Kálfshamarsvík Búrhvalurinn sem liggur í fjörunni er um 14 metra langur og sjálfsagt tugir tonna á þyngd.
Kálfshamarsvík Búrhvalurinn sem liggur í fjörunni er um 14 metra langur og sjálfsagt tugir tonna á þyngd. — Morgunblaðið/Ólafur Bernódusson
Ólafur Bernódusson Skagaströnd Það er af sem áður var að hvalreki þótti hið mesta happ og bjargaði oft heilu byggðarlögunum frá hungurdauða. Nú á tímum er hvalreki vandamál sem viðkomandi sveitarfélag verður að leysa, oft með ærnum tilkostnaði.

Ólafur Bernódusson

Skagaströnd

Það er af sem áður var að hvalreki þótti hið mesta happ og bjargaði oft heilu byggðarlögunum frá hungurdauða. Nú á tímum er hvalreki vandamál sem viðkomandi sveitarfélag verður að leysa, oft með ærnum tilkostnaði.

Þannig er málum háttað með tæplega 14 metra langan búrhvalstarf sem rak upp í fjöru í Kálfshamarsvík, líklega fljótlega eftir helgina 2.-3. maí. Hvalurinn liggur á einum af fallegustu stöðunum í Kálfshamarsvík og því þarf að fjarlæga hræið sem fyrst.

Að sögn Dagnýjar Rósu Úlfarsdóttur, oddvita Skagabyggðar, kemur ekki til greina að láta hræið rotna á þessum stað né heldur að grafa það í stórgrýttri fjörunni. Þessi staður er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á svæðinu, þar sem stuðlabergið skapar fallega umgjörð um víkina.

Dagný segir að ekki verði þó gripið til aðgerða fyrr en svör hafi borist frá Umhverfisstofnun við nokkrum spurningum sem hún sendi stofnuninni. Þá hugsar hún sér að fá björgunarsveitina Strönd á Skagaströnd til að draga hræið út á rúmsjó á Húnabjörginni og sökkva hvalnum þar.

Síðan fréttist af hvalrekanum þarna hefur fólk streymt á staðinn til að skoða þessa risastóru skepnu þar sem hún liggur í fjörunni með sinn tunnulaga haus. Þeirra á meðal var Bjarni Jónsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra, en hann tók sýni úr hvalnum til greiningar og mældi dýrið í bak og fyrir.