Álfhildur Hjördís Jónsdóttir var fædd 4. maí 1944. Hún lést 3. maí 2020.

Útförin fór fram 13. maí 2020.

Elsku Álfhildur mín. Við kynntust '91, þegar ég og Óðinn byrjuðum saman. Þú tókst mér strax opnum örmum og höfum við haldið sambandi síðan, þrátt fyrir sambandsslit okkar Óðins. Þú hefur verið mér góð tengdamamma, vinkona og amma barnanna mína. Þú varst alltaf svo góð við börnin mín, bæði þau sem voru þér blóðtengd og þau sem voru það ekki.

Ég á margar góðar minningar um þig og ætla ég að nefna nokkrar hér.

Ég man hvað þú varst alltaf mikill dýravinur og þú þoldir ekki að vita til þess að illa væri farið með dýr. Þú áttir yndislegan hund, Tönju, og var hún alveg einstök. Daniel og Alice þótti svo vænt um hana og þau byrjuðu að kalla þig ömmu Tönju, til að greina á milli ammanna, og það nafn festist við þig eftir það. Þú varst alltaf kölluð „amma Tanja“ á okkar heimili.

Ég man hvað þér fannst gaman að segja sögur um líf þitt, börnin þín og barnabörnin. Þú varst svo stolt af þeim og þótt ég hef ekki hitt sum af barnabörnum þínum í mörg ár finnst mér eins ég þekki þau af því þú varst svo dugleg að segja frá þeim.

Ég man hvað þú vildir alltaf öllum vel. Þú komst oft með heimabakað rúgbrauð til okkar, af því að þú vissir að Daniel þótti það svo gott.

Ég man líka hvað þú varst fyndin. Einu sinni gafstu Alice ferðaklósett í sex ára afmælisgjöf. Alice var alveg dolfallin yfir ferðaklósettinu ykkar og langaði hana í svona og það fékk hún auðvitað og svo hlóstu bara.

Það var alltaf svo gaman að hitta þig í búðinni, þar var spjallað mikið og lengi, og ef strákarnir voru með mér spurðir þú alltaf: „Á ég ekki að kaupa eitthvað fyrir ykkur?“ Það fannst þeim alveg æðislegt.

Ég man hvað þú varst oft hress. Þá var spilað á gítar og sungið.

Ég man líka þegar Daniel átti að byrja hjá dagmömmu og aðlögunin gekk svo illa, hann bara grét og grét. Þá ákvaðst þú bara að gerast dagmamma og passaðir hann eftir það og þá grét minn ekki lengur.

Ég man þegar Alice átti mjög erfitt tímabil og fór lengi ekki út úr húsi. Þá datt þér það ráð í hug að biðja hana að koma og hjálpa afa á Salthúsinu. Það var það sem kom henni út úr húsi og fékk hún síðan vinnu hjá ykkur á Salthúsinu og blómstraði eftir það.

Ég man hvað þú varst hrædd þegar þú greindist með krabbamein. Ég fann svo til með þér. Þú varst samt svo dugleg og jákvæð og þér fannst gott að hafa Margréti þér við hlið.

Ég man eftir síðasta símtalinu okkar. Ég ákvað að hringja í þig, þar sem það var ekki lengur hægt að heimsækja þig út af Covid-ástandinu.

Við töluðum lengi um hitt og þetta og þegar við vorum að kveðja segir þú: „Rúna, mér þykir vænt um þig.“ Þetta voru síðustu orðin okkar á milli og er ég rosalega þakklát fyrir það. Ég hefði ekki viljað hafa það öðruvísi.

Elsku Álfhildur mín. Takk fyrir allt.

Elsku Láki, Helena, Björgvin, Einar, Linda, Margrét og barnabörn, ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur, megi guð gefa ykkur styrk á þessum erfiða tíma.

Runa Szmiedówicz.

Yndislega amma mín. Ég á eftir að sakna þess svo mikið að fara til þín í heimsókn og spjalla tímunum saman, hlæja og hlusta á alla viskuna sem þú geymdir.

Ég er mjög heppin að hafa fengið að hafa þig sem ömmu mína í öll þessi ár og að hafa fengið að kynnast þér vel sem vinkonu líka. Það sem ég hugsa um þegar ég hugsa um þig er hvað þú varst góð, hugrökk, fyndin, sterk og með mikla réttlætiskennd. Ég hef aldrei fundið fyrir neinu öðru en ást og kærleika frá þér og þú varst mikill stuðningsmaður minn og alltaf svo stolt af mér. Ég er líka svo stolt af þér og stolt að vera barnabarnið þitt.

Þú elskaðir að segja sögur af þér og þínu lífi. Það gleður mig að hafa þessar sögur og að geta minnst á þig og hlegið að þeim eins og við gerðum alltaf. Þú elskaðir afa svo mikið, talaðir alltaf svo fallega um hann, elskaðir öll börnin þín svo mikið og elskaðir að segja mér sögur æur æsku þeirra.

Það eru fáar ömmur jafngóðar ömmur og langömmur og þú. Þú helst alltaf miklu sambandi við barnabörnin þín og það gleður mig að Eva hafi líka fengið að kynnast þér og ég mun alltaf halda minningu þinni á lífi.

Þú tókst mömmu minni alltaf sem fjölskyldu þrátt fyrir að þau pabbi hefðu hætt saman áður en ég fæddist. Ég tók ekki eftir því fyrr en á fullorðinsárum hversu einstakt samband ykkar var og að þú tókst bræðrum mínum eins og þínum eigin börnum og gerðir aldrei upp á milli, það var alltaf nóg pláss fyrir alla í hjarta þínu og elskaðir alla.

Þú varst svo einstök manneskja og ég elska þig svo mikið. Í hvert skipti sem ég talaði við þig leið mér betur en áður. Ég er þakklát fyrir öll samtölin okkar og öll knúsin og kossana. Það er erfitt að þurfa að kveðja þig svona snemma og fljótt en ég veit í hjarta mínu að þú ert hjá mér enn þá og passar vel upp á mig.

Takk fyrir að hafa verið stór hluti af lífi mínu, fyrir að taka mér alltaf opnum örmum, fyrir að hjálpa mér á marga vegu og fyrir að sýna mér með þínu fordæmi hvernig manneskja ég vil vera. Ég elska þig alltaf, elsku amma Tanja mín, og mun sakna þín að eilífu.

Alice Marý Hólm.

Til ömmu Tönju.

Nótt og dag ég hugsa til þín.

Þú barst mig undir verndarvænginn,

mögnuð kona, mamma og amma mín,

komin loks í draumaheiminn.

Ég ætla aldrei að gleyma þér.

Þú ert mér allt og gafst mér allt

og þegar minningin fer

þá er ég komin til þín þúsundfalt.

Þú ert fyrirmyndin í lífi mínu, ólst mig upp, kenndir mér að lifa, sýndir mér umhyggju og ást, ég vildi að ég gæti knúsað þig einu sinni enn, þú hjálpaðir mér að kynnast fjölskyldu minni og sagðir mér sögur um ættingja mína, það var svo gott að hlusta á þig.

Þú varst góð við alla í kringum þig og varst svo sannarlega búin að finna tilgang lífsins áður en þú fórst. Gefa af sér skilyrðislaust, brosa og hafa gaman af sjálfum sér. Ég mun halda í minninguna um þig og mun aldrei gleyma þér. Dreymi þig vel, ég mun gera þig stolta á meðan.

Mín síðasta kveðja til þín.

Barnabarnið þitt,

Daníel Víðar Hólm.