Kristjana Björg Guðbrandsdóttir
Kristjana Björg Guðbrandsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristjönu Björgu Guðbrandsdóttur: "Pappírsiðnaður er leiðandi á heimsvísu í sjálfbærum aðföngum, endurnýjanlegri orku og hlutfalli endurvinnslu."

Þegar fjallað er um sjálfbærni pappírs og prentiðnaðar er mikilvægt að skilja að staðreyndir og sleggjudóma. Pappírsiðnaður er leiðandi á heimsvísu í sjálfbærum aðföngum, endurnýjanlegri orku og hlutfalli endurvinnslu.

Þrátt fyrir það eru mýtur um pappír lífseigar á meðal neytenda.

Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, var nýverið afhent fræðslurit um sjálfbærni pappírs í lýðveldisgarðinum.

Í ritinu er farið yfir sleggjudóma og staðreyndir sem varða vinnslu pappírs. Til dæmis þá staðreynd að pappírs- og prentiðnaður á norðurhveli jarðar tryggir heilbrigða og vaxandi nytjaskóga og notar virt vottunarkerfi sem tryggja að pappírinn sé unninn úr sjálfbærum skógi.

Fræðsluritið er gefið út í samstarfi Iðunnar fræðsluseturs, Samtaka iðnaðarins, Grafíu og pappírsinnflytjenda og stuðst við rannsóknir Alþjóðaefnahagsþingsins og kynningarefni frá alþjóðlegu samtökunum Two Sides, sem hafa það að markmiði að upplýsa um sjálfbærni pappírs- og prentiðnaðar og styðjast eingöngu við vísindalegar rannsóknir. Frá árinu 2005-2015 uxu evrópskir nytjaskógar um 44.000 ferkílómetra, sem er stærra landsvæði en Sviss og sem nemur vexti á stærð við 1.500 fótboltavelli á hverjum degi. Á einu ári mun þroskað tré taka til sín um það bil 22 kg af koltvísýringi úr andrúmsloftinu og gefa frá sér súrefni í staðinn. Af því að pappír er unninn úr trjám geymir hann kolefni allan sinn líftíma.

78% bókatitla eru prentuð erlendis

Það er full þörf á upplýsingu um sjálfbærni þessa iðnaðar, sem hefur átt undir högg að sækja og er oft stillt upp að ósekju sem óumhverfisvænum kosti. Prentun færist einnig í auknum mæli út fyrir landsteinana. Nú er til dæmis svo komið að 78% bókatitla eru prentuð erlendis.

„Mig minnir að Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur hafi sagt að ef bókin hefði verið fundin upp í gær myndi hún þykja hin besta snilld. Það þarf ekki að hlaða hana, 100% endurvinnanleg, meðfærileg og síðast en ekki síst, fallegur gripur.“ Þetta segir Andri Snær Magnason í pistli um bækur í nýjustu útgáfu Prentarans og veltir því upp hvort prentöryggi sé atriði sem þurfi að íhuga nú þegar prentun sé að miklu að færast út fyrir landsteinana.

Vangaveltur Andra Snæs fela í sér mikilvæga spurningu. Viljum við prenta bækur á Íslandi í framtíðinni?

Stuðningur okkar við íslenskan prentiðnað, sem er nátengdur menningarsögu okkar og bókelsku, fer sífellt minnkandi. Atvinna fjölda fólks er í hættu og sé maður verulega svartsýnn og búist ekki við auknum stuðningi stjórnvalda og almennings gæti maður ímyndað sér að það verði ekki prentað hér á landi í framtíðinni.

Sumir segja að prentun sé hvort sem er deyjandi iðngrein og slíka grein eigi ekki að styðja. En miklar tæknibreytingar eru enginn dauði heldur fela í sér annars konar líf, þar sem minna er meira og gæði og sjálfbærni eru í fyrirrúmi.

Merkileg menningarstoð

Sú þróun að prentverk sé að flytjast úr landi er sorgleg og óumhverfisvæn, kolefnissporið við að prenta bækur og annað efni erlendis er nokkuð dýpra en að prenta það hér heima. Og jafnvel þótt við þurfum að flytja inn pappír til verksins.

Prentverkið fléttast saman við myndmáls- og bókmenntasögu okkar Íslendinga og er reyndar merkileg stoð í menningu okkar. Þessi sterka tenging gerir það að verkum að það væri hryggilegt ef iðnaðurinn legðist af vegna andvaraleysis.

Með því að velja pappír og styðja við íslenskan prentiðnað ertu ekki í vonlausri baráttu fyrir deyjandi iðngrein heldur ertu að velja umhverfisvænan og sjálfbæran kost, styðja íslenskt atvinnulíf og iðnað og að auki að leggja rækt við menningararf okkar.

Höfundur er sviðsstjóri prent- og miðlunarsviðs hjá Iðunni fræðslusetri.

Höf.: Kristjönu Björgu Guðbrandsdóttur