Fundur Allir lögðu sig fram í viðræðunum að sögn Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara, og skilaði það árangri seint í gærkvöldi.
Fundur Allir lögðu sig fram í viðræðunum að sögn Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara, og skilaði það árangri seint í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Sigurður Unnar
Samninganefndir Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu kjarasamning skömmu fyrir miðnætti í gær eftir tæplega 14 klukkustunda viðræður.

Samninganefndir Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu kjarasamning skömmu fyrir miðnætti í gær eftir tæplega 14 klukkustunda viðræður. Í samningnum er kveðið á um hækkun lægstu launa með sérstakri aukagreiðslu að fyrirmynd kjarasamnings Eflingar við Reykjavíkurborg. Verkfalli Eflingar gagnvart SÍS er með samningum aflýst og ganga félagsmenn til starfa með venjubundum hætti í dag.

Verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa í Kópavogi, Seltjarnarnesi, Ölfusi og Mosfellsbæ hafði staðið yfir frá því á þriðjudag og setti strik í skólahald og ýmsa aðra starfsemi. Verkfallið náði til 274 félagsmanna og starfa 233 þeirra í Kópavogi.

Fyrsti formlegi samningafundur um endurnýjun kjarasamnings milli Eflingar og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) fór fram síðastliðinn föstudag, að því er fram kemur í tilkynningu frá Eflingu.

SFV fer með samningsumboð gagnvart Eflingu fyrir hönd fjölda hjúkrunarheimila á félagssvæði Eflingar, til að mynda Grund, Hrafnistu og Eir.

Efling hyggst gera sömu kröfur í viðræðum sínum við SFV og félagið gerði í viðræðum sínum við ríkið, borgina og sveitarfélögin.

„Krafa okkar um leiðréttingu er nákvæmlega sú sama og hjá öðrum hópum í sömu stöðu,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. ragnhildur@mbl.is

liljahrund@mbl.is