Þorsteinn Þorsteinsson
Þorsteinn Þorsteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þorstein Þorsteinsson og Gunnlaug Sigurðsson: "Á næstu vikum og misserum er sérstaklega mikil þörf á að sinna vel þeim hluta nemendahópsins sem hefur staðið höllum fæti."

Ýmsar rannsóknir og kannanir hafa sýnt okkur að of mörgum nemendum líður ekki vel í skóla og of margir nemendur telja skólanámið gagnslítið. Við getum verið sammála um að það skiptir miklu máli að öllum nemendum líði vel í skóla. Það er algjör forsenda þess að námsárangur verði góður. Hvað er þá til ráða?

Vellíðan nemenda, hugmyndavinna

Látum skólana í fullu sjálfstæði sínu ákveða hvaða breytingar þeir gera til að bæta líðan nemenda og árangur. Föllum ekki í þá gryfju að láta einhvern „stóra bróður“ ákveða hvað gert er. Venjulega fylgja slíkum vinnubrögðum skýrslu- og greinargerðir sem lenda iðulega í möppum uppi í hillum og eru aldrei lesnar. Ein leið er að skólarnir efni til víðtækrar hugmyndasamkeppni meðal nemenda, forráðamanna og skólamanna. Margar góðar hugmyndir er að finna innan skólanna. Nám þarf að vera fjölbreytt til að höfða til breiðs hóps nemenda.

Samvinna skólastiga, fjölbreytt nám

Til að auka fjölbreytileika í námi kemur til greina að skipuleggja margs konar samstarf á milli grunn- og framhaldsskóla sem bjóða upp á verk- og listnám. Tvær til þrjár kennsluvikur í framhaldsskólunum gætu verið hluti af náminu t.d. í 10. bekk. Kennslan yrði í höndum kennara framhaldsskólanna og nemendur framhaldsskólanna gætu verið til aðstoðar í kennslustundum. Þá mætti hugsa sér að í efstu bekkjum grunnskólans færi fram tónlistarkennsla þar sem þekktir hljóðfæraleikarar yrðu fengnir til að kenna nemendum á hljóðfæri sem njóta vinsælda meðal ungs fólks. Fjölmargar aðrar gagnlegar hugmyndir eru þegar tiltækar til að bæta líðan ungs fólks og efla þátttöku þeirra í list- og verkgreinum.

Náms- og starfsráðgjafar

Við marga skóla eru starfandi náms- og starfsráðgjafar sem vinna frábært starf við að leiðbeina nemendum og styðja þá. Stjórnendur skóla, kennarar og annað starfsfólk nýtur einnig fagmennsku náms- og starfsráðgjafa í vinnu sinni með nemendum. Skólastjóri á Stór-Reykjavíkursvæðinu sagði fyrir mörgum árum að aldrei hefði einn starfsmaður hjálpað jafn mörgum nemendum og nýráðinn námsráðgjafi. Nú þegar venjulegt skólahald hefur legið niðri í nokkrar vikur hefur vanlíðan margra nemenda aukist. Skólar hafa eflaust gert ýmislegt til að hjálpa nemendum sínum. Á næstu vikum og misserum er sérstaklega mikil þörf á að sinna vel þeim hluta nemendahópsins sem hefur staðið höllum fæti. Með markvissum aðgerðum má ef til vill draga úr brottfalli nemenda í framhaldsskólum sem hefur verið of mikið undanfarin ár.

Þorsteinn er fv. skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ og Gunnlaugur er fv. skólastjóri Garðaskóla. thorsteinn2212@gmail.com

Höf.: Þorstein Þorsteinsson, Gunnlaug Sigurðsson