Fréttaskýring
Aron Þórður Albertsson
aronthordur@mbl.is
Flugfreyjur og flugmenn Icelandair verða að taka á sig launalækkun sem nemur á bilinu 50-60% ætli félagið sér að vera starfhæft til framtíðar. Verður samningurinn að vera gerður til fimm ára hið minnsta auk þess að vera uppsegjanlegur að hálfu Icelandair að þeim tíma liðnum. Að öðrum kosti er betra að setja félagið í þrot og hefja endurreisn á nýrri kennitölu. Þetta segir aðili sem kallaður hefur til sem ráðgjafi eins af stóru hluthöfum félagsins.
Að hans sögn verður að hugsa kjarasamninga framangreindra stétta upp á nýtt. Gríðarlegar takmarkanir séu í samningunum sem jafnframt geri félaginu afar erfitt um vik í samkeppni við erlend lággjaldaflugfélög. Þar þurfi að endurskoða atriði í samningunum er varða hámark dagpeninga, forgangsrétt flugmanna í stöður og önnur takmarkandi ákvæði.
Ganga verður mjög langt
Að sögn sama sérfræðings er ekki hægt að ná framangreindu fram án þess að stjórnendur Icelandair séu tilbúnir að setja félagið í þrot. Ganga þurfi fram að ystu nöf til að koma starfsmönnum félagsins í skilning um alvarleika stöðunnar. Ekki sé nóg að umræddar stéttir taki á sig lítillegar skerðingar þegar félagið standi frammi fyrir því að þurfa að safna fjárhæð er nemur um þreföldu markaðsvirði þess. Slíkt mun þess utan reynast afar erfitt sýni stjórnendur Icelandair hluthöfum ekki fram á að fyrirtækið sé samkeppnishæft á alþjóðavísu.
Félagið horfi nú fram á samkeppni við flugfélög á borð við WizzAir, Ryan Air og Easy Jet, þar sem kostnaður er umtalsvert lægri. Til að mæta því standi félaginu ekkert annað til boða en að lækka einingakostnað, og það verulega.
Ferlið geti tekið breytingum
Í samtali Morgunblaðsins við forsvarsmenn hluthafa hefur komið fram að möguleg fjárfesting í Icelandair þurfi að standast samanburð við erlend félög til að sett verði aukið fé í reksturinn í væntanlegu hlutafjárútboði. Þá hafa viðmælendurnir sömuleiðis velt því upp hvort hlutafjárútboð sé heppileg leið við öflun þrjátíu milljarða króna. Þar kunni aðrar leið á borð við útgáfu breytanlegra skuldabréfa að vera skynsamlegri nálgun, en með því er fjárfestum veitt trygging af einhverju tagi. Þá er ekki talið ólíklegt að leiðir við fjármögnun kunni að taka breytingum í ferlinu.
Ef núverandi áætlanir um hlutafjárútboð ganga eftir er ljóst að um gríðarlega stórt útboð er að ræða á íslenskan mælikvarða. Ljóst er að sökum hárra fjárhæða verða fjárfestar afar gagnrýnir þegar framtíðaráætlanir félagsins verða lagðar fram.
Horfa til þriggja atriða
Samkvæmt upplýsingum frá viðmælendum Morgunblaðsins verður einna helst horft til þriggja atriða við ákvörðun um fjárfestingu. Verða þau jafnframt skoðuð með hliðsjón af því sem er að gerast hjá öðrum erlendum flugfélögum. Svara verður krafist um flotamál Icelandair til framtíðar, ekki síst þau atriði er snúa að samningum félagsins um kaup á MAX-þotum frá Boeing. Þá vilja fjárfestar sömuleiðis fá upplýsingar um hvar félagið hyggist staðsetja sig á markaði og hvernig það sjái fyrir sér að mæta samkeppni lággjaldaflugfélaga. Stærsta atriðið verður þó einingarkostnaður fyrirtækisins og hvernig hann stenst samanburð erlendis.
Viðræður halda áfram
Tilkynnt var um undirritun nýs kjarasamnings milli Icelandair og Flugvirkjafélags Íslands í gær. Gildir samningurinn til 31. desember árið 2025.
Þá héldu viðræður Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) og flugfélagsins áfram. Fundi var slitið á fjórða tímanum í gær án undirritunar samnings, en annar fundur hefur ekki verið boðaður. Haft var eftir Guðlaugu Líneyju Jóhannsdóttur, formanni FFÍ, að samninganefnd Icelandair krefðist þess að laun og réttindi flugfreyja yrðu skert í nýjum kjarasamningi.
Í gær bárust sömuleiðis fréttir af því að Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefði boðið samninganefnd Icelandair tilboð sem fæli í sér skerðingu kjara upp á 25%. Tillagan felur í sér lækkun launa og aukið vinnuálag. Ekki hefur verið tekin afstaða til tilboðsins.