Í grein eftir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í Morgunblaðinu 9. maí sl. fer hann yfir rök fyrir ábyrgri fiskveiðistjórnun og mikilvægi hennar fyrir íslenskan sjávarútveg. Einnig fer hann yfir mikilvægi þess að ábyrg fiskveiðistjórnun byggi á vísindum:
„...vísindin ganga jú ekki síst út á að kynda undir neistum efans og útiloka aldrei að ný þekking verði til þess að aðlaga þurfi fyrri kenningar nýrri vitneskju eða að þeim verði jafnvel kollvarpað. Það er því beinlínis nauðsynlegt að fá fram gagnrýni og aðhald á hina vísindalegu ráðgjöf.“
Nú hagar svo til að þau vísindi sem lögð voru til grundvallar 12 prósenta lækkunar á viðmiðunargildi ráðgjafareglu varðandi grásleppuveiðar í ár hafa reynst röng. Þetta hefur verið rækilega staðfest af þeim sem hafa verkað grásleppu á Íslandi síðastliðin 40 ár. Í stuttu máli snýst þetta um umreikning á aflatölum áranna 1985 til 2008 úr tunnumagni yfir í afla af óslægðri grásleppu. Í vísindagrein sem Hafró vísar í fóru höfundarnir þá torskildu leið að nýta afladagbækur sem innihéldu afar misjafnar upplýsingar, byggðar á misjöfnum forsendum, auk þess að vera í besta falli grófar áætlanir um aflamagn fyrir þá tíma sem skylda var að vigta grásleppu. Með samsuðu margra þátta töldu vísindamenn Hafró sig hafa fundið út að til að fylla eina staðlaða 105 kílóa tunnu af söltuðum hrognum þyrfti 425 kíló af óslægðri grásleppu.
En eftir síðasta svar frá Hafró um að ekki þætti tilefni til að endurskoða ráðgjöfina hafa komið fram nýjar upplýsingar og gögn sem sýna fram á augljósa villu á einni mikilvægri tölu í útreikningum Hafró, sem er hve mörg kíló þurfi af óslægðri grásleppu í eina hrognatunnu. Fjórir vinnsluaðilar hafa nú sent frá sér yfirlýsingu um að það skeiki að meðaltali 26 prósentum á tölum vísindamanna Hafró og þeirri nýtingartölu sem framleiðendurnir hafa sannreynt síðustu 40 ár. Hún er að það þurfi að meðaltali 535 kíló af óslægðri grásleppu til að framleiða eina tunnu af söltuðum hrognum.
Það má einnig benda á að það er ekki tilviljun að frá árunum 1992 til 2007 skeikar nákvæmlega sömu tölu á magni útfluttra hrogna samkvæmt útflutningstölum Hagstofu sem byggja á tölum úr útflutningsskýrslum, og þeirri tölu sem er skekkja í útreikningum vísindamanna Hafró, eða 26 prósentum.
Til að setja hlutina í samhengi og sýna fram á hve áríðandi er að þetta verði leiðrétt er sú 12 prósenta lækkun sem varð á ráðgjöf Hafró í ár byggð á því að aflamagn viðmiðunaráranna var fært niður um 9 prósent.
Nú hafa komið fram óvéfengjanleg gögn og yfirlýsingar frá framleiðendum um að nýtingartalan sé röng. Því legg ég til að ráðherra veiti nú þegar heimild til veiða á um það bil 10 tonnum af grásleppu sem nýtt verða í að kanna nýtingarhlufall grásleppuafurða.
Það er algerlega ótækt að stofnun sem kennir sig við vísindi komist upp með það að byggja ráðleggingar sínar á gagnslausum upplýsingum úr áratugagömlum afladagbókum þegar á auðveldan hátt á einum vinnudegi er hægt að fá mikilvægar rauntölur úr raunheimum með því einu að kíkja út af skrifstofunni og bleyta á sér hendurnar.
Það þarf ekki að hvetja ráðherra til að víkja frá ráðgjöf Hafró, heldur þarf ráðherra að hafa kjark til að beita sér fyrir því að Hafró fari strax í að meta ný gögn og yfirlýsingar frá framleiðendum, eða einfaldlega skikki vísindamennina að fara í slopp og hanska og vinna með staðreyndir beint úr hafinu.
Farsælast væri fyrir alla sem málið varðar að vísindamennirnir Sigurður Þór Jónsson og James Kennedy viðurkenndu þau mistök sem lögð voru til grundvallar lækkunar á ráðgjöf Hafró og að eigin frumkvæði leiðréttu niðurstöðu sína. Fái hún að standa kostar hún árlega 300-600 milljónir í tekjutapi þeirra sem hafa þessar veiðar og vinnslu að atvinnu.
Þetta snýst ekki um að halda haus, því það er ekki spurning hvort þeir verði að leiðrétta niðurstöður sínar heldur hvenær þeir ætli að gera það. Ég skora á þá félaga að hafa frumkvæði að leiðréttingu strax því þetta þolir enga bið og klárt er að orðspor þeirra sem vísindamanna bíður minni hnekki vindi þeir sér nú þegar í að leiðrétta niðurstöður sínar.
Höfundur er fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda og grásleppukall. axelhelgason@gmail.com