Réttindi Þrátt fyrir að lögin um greiðslu á hálfum lífeyri hafi tekið gildi árið 2018 hafa fáir einstaklingar nýtt úrræðið. Til stendur að fjölga þeim.
Réttindi Þrátt fyrir að lögin um greiðslu á hálfum lífeyri hafi tekið gildi árið 2018 hafa fáir einstaklingar nýtt úrræðið. Til stendur að fjölga þeim. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp félagsmálaráðherra um hálfan lífeyri. Markmið frumvarpsins er að tryggja að fleiri aldraðir eigi kost á að sækja um hálfan lífeyri frá almannatryggingum á móti töku hálfs lífeyris frá lífeyrissjóðum.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp félagsmálaráðherra um hálfan lífeyri. Markmið frumvarpsins er að tryggja að fleiri aldraðir eigi kost á að sækja um hálfan lífeyri frá almannatryggingum á móti töku hálfs lífeyris frá lífeyrissjóðum.

Þetta úrræði hefur staðið lífeyrisþegum 65 ára og eldri til boða frá árinu 2018 en fáir hafa nýtt sér það, jafnvel þótt í boði séu tæpar 150 þúsund krónur fyrir skatt frá Tryggingastofnun. Ekki hefur verið gerð krafa um hálft starfshlutfall né sett ákvæði um hámark á tekjur en nú stendur til að breyta því. Tekjuháir einstaklingar geta því ekki nýtt sér þessa leið eins og þeir hafa getað gert til þessa. Tryggingastofnun metur það svo að hún þurfi aukinn mannafla til að fylgja eftir breyttum reglum.

Fram kemur í nefndaráliti meirihluta velferðarnefndar að um sé að ræða mikilvægt úrræði til þess að skapa raunverulegt svigrúm til sveigjanlegrar atvinnuþátttöku eldri borgara. Samkvæmt gildandi lögum getur fólk hafið töku hálfs ellilífeyris hvenær sem er eftir að 65 ára aldri er náð. Engu að síðu höfðu aðeins 58 einstaklingar nýtt sér úrræðið til þessa, 45 karlar og 13 konur, að því er fram kemur í greinargerð.

Hálfur lífeyrir tekjutengdur

Með frumvarpinu er lagt til að hálfur lífeyrir verði tekjutengdur þannig að allar tekjur umfram 325.000 kr. frítekjumark á mánuði skerði greiðslur lífeyrisins um 45% þar til þær falla niður þegar tekjur lífeyrisþega verða 600.672 kr. á mánuði. Þá er lagt til að sett sé sem skilyrði fyrir greiðslu hálfs lífeyris að viðkomandi sé enn á vinnumarkaði í að hámarki 50% starfshlutfalli. Engin slík skilyrði eru í núgildandi lögum. Hefur það verið talið í andstöðu við meginmarkmið laganna að einstaklingar, sem eiga ekki rétt á lífeyri frá almannatryggingum vegna tekjutengingar bótanna, geti engu að síður fengið greiddan hálfan lífeyri þar sem taka hans sé með öllu óháð öðrum tekjum lífeyrisþega.

Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við velferðarnefndina að heimildir Tryggingastofnunar til eftirfylgni væru óskýrar og því gæti orðið erfitt að fylgjast með starfshlutfalli einstaklinga. Þá væri óskýrt hvernig eftirliti yrði háttað. Meirihluti nefndarinnar áréttar að í lögum um almannatryggingar séu ákvæði sem tryggja heimildir stofnunarinnar til eftirfylgni og til að fá nauðsynlegar upplýsingar til að leggja mat á starfshlutfall.

Í umsögn Tryggingastofnunar við frumvarpið kemur fram að gera megi ráð fyrir fjölgun fyrirspurna varðandi hálfan ellilífeyri og að fleiri muni nýta sér úrræðið eftir lagabreytinguna. Það mun hafa þau áhrif hjá Tryggingastofnun að meiri mannafla þarf í svörun fyrirspurna, afgreiðslu umsókna og tekjueftirlit. Auk þess þurfi að breyta tölvukerfum. Nauðsynlegt sé að hafa sérstakt tekjueftirlit innan ársins þar sem sannreynt er hvort viðkomandi sé í hálfu starfi. Það kalli á aukna vinnu hjá sérfræðingum og keyrslur í tölvukerfum stofnunarinnar. Árlegur viðbótarkostnaður er talinn vera 18 milljónir króna auk þess sem kostnaður við að uppfæra tölvukerfi stofnunarinnar er áætlaður fimm milljónir.

Áfram tengd vinnumarkaði

Með töku hálfs lífeyris samhliða hlutastarfi er fólki sem er 65 ára og eldra gefinn kostur á að draga úr því tekjufalli sem getur orðið við það að fara úr 100% starfi og hefja töku fulls ellilífeyris við starfslok. Með minnkuðu starfshlutfalli samhliða töku hálfs lífeyris úr lífeyrissjóði og almannatryggingum gefst einstaklingum kostur á að viðhalda tengslum sínum við vinnumarkaðinn og auka þannig réttindi sín í atvinnutengda lífeyrissjóðakerfinu ásamt því að safna frekari lífeyrisréttindum með frestun á töku þess hluta lífeyris sem ekki er nýttur. Aðstæður fólks geti verið mjög mismunandi að þessu leyti en í úrræðinu felist valkostur sem ætla megi að geti fallið vel að aðstæðum fólks sem vill draga úr vinnu á efri árum en nýta áfram starfsgetu sína.