Listaverk úr náttúrunni Áskell Þórisson við eina af myndunum sem hann hefur unnið og látið prenta á striga.
Listaverk úr náttúrunni Áskell Þórisson við eina af myndunum sem hann hefur unnið og látið prenta á striga. — Ljósmynd/aðsend
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Eftir að ég eignaðist alvöru myndavél og fór að hafa meiri tíma hóf ég að taka myndir af hlutum sem ég hafði haft áhuga á en ekki getað sinnt. Það eru aðallega nærmyndir úr íslenskri náttúru. Ég hef líka þurft að vinna með myndvinnsluforrit í starfi mínu og fór að gera tilraunir. Ég er ekkert feiminn við að gera úr hráefninu þá mynd sem mér líkar,“ segir Áskell Þórisson áhugaljósmyndari sem sýnir verk sín í Gallerí Vest á morgun og laugardag.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Eftir að ég eignaðist alvöru myndavél og fór að hafa meiri tíma hóf ég að taka myndir af hlutum sem ég hafði haft áhuga á en ekki getað sinnt. Það eru aðallega nærmyndir úr íslenskri náttúru. Ég hef líka þurft að vinna með myndvinnsluforrit í starfi mínu og fór að gera tilraunir. Ég er ekkert feiminn við að gera úr hráefninu þá mynd sem mér líkar,“ segir Áskell Þórisson áhugaljósmyndari sem sýnir verk sín í Gallerí Vest á morgun og laugardag.

Áskell segist oft fara með myndavélina af stað og taka margar ljósmyndir í ferðinni, stundum geti hann enga nýtt í framhaldsvinnslu en stundum gangi betur. Hann setjist síðan niður við tölvuna og geri tilraunir með hráefnið.

„Ég dreg fram liti sem mér finnst fallegir. Það kemur fyrir að mér þyki útkoman gefa góð fyrirheit og þá hætti ég ekki fyrr en myndin er orðin áhugaverð,“ segir Áskell.

Hann segir að það hafi helst valdið sér vandræðum hvað dýrt er að stunda þetta áhugamál og honum hafi stundum verið bent á að heimilisbókhaldið krefjist þess að eitthvað komi á móti. „Ég hef svo sem selt myndir en veit að ég er afburðalélegur sölumaður.“

Áskell hefur stefnt að því um tíma að setja upp sýningu og greip gæsina þegar hann fékk aðstöðu í Galleríi Vest á Hagamel 67 í Reykjavík og kveðst þakklátur fyrir það. Þar vonast hann til að

geta jafnvel selt einhverjar myndir svo heimilisbókhaldið komist í jafnvægi.

Tveir dagar eru langur tími

Sýningin stendur ekki lengi, hún verður opnuð síðdegis á morgun, föstudag, og verður síðan opinn frá kl. 13 til 17 á laugardag. „Tveir dagar eru langir í lífi fjölmiðlamanns,“ segir Áskell þegar hann er spurður um þennan skamma tíma en hann starfaði lengi sem blaðamaður, meðal annars sem ritstjóri Bændablaðsins og Dags á Akureyri. Hann starfar nú við útgáfu- og fræðslumál hjá Landgræðslunni.