Gunnar Nikulásson var fæddur á Sólmundarhöfða í Innri-Akraneshreppi 10. ágúst 1929. Hann lést 27. apríl 2020. Foreldrar Gunnars voru Nikulás Pálsson, fæddur 2. nóvember 1911 á Sólmundarhöfða og Guðbjörg Helgadóttir, fædd á Krossi í Innri-Akraneshreppi 29. september 1884.

Eiginkona Gunnars var Guðrún Ágústsdóttir, f. 25.9. 1926, d. 20.10. 1993.

Fyrir átti Guðrún tvíburadæturnar Helgu Gísladóttur, f. 18. júní 1948 og Margréti Gísladóttur, f. 19. júní 1948.

Helga er gift Katli Baldri Bjarnasyni og eiga þau tvo syni, Bjarna Skúla og Baldur Þór. Barnabörnin eru 6 og barnabarnabörnin 2.

Margrét er gift Axel Jónssyni og eiga þau þrjú börn, Jón Gunnar, Guðrúnu Jóhönnu og Evu Björk. Barnabörnin eru 10 og barnabarnabörnin 3.

Gunnar og Guðrún eignuðust þrjú börn. Guðmund Ágúst, f. 22. júlí 1959, Guðbjörgu, f. 15. maí 1964 og Gísla Rúnar Má, f. 5. desember 1966.

Guðmundur Ágúst er giftur Guðmundu Úrsúlu Árnadóttur og eiga þau 3 dætur, Örnu Dan, Úrsúlu og Margréti Helgu. Barnabörnin eru 3.

Guðbjörg er gift Sigurði Jónssyni og eiga þau 6 börn, Gunni, Jón Benedikts, Nikulás Rúnar, Valgerði Álfheiði, Þórð Má og Eyvind Enok. Barnabörnin eru 4.

Gísli Rúnar Már á soninn Gunnar Inga.

Útför Gunnars fór fram 8. maí 2020 í kyrrþey.

Elsku afi.

Minningarnar okkar saman eru margar, alltof margar til að tala um hér.

Mikið er ég þakklát fyrir allt sem við áttum saman.

Nú hafið þið amma sameinast á ný eftir 23 ára aðskilnað. Nú verður heldur betur sungið og dansað dátt þegar þið hittist.

Takk fyrir allt elsku afi minn.

Sjáumst seinna vinur.

Sumarnótt

Undir bláhimni blíðsumars nætur

barstu' í arma mér rósfagra mey.

Þar sem döggin í grasinu grætur,

gárast tjörnin í suðrænum þey.

Ég var snortinn af yndisleik þínum

ástarþráin er vonunum felld.

Þú ert ljósblik á lífshimni mínum

þú ert ljóð mitt og stjarna í kveld.

Ég vil dansa við þig, meðan dunar

þetta draumblíða lag, sem ég ann.

Meðan fjörið í æðunum funar

og af fögnuði hjartans, er brann.

Að dansa dátt, það er gaman

uns dagur í austrinu rís.

Þá leiðumst við syngjandi saman

út í sumarsins paradís.

(Joe Llyons, Sam C. Hart. / Magnús Kr. Gíslason frá Vöglum)

Þín

Gunnur.

Elsku langafi.

Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig.

Mér fannst mjög gaman að eiga þær stundir með þér þegar við horfðum t.d á Emil í Kattholti.

Ég mun alltaf vera þakklát fyrir að fá að þekkja þig og búa hjá þér.

Létt er að stíga lífsins spor,

ljúf er gleðin sanna,

þegar eilíft æsku vor,

er í hugum manna.

(R.G.)

Kær kveðja

Guðrún (Gunna).

Mikill öðlingur, Gunnar Nikulásson, er fallinn frá. Hann hefur verið ástvinur mömmu minnar, Unnar Leifsdóttur, undanfarin 24 ár.

Það var mikil gæfa fyrir þau bæði að hafa kynnst, því samband þeirra var óvenju fallegt og bar aldrei skugga á. Þau höfðu bæði misst maka sína mjög skyndilega í blóma lífsins. Þau áttu hvort um sig sínar fjölskyldur, börn og barnabörn og höfðu aldrei í huga að rugla saman reytum, heldur voru samvistum hvort við annað þegar þau langaði til.

Þau ferðuðust mikið saman innanlands á ferðabílnum (gamla rúbbanum) og fóru víða í styttri og lengri ferðir, m.a. hringinn um landið nokkrum sinnum. Þau fóru líka um Suðurlandið og voru t.d. stödd í Hveragerði á tjaldstæðinu, þegar Eden brann. Þau sváfu vært þar og urðu einskis vör þótt allt væri vitlaust í kringum þau og er mikið búið að grínast með þetta.

Þau voru líka mikið í sumarbústað í Ölveri undir Hafnarfjalli og þar dundaði gamli bóndinn sér við að slá og raka og dyttaði að ýmsu smálegu auk gönguferða sem þau voru dugleg að fara í.

Í öllum þessum ferðum voru hundarnir hennar mömmu með í för, fyrst Fífa svo Tinna. Þeim þótti mikið til Gunnars koma og hændust mjög að honum. Það segir margt um mann ef dýr laðast að honum.

Gunnar og mamma fóru í nokkrar sólarlandaferðir eftir að mamma fékk hann til að fá sér vegabréf, því hann hafði aldrei farið til útlanda. Hann naut þess og þau skemmtu sér vel.

Gunnar laðaði fólk að sér vegna sinnar rólegu og elskulegu framkomu við alla, hann var kátur og skemmtilegur og fannst gaman að grínast og sprella. Ef fólk var að þrasa um pólitík eða annað, brosti hann bara blíðlega og beið þolinmóður þar til storminn lægði.

Okkur Hlyn bróður þótti mjög vænt um hann og sömu sögu er að segja um aðra fjölskyldumeðlimi.

Það var mömmu mikið áfall þegar Gunnar hennar veiktist og var seinna fluttur á Dvalarheimilið Höfða. Hún heimsótti hann nánast daglega og stundum kom hann með okkur í bíltúr um bæinn og var þá kátur og hress. Það var falleg sjón að sjá mömmu svo leiða hann inn á Höfða eftir bíltúrinn.

Svo datt á heimsóknarbann og var það mikil sorg fyrir þau að geta ekki hist aftur en mamma náði aðeins að tala við hann í síma, svo hvarf hann á braut hægt og hljótt mánudaginn 27. apríl. Börnin hans fengu sem betur fer að vera hjá honum uns yfir lauk.

Fallegu sambandi var lokið, sambandi sem ungt fólk gæti lært margt af, þar sem var gagnkvæm virðing hvors fyrir öðru og góðar og skemmtilegar samverustundir voru alla tíð viðhafðar og fyrir það ber að þakka! Elsku mamma mín, þú hefur sannarlega fengið þinn skerf af sorginni í lífinu en þú átt okkur að, alltaf þegar þú vilt.

Fjölskyldu Gunnars votta ég mína dýpstu samúð og bið Guð um að blessa minningu hans.

Hrönn Eggertsdóttir.