Ólafur Stefánsson yrkir að gefnu tilefni: Það nær ekki nokkurri átt, núna að opna'upp á gátt, fyrir veiru frá Kína, með kórónu sína, slíkt væri saupasátt.

Ólafur Stefánsson yrkir að gefnu tilefni:

Það nær ekki nokkurri átt,

núna að opna'upp á gátt,

fyrir veiru frá Kína,

með kórónu sína,

slíkt væri saupasátt.

Þetta rifjar upp fyrir mér limru sem ég lærði líklega á síðustu öld og ég man ekki hvort er eftir Móra eða karlinn á Laugaveginum:

Það nær auðvitað alls engri stefnu

að eiga sér viðhaldsnefnu

að halla sér að

þegar heima er það

sem ég venst að ganga að sem gefnu.

Aldrei er hin frjálsa náttúra jafn heillandi eins og á vorin. Á þriðjudag segir Philip Vogler frá því á Boðnarmiði að þau hjónin hafi skroppið úr bílnum á leið austur um Skaftafellssýslur:

Um lækjarbakka hvetur hvönn

hvatvísa að ganga.

Dýrðarhlé frá dagsins önn

dugir árið langa.

Indriði á Skjaldfönn rifjar upp vísu eftir afa sinn Indriða á Fjalli með yfirskriftinni „Ósamræmi“:

Af stórum kominn en manna minnstur.

Að mælgi dýpstur en hugsun grynnstur.

Í stöðu fremstur en framsókn hinstur.

Og fátt hann vissi en lærði kynstur.

Anton Helgi Jónsson skrifar á sunnudag: „Í ferð gærdagsins um sunnanverðan Sveifluhálsinn rákumst við í gönguhópnum á blóm sem mér fannst vert að tengja við vorið og vináttuna. Til urðu tvær vísur – en kannski bara ein og hálf. Bragurinn er þó örugglega frumhent léttilag“:

Vorið sýnir vinarþel

með vetrarblómi.

Losar mig úr læstri skel

og leiðans tómi.

Eftir langan mæðumel

sést mikill ljómi.

Vorið sýnir vinarþel

með vetrarblómi.

Vísunum fylgdi falleg mynd af vetrarblóminu.

Magnús Halldórsson yrkir:

Fuglarnir að fara'á kreik,

fagna degi nýjum.

Við hólinn eru lömb að leik,

logar glóð í skýjum.

Hér kveður við annan tón hjá Magnúsi, - „Skarði in memoriam“, - og lætur fallega mynd fylgja:

Ungur fékk hann úrvalsmöt,

einkum bak og læri,

hann varð seinna hangikjöt,

hrúturinn minn kæri.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is