[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baskvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Seðlabankinn spáir því í nýjum Peningamálum að atvinnuleysi geti farið í 12% á þriðja ársfjórðungi. Það sé mesta atvinnuleysi sem um getur síðan skipulegar mælingar hófust.

Baskvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Seðlabankinn spáir því í nýjum Peningamálum að atvinnuleysi geti farið í 12% á þriðja ársfjórðungi. Það sé mesta atvinnuleysi sem um getur síðan skipulegar mælingar hófust.

Eins og sýnt er á grafinu hér til hliðar gæti það samsvarað því að um 26 þúsund manns verði án vinnu.

Það yrði fjölgun um 9-10 þúsund manns frá aprílmánuði.

Að auki voru um 32.800 manns á hlutabótaleiðinni í apríl en sú leið var í boði fyrir fólk sem bjó við skert starfshlutfall út af faraldrinum.

Vinnumálastofnun umreiknar þennan fjölda í atvinnuleysisprósentur með því að leggja saman skerðingu á starfshlutfalli. Ef til dæmis tveir fara í 50% vinnu jafngildir það því að einn sé án vinnu.

Margir í byggingariðnaði

Vinnumálastofnun hefur tekið saman tölfræði yfir atvinnuleysi erlendra ríkisborgara og skiptingu eftir starfsgreinum. Leiðir sú greining í ljós að hlutfallið er um 7% í fiskveiðum, fiskeldi og vinnslu, um 8% í iðnaði og um 14% í byggingariðnaði. Eins og sýnt er á grafinu hér hægra megin er hlutfallið líka yfir 10% í verslun, gistiþjónustu og veitingaþjónustu. Af því leiðir að samdráttur í ferðaþjónustu á mikinn þátt í atvinnuleysi erlendra ríkisborgara.

Skal tekið fram að hlutföllin vísa til skiptingar atvinnuleysis innan hópsins en ekki hlutfalls hans af heildarfjölda atvinnulausra.

Verði um 30% atvinnulausra

Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir mega áætla út frá þróun síðustu vikna að um 30% þeirra sem verða án vinnu í sumar verði erlendir ríkisborgarar.

Ef spá Seðlabankans gengur eftir gætu því um 8 þúsund erlendir ríkisborgarar verið án vinnu í sumar.

Fram kom í máli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunar að óvissa væri um hagspár við þessar aðstæður.

„Það er mjög mikil óvissa um allt, ekki síst um þessar tölur,“ segir Þórarinn í samtali við Morgunblaðið.

Óvissa um aðlögunina

„Það er vegna þess að við vitum ekki hvernig aðlögunin mun eiga sér stað. Hún getur orðið með fjölmörgum hætti á vinnumarkaði. Það getur verið að fleiri muni fari í hlutastörf eða hverfi af vinnumarkaði. Þá verður atvinnuleysið ekki jafn mikið, heldur verða viðbrögðin með öðrum hætti. Við sáum það til dæmis eftir fjármálakreppuna [2008-9] að margt fólk hvarf af vinnumarkaði. Það flutti ekki aðeins til útlanda heldur fór til dæmis í nám. Þá má benda á að þegar svona farsótt geisar sér margt fólk kannski ekki tilganginn með því að vera virkt í atvinnuleit. En fólk er ekki skráð atvinnulaust nema það sé í virkri atvinnuleit,“ segir Þórarinn.

Birta ekki sundurliðunina

Seðlabankinn styðjist í þessu efni við skilgreininguna í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar en ekki við skilgreiningu Vinnumálastofnunar.

Þórarinn segir aðspurður að bankinn birti ekki sundurliðaðar spár um atvinnuleysi eftir hlutfalli erlendra og íslenskra ríkisborgara né heldur skiptingu atvinnuleysis milli atvinnugreina.

Þá segir hann aðspurður að ef ferðaþjónustan fer í gang í sumar kunni atvinnuleysið að reynast minna en bankinn spái nú.

Fjallað er um það í Peningamálum að stjórnvöld hafi ákveðið að flýta umsvifamiklum fjárfestingarverkefnum og auka heildarfjárfestingu hins opinbera um 20 milljarða króna frá því sem var ákveðið.

Taka tillit til fjárfestingar

Spurður um áhrifin á atvinnuleysið segir Þórarinn að tekið sé tillit til þessa í spá Seðlabankans fyrir þriðja fjórðung. „Ef það hefði ekki komið til þessara aðgerða hefði atvinnuleysið væntanlega orðið meira,“ segir Þórarinn.

Seðlabankinn geri ráð fyrir einhverjum brottflutningi erlends vinnuafls vegna samdráttar. Þó megi reikna með að meirihluti erlendra ríkisborgara muni kjósa að búa áfram á Íslandi.

En sú var einmitt raunin eftir fjármálakreppuna 2008. Þá má benda á að víða í Evrópu er staða efnahagsmála mun verri en hér.

Aukið náttúrulegt atvinnuleysi

Loks segir Þórarinn útlit fyrir að náttúrulegt atvinnuleysi muni aukast á næstunni. En hvað skyldi það hagfræðihugtak þýða?

„Það sem við erum að vísa í er að við eðlilega nýtingu framleiðsluþátta í hagkerfinu, þar sem verðbólga er við markmið og framleiðsluþættir fullnýttir, er alltaf eitthvert atvinnuleysi. Fólk er að segja upp starfi, leita að annarri vinnu og flæða milli greina,“ segir Þórarinn.