Fyrsta flokks aðstaða í klúbbhúsunum

Hjá GR er eitt besta aðgengi að golfiðkun á höfuðborgarsvæðinu. GR býður upp á tvo glæsilega golfvelli, á Korpúlfsstöðum og í Grafarholti. Á Korpúlfsstöðum er 27 holu völlur og er alltaf hægt að bóka sig á annaðhvort 9 eða 18 holu hring. Í Grafarholti er einn elsti golfvöllur landsins, sem er bæði skemmtilegur og krefjandi, og er boðið upp á að spila þar 18 holur.

Félagsstarf klúbbsins er öflugt allt árið um kring og ættu allir aldurshópar að finna eitthvað við sitt hæfi. Í klúbbhúsum okkar er boðið upp á fyrsta flokks þjónustu fyrir félagsmenn sem og aðra gesti og er aðstaðan til fyrirmyndar. Tilvalinn staður til að kynnast nýju fólki og stunda hreyfingu og útivist á sama tíma. Á okkar snærum er að finna menntaða PGA-golfkennara sem sjá meðal annars um golfkennslu fyrir félagsmenn ásamt því að stýra gríðarlega metnaðarfullu barna- og unglingastarfi félagsins.

Félagsstarf GR

Hjá Golfklúbbi Reykjavíkur er öflugt félagsstarf rekið allt árið um kring sem nær hámarki yfir sumartímann þegar vellir félagsins blómstra. Kylfingar á öllum aldri geta fundið eitthvað við sitt hæfi yfir vetrartímann til að viðhalda golfáhuganum, hvort sem um er að ræða æfingar barna og unglinga, púttmótaraðir karla og kvenna, öldungastarf, mótahald eða golfnámskeið.

Kvennastarf

Kvennanefnd Golfklúbbs Reykjavíkur er ávallt með eitthvað á prjónunum, en þær sjá til þess að kvenkyns kylfingar klúbbsins hafi eitthvað fyrir stafni allt árið um kring. Starfið hefst á ári hverju með púttmótaröð kvenna sem leikin er frá janúar og fram í mars og lýkur með skemmtikvöldi þar sem Púttmeistari GR kvenna er krýndur. Þegar golftímabilið hefst er svo leikin sumarmótaröð GR kvenna sem lýkur í ágúst. Skipulagðar eru vor- og haustferðir og fræðslukvöld auk þess sem haldin eru golfmót sem ætluð eru konum.

Eldri kylfingar

Eldri kylfingar klúbbsins eru iðnir við að halda golfiðkun sinni gangandi, sama hvað árstíðunum líður. Á undanförnum árum hefur öldunganefnd haldið mótaraðir yfir sumartímann sem ætlaðar eru kylfingum 50 ára og eldri. Vetrarstarf er einnig öflugt hjá eldri kylfingum klúbbsins, margir mæta alla daga og pútta og er meðal annars haldið bingó einu sinni í mánuði.

Golfskálar

Korpúlfsstaðir eru sögulegt hús sem var upphaflega byggt árið 1930 af Thor Jensen. Hluti af húsinu var innréttaður fyrir Golfklúbb Reykjarvíkur árið 1995 og hefur klúbbhúsið verið í stöðugum endurbótum alla tíð síðan. Í dag er í aðstöðunni að finna skrifstofu klúbbsins og æfingaaðstöðu ásamt tveimur veitingasölum.

Golfskálinn í Grafarholti var upphaflega byggður árið 1963 en endurinnréttaður árið 2001. Veitingasalurinn er glæsilegur og er þar frábært útsýni yfir Grafarholtsvöll og höfuðborgina.

Golfskálarnir á Korpu og í Grafarholti gegna mikilvægu hlutverki í starfi Golfklúbbs Reykjavíkur sem félagsheimili fyrir meðlimi ásamt því að taka á móti og þjónusta gesti og gangandi sem vilja kynna sér starfsemi GR.

Veitingasala er rekin yfir golftímabilið og eru golfskálarnir þá opnir frá morgni til kvölds. Eru allir velkomnir, hvort sem það eru kylfingar eða aðrir gestir. Breytilegur matseðill er frá degi til dags og er staðurinn með vínveitingaleyfi. Hægt er að panta borð fyrir stærri hópa og er gott að gera það með fyrirvara.

TrackMan í Básum

Æfingasvæði Bása í Grafarholti býður upp á fjölbreytta möguleika til golfæfinga. Á síðasta ári var tekin í notkun ný byltingarkennd tækni til þess að greina högg frá kylfingum úr öllum básum á fyrstu og annarri hæð æfingasvæðisins. Um er að ræða svokallað TrackMan Range, en það er radarbúnaður sem getur lesið boltaflug úr 50 básum samtímis. Með því að hlaða niður smáforriti í síma geta kylfingar lesið úr forritinu hvað boltinn fer langt, en einnig hve hratt og hátt hann flýgur.

Á svæðinu eru nokkur skotmörk sem hægt er að slá á og fá endurgjöf um hversu nálægt skotmarkinu boltinn lendir. Í boði eru nokkrir leikir þar sem kylfingar geta keppt í að hitta sem næst skotmörkum eða keppt um hver slær lengst. Fyrir utan höggæfingasvæðið Bása eru bæði púttflatir, vippflatir og 6 holu æfingavöllur sem hentar vel fyrir stutta spilið. Svæðið býður upp á fjölbreyttar æfingar og leiki jafnt fyrir byrjendur sem lengra komna.

Aðstaða sem boðið er upp á í og við klúbbhús

* Bílastæði

*Æfingaaðstaða

*Búningsklefar

*Sturtur

*Frítt Wi-fi

*Skápageymsla

*Golfverslun

*Veitingasala

*Golfbílageymsla.