Frá og með deginum í dag er öllum skylt að bera andlitsgrímu í sóttvarnaskyni á Spáni vegna kórónuveirunnar ef ekki er hægt að koma við tveggja metra fjarlægðarreglunni. Áður var þess aðeins krafist þegar notast var við almenningssamgöngur. Krafan gildir ekki um börn yngri en sex ára, en þó er mælt með að þau sem eru á aldrinum þriggja til fimm ára hylji vit sín. Ekki eru sérstök sektarákvæði ef út af er brugðið.
Spænsk heilbrigðisyfirvöld segja að þessar ráðstafanir séu hugsaðar til þess að verja jafnt þá sem bera grímu og alla í kringum þá. Hann segir að gerður sé mikill greinarmunur á því að fara um fjölmenn stræti borga þar sem smithætta er mikil og að ganga einn úti í náttúrunni eða á fáförnum stöðum, en þar þurfi ekki að nota andlitsgrímur.
„Þessar reglur eru ekki flóknar,“ sagði Fernando Simón, fulltrúi heilbrigðisstjórnarinnar, við blaðamenn. „Sérhver maður verður að gæta þess að tveir metrar séu á milli sín og annarra á almannafæri. Sjái menn að það sé ekki hægt verða þeir að setja upp andlitsgrímu. Svo einfalt er það.“
Andlitsgrímur er hægt að fá ókeypis við lestarstöðvar og víðar á Spáni.
Pedro Sánchez forsætisráðherra ávarpaði spænska þingið í gærmorgun og lagði til að áfram yrði næstu tvær vikurnar viðhaldið því neyðarstigi sem við lýði er í landinu. Ef samþykkt, verður það í fimmta sinn frá 14. mars sem neyðarstigið er framlengt.
Forsætisráðherrann sá ástæðu til að biðjast afsökunar á þeim mistökum sem stjórnvöldum hefðu orðið á síðan kórónuveirufaraldurinn hófst, en tryggja yrði þann árangur sem náðst hefði með því að framlengja neyðarstigið. Pablo Casado, leiðtogi Þjóðarflokksins, gagnrýndi tillöguna og sagði að ringulreið ríkti í landinu vegna þess hvernig ríkisstjórnin stæði að málum.
Um 28 þúsund manns hafa látist af völdum kórónuveirunnar á Spáni, en faraldurinn er sagður á niðurleið.