hennar heimaslóðum. Heiðrún bjó og var við vinnu á Suðurlandi á þessum tíma. Ég var viss um að Heiðrún héldi að ég væri algerlega brjálaður maður að eltast við hana, að ganga svona langt! Þetta vissi Eymundur náttúrlega ekki, en Eymundur sannfærði mig eftir smá umhugsunartíma. Eymundur gaf mér ekki langan tíma í að hugsa því hann sagði alltaf „að hika er sama og að tapa!“, því lét ég á þetta reyna. Þessi tími „að láta á þetta reyna“ er ennþá. Við Heiðrún tókum við búinu í Saurbæ á nýju ári 2014. Giftum okkur tveim árum seinna og eignuðumst sólargeislann okkar, Árdísi Heklu, í framhaldi af því.

Þó að Eymundur færi yfirleitt hratt yfir, þá gat hann alltaf hægt á sér og verið löngum stundum með Árdísi Heklu, sem var einnig sólargeislinn hans afa síns. Allur tími þeirra saman er ómetanlegur, styrkti hann og dreifði huganum á erfiðum tímum með glettnu brosi sínu, glaðværð og grallaraskap eins og hún á kyn til í báðar ættir.

Eymundur hafði mikinn áhuga á öllum dýrum og búskap, þó sérstaklega hestum. Undi hann sér best í frjálsum reiðtúrum og fór í hestaferðir og göngur upp á fjöll og firnindi þegar tími gafst til. Eymundur var svo sannarlega kóngur um stund á hestbaki og hann vissi alveg upp á hár hvernig hestarnir áttu að vera. Hestarnir hans Eymundar urðu eins og hann kappsfullir, fótvissir og duglegir.

Minningarnar lifa. Minningarnar eru margar og mjög eftirminnilegar með Eymundi, hann var bara þannig maður. Hvatvís, einstaklega duglegur og gat verið glettilega framhleypinn. En oftar en ekki hittu hugmyndir hans beint í mark og hann kenndi manni að hugsa til framtíðar og hafa háleit markmið því annars næði maður ekki almennilega settum markmiðum í lífinu. Þora að prófa hin ýmsu viðfangsefni og láta vaða!

Blessuð sé minning þín, minn kæri vinur og tengdapabbi. Þín verður mjög sárt saknað.

Pétur Örn.

Elsku Eymundur, nú er komið að kveðjustund eftir mikla baráttu við krabbamein, sem þú ætlaðir ekki að láta sigra þig en svona fór það. Við kveðjum þig með miklum söknuði en með þakklæti í huga fyrir að hafa fengið að njóta þeirra forréttinda að eiga þig að allan þennan tíma. Þú lést sjúkdóminn ekki stoppa þig, heldur hélst ótrauður áfram í vinnu og öðru sem þú tókst þér fyrir hendur enda afburða duglegur og hjálpsamur góður drengur og vinmargur. Ég á góðar minningar frá uppvaxtarárum okkar, þar sem þú varst stóri bróðir og fyrirmynd. Á æskuheimili okkar í Saurbæ ólumst við systkinin upp í mikilli ást, kærleika og hjálpsemi af foreldum okkar og á heimilinu voru líka Ástríður amma og Jóhann föðurbróðir. Kærleika og hjálpsemi höfum við systkinin haft að leiðarljósi í okkar lífi og ekki borið skugga á.

Það er stórt skarð í okkar systkinahóp frá Saurbæ með fráfalli Eymundar bróður. Minningarnar eru margar sem við eigum. Við gerðum svo margt saman og hjálpuðumst að. Þegar við systur og makar byggðum sumarbústaðinn Systrasel var gott að eiga góða að og Eymundur var einn af þeim, tilbúinn að koma og hjálpa okkur. Við hjálpuðum honum við heyskap og annað sem hann vantaði aðstoð við. Í bústaðnum heyrðist í dráttarvél koma og þá kölluðu börnin okkar með bros á vör að bóndinn væri að koma í kaffi, því þau fengu að fara með honum í dráttarvélina. Eymundur var barngóður maður. Allt eru þetta minningar sem við eigum frá fjölskyldustaðnum Systraseli þar sem við hittumst, mamma með börnin sín, fjölskyldur þeirra og vini síðustu ár um verslunarmannahelgi. Þá var hafður veislumatur, varðeldur og mikið gaman, sérlega hjá yngri kynslóðinni.

Þegar Eymundur flutti til Sauðárkróks keypti hann sér íbúð í Víðigrund 24 og kom oft til okkar Steina í Raftahlíðina. Síðasta góða minning okkar með honum, mömmu og fleirum var hinn 23. febrúar síðastliðinn. Stutt í sprengidag og saltkjöt og baunir á borðum en það fannst honum gott, hann naut þess að kroppa af beinum. Eymundur keyrði mömmu heim til sín á dvalarheimilið, eins og hann gerði oftast, en það var þeirra stund.

Elsku Eymundur, það eru mörg tár búin að falla og söknuðinn er mikill. Erfiðast var að fá ekki að vera hjá þér og kveðja þig með faðmlagi og knúsi. Kæri bróðir, mágur og frændi, góða ferð í sumarlandið til pabba. Með þökk fyrir allt. Við vottum mömmu, börnum hans og fjölskyldum þeirra innilega samúð, missirinn er mikill.

Hrefna, Þorsteinn (Steini), börn og fjölskyldur.

Það vorar, gott ef vorið er ekki komið í Skagafirði. Það er kærkomið eftir strangan vetur. Jörðin er farin að taka á sig lit og farfuglarnir flestir komnir; helsinginn og gæsin staldra við á leið sinni vestur um haf, lóan er farin að syngja sinn söng, spóinn vellur í móanum og maríuerlan sækir í gamla hreiðurstæðið í útihúsum. Aðeins krían er ókomin en hún skilar sér þann fjórtánda, það stendur í blöðunum eins og konan sagði í frægri bók. En djúpan skugga ber á vorið, fráfall góðs nágranna, Eymundar í Saurbæ.

Til sveita þekkir fólk hvað gott nágrenni skiptir miklu. Tilefni til árekstra eru fjölmörg; ágangur skepna, umferð og umgengni. Á milli fólksins í Saurbæ og á Vindheimum hefur verið einstaklega gott mann fram af manni. Eymundur á sinn þátt í því. Sama verður sagt um foreldra hans og ættmenni sem lengi hafa búið í Saurbæ. Í góðu nágrenni felst hjálpsemi án þess að eftir sé talin, á erfiðum stundum jafnt og þegar glaðst er. Ósjaldan reyndi t.d. á greiðvikni og kunnugleika Saurbæjarfólks um ferðir yfir Svartá fyrr á árum. Stundum er líkast því að gott nágrenni gangi í erfðir.

Starfsferill Eymundar er farsæll. Hann lærði til bónda af foreldrum sínum og frændum í skóla lífsins. Í því starfi er þarft að vera menntaður smiður og kunna skil á hamri og sög. Með reynsluna og þekkinguna að vopni tókst honum og hans fólki með dugnaði að stunda ábatasaman búskap. Kappsemi Eymundar var við brugðið. Þegar hvín í Reykjafossi boðar það sunnanátt og þurrk á heyi. Iðulega mátti þá heyra vélagný í kvöldkyrrðinni. Flestir hvíla þá lúin bein en sami gnýr hljómaði oft þegar vaknað var til nýs dags. Bóndinn í Saurbæ var enn að. Fjölbreyttur búskapur, kindur, kýr og hross, auðgar lífið. Kynbætur búfjár og tamning og þjálfun hrossa var í senn áhuga- og kappsmál Eymundar. Börn hans bera þess best vitni. Í öllu þessu skilaði hann afbragðsverki.

Lífið er meira en að komast af. Það þarf að gefast stund til að njóta þess með öðru fólki. Það þarf að gefa tíma fyrir börnin og mæta þeirra þörfum og áhugamálum. Sigríður, fyrrverandi kona Eymundar, á einnig sinn stóra þátt í góðri umsjá og uppeldi þeirra. Til þeirra sem félagslyndir eru er gjarnan leitað um forystu. Hann var í forystu í hreppstjórn, byggingarmálum hreppsbúa og málefnum fatlaðra. Þá var hann leiðandi í málefnum hestamanna í Skagafirði. Honum fórst þetta allt vel úr hendi. Eymundur hafði skoðanir á málum, var skeleggur og fylginn sér. Jafn eftirsóknarvert og það er, er það kostur hvers manns að sýna sveigjanleika í samskiptum og vera gæddur velvilja í garð náungans og viðfangsefnanna hverju sinni. Þetta einkenndi hann ríkulega.

Að leiðarlokum minnumst við Eymundar með sérstakri hlýu og þökkum honum samfylgdina. Vindheimafólk hefur ávallt notið góðra samskipta við hann, foreldra hans og ættmenni í Saurbæ. Nú hafa börn hans tekið við því keflinu. Við vottum móður, börnum, tengdabörnum og öðrum ættmennum og vinum okkar dýpstu hluttekningu við fráfall góðs nágranna og vinar.

Magnús Pétursson.