— Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán Einar Stefánsson ses@mbl.

Viðtal

Stefán Einar Stefánsson

ses@mbl.is

Í kjölfar þess að peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í gærmorgun um að meginvextir bankans hefðu verið lækkaðir um 0,75 prósentur brást markaðurinn nokkuð ákveðið við og ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði lækkaði. Nú bíða sérfræðingar bankans átekta og vega og meta með hvaða hætti ákvörðun nefndarinnar mun hafa áhrif á aðra vexti á markaði, ekki síst þá sem viðskiptabankarnir bjóða fyrirtækjum og einstaklingum.

Seðlabankinn hefur nú lækkað stýrivexti um 2 prósentur á árinu og þeir hafa aldrei verið lægri – 1%. Af hverju var þetta skref stigið að þessu sinni?

„Við töldum hæfilegt að lækka vextina núna um 75 punkta því nú höfum við mun skýrari mynd af stöðunni en fyrr í vor. Ljóst er að efnahagshorfur eru mun dekkri nú en við gerðum ráð fyrir í upphafi faraldursins. Þá vildum við einnig styðja við gjaldeyrismarkaðinn. Krónan hefur hins vegar verið mjög stöðug undanfarið og virðist hafa náð nýju jafnvægi. Það gefur okkur færi á þessari lækkun nú.“

Gengið ekki gefið of mikið eftir

Ásgeir bendir á að þótt gengið hafi gefið eftir um 10 til 12 prósent þá þurfi ekki að óttast verðbólguskot. Verðbólgan hafi verið mjög lág í upphafi faraldursins og verðlækkanir á olíu og erlendum aðföngum vegi á móti. Lægra gengi mun örva útflutning og skapa ný störf um leið og sóttvarnaraðgerðum sleppir. Til að mynda má búast við mun hraðari bata í ferðaþjónustu um leið og Ísland verður ódýrari áfangastaður. Það er mjög eðlilegt að gengið lækki í kjölfar þess að útflutningur verður fyrir áfalli – það mun flýta fyrir efnahagsbatanum.

Ásgeir áréttar að bankinn hafi ekki aðeins lækkað vexti heldur einnig stigið mjög ákveðin skref til þess að tryggja að lægri vextir miðlist út í hagkerfið.

„Við sáum að vaxtalækkanir okkar í mars skiluðu sér ekki út á vaxtarófið í lengri vexti. Í kjölfar þess tók peningastefnunefnd bankans þá ákvörðun að hefja kaup á ríkisskuldabréfum fyrir allt að 150 milljarða króna. – Við erum því með tækin sem við þurfum. Við höfum ekki útilokað frekari vaxtalækkanir. Líkt og flestir seðlabankar gera þá höfum við stigið varfærin skref og höfum viljað sjá hvernig markaðurinn bregst við. Það er viðbúið að það verði erfiðara fyrir bankana að lækka útlánavexti til samræmis við meginvexti Seðlabankans eftir því sem vaxtastigið lækkar þar sem þeir geta ekki farið með innlánavexti neðar en 0. Sú staðreynd setur ákveðið gólf fyrir bankana og lækkun vaxta niður fyrir ákveðið mark setur því þrýsting á vaxtamuninn sem gerir bönkunum erfitt fyrir.“

En þú hefur ekki verið fyllilega sáttur við það hvernig miðlunin hefur gengið. Vaxtaálagið sem bankarnir leggja ofan á vaxtakjör fyrirtækja og heimila hafa farið hækkandi, og raunar með mjög afgerandi hætti síðustu mánuði (sjá meðfylgjandi graf). Eruð þið ekki einfaldlega að reyna að fylla upp í holu sem bankarnir halda áfram að moka á sama tíma?

„Við verðum að sjá til hvernig það þróast. Við gætum hæglega þurft að grípa til aðgerða til þess að bæta miðlun vaxtalækkana í gegnum fjármálakerfið. Ég vil þó taka fram að peningastefnan hefur víðar áhrif en á útlán í bankakerfinu. Fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs lækkar, heimilin hafa notið góðs af vaxtalækkunum, m.a. í því að við hljótum að gera ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir miðli þessu áfram.“

Með ýmis vopn í búrinu

Hvaða tæki hafið þið í höndunum til þess?

„Það er ýmislegt sem við getum gert, en það er ekki tímabært að útlista það hér. Það hefur nú þegar fallið í hlut Seðlabankans að framkvæma vilja ríkisvaldsins varðandi brúar- og stuðningslán til þess að tryggja aðgengi fyrirtækja að lánsfé. Ég hef lagt áherslu á það við bankana að þau mál séu kláruð áður en við stígum önnur skref gagnvart fjármálakerfinu.

Þetta verkefni hefur hins vegar gengið ágætlega. Þetta hefur tekið tíma. Við höfum hér umsjá með peningum skattgreiðenda sem eru veittir út til fyrirtækja í gegnum fjármálakerfið eftir forskrift Alþingis. Það er ekki létt verk og við tökum það mjög alvarlega. Það er tapsáhætta fyrir ríkissjóð og ég vil frekar hljóta gagnrýni fyrir það núna að þetta taki tíma fremur en vera gagnrýndur fyrir mögulegar misfellur síðar. Þessi úrræði eru einfaldlega ekki fyrir alla og geta aldrei orðið það. Þessi lán munu ekki hjálpa öllum fyrirtækjum að halda velli, það liggur alveg fyrir. Það verður að fara vel með peninga skattgreiðenda og við höfum lagt áherslu á það.“

Meðal þess sem nefnt hefur verið bönkunum til varnar eru hinar gífurlega háu eiginfjárkröfur sem geri þeim erfitt um vik að ná ásættanlegri arðsemi á eigið fé sitt. Kemur til greina að breyta þeim kvöðum?

„Við höfum verið að lækka þær, meðal annars með því að afnema hinn svokallaða sveiflujöfnunarauka og með því að veita undanþágu frá eiginfjárkröfum vegna lána í frystingu. Því skyldi heldur ekki gleymt að það eru hinar stífu eiginfjárkröfur sem hafa skapað þann mikla styrk sem bankarnir búa núna yfir til þess að taka á móti áföllum.“

Sett bönkunum skýr mörk

Hafið þið þá verið að setja bönkunum skýr mörk um það hvernig þeir skuli haga þessum lánveitingum?

„Já, meðal annars.“

Hafið þið haft áhyggjur af því að hin viðamikla ríkisábyrgð gerði bankana værukæra í lánveitingum sínum?

„Það var að einhverju leyti óheppilegt fyrir okkur að þurfa að semja um viðbótarlán á sama tíma og stuðningslánin sem voru í meðförum Alþingis. En þetta hefur allt saman klárast og í mjög góðu samlyndi.“

En þið eruð þá að beina sjónum ykkar núna að auknu vaxtaálagi og þeim vaxandi vaxtamun sem tölur úr kerfinu staðfesta að er að búa um sig?

„Við höfum haft áhyggjur af þessu og þetta er næsta mál á dagskrá.“

Nú hefur ríkisstjórnin gefið það út gagnvart ríkisbönkunum tveimur, Íslandsbanka og Landsbanka, að þeim beri ekki að líta til arðsemiskröfu í ár vegna þess ástands sem er uppi. Ætti það ekki að gera þeim kleift að draga verulega úr vaxtamun á sínum vettvangi?

„Jú, það er rétt.“

En þeir eru ekki að draga úr vaxtamuninum þrátt fyrir það.

„Við skulum sjá til. Bankarnir eru að verða fyrir útlánatöpum núna. Þetta ár mun verða litað af því. Þeir hafa eðlilegar áhyggjur af framlegð lánastarfseminnar. Það er ekki útilokað að við reynum að liðka til fyrir þeim með einhverjum hætti ef það er tryggt að það þjóni okkar markmiðum um miðlun peningastefnunnar. Með sama hætti og þegar við lækkuðum sveiflujöfnunaraukann, þá var það gert með því skilyrði að þeir greiddu ekki út arð. Þeir hlýddu því allir og við höfum átt í góðu samstarfi við þá um þau mál eins og raunar flesta aðra hluti.“

Ríkið beri ekki allan þungann

Seðlabankastjóri er nokkuð gagnrýninn á þann mikla þrýsting sem stjórnvöld hafi setið undir varðandi inngrip og aðgerðir gagnvart atvinnulífinu. Sjálfsagt sé að koma til hjálpar en ákveðinn freistnivandi komi upp þegar ríkissjóður er kallaður að borðinu.

„Það liggur fyrir í mínum huga að ríkissjóður á að stíga síðastur inn í þessar aðstæður með beina aðstoð. Fyrirtækin þurfa fyrst að semja við sína leigusala, bankann sinn, starfsfólkið sitt og birgjana – áður en peningar skattgreiðenda eru lagðir í púkkið. Það þurfa allir að taka á sig byrðarnar í sameiningu. Þetta verður að gerast í réttri röð og þegar ríkið lætur of snemma undan þrýstingi er hætt við að vandinn verði allur settur á herðar þess sem getur ekki gengið upp. Við sjáum það til mynda í þeirri tregðu að lækka leigu. Það sama á við gagnvart vinnumarkaðinum. Ríkisvaldið hefur komið inn með mjög mikilvægar aðgerðir – svo sem hlutabótaleiðina. Það virðist hins vegar hafa gerst án þess að verkalýðsfélögin tækju að öllu leyti ábyrgð á ástandinu og því mikla atvinnuleysi sem nú hefur skapast.“

Bankarnir fara yfir lánasafnið

Ásgeir segir að það hafi ekki aðeins verið þrýstingur á ríkið. Bankarnir hafa eðlilega átt fullt í fangi með að bregðast við og fara yfir stöðu viðskiptavina sinna áður en risastór skref eru stigin.

„Þeir hafa þurft að fara yfir lánasafnið sitt og meta hvernig staðan er hjá hverju og einu fyrirtæki. Aukin lántaka er ekki að hjálpa öllum og þá er engum greiði gerður til að veita þau með tilheyrandi tapsáhættu.“

Allur er varinn góður en ríkisvaldið og bankarnir mega heldur ekki draga lappirnar þannig að hjálpin berist mögulega of seint?

„Það er rétt. Þarna þarf að finna visst jafnvægi.“

Ásgeir segir forvitnilegt að skoða núverandi efnahagsþrengingar í samanburði við fyrri áföll sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir. Hann bendir á að auðlindadrifið hagkerfi eins og okkar hafi oft orðið fyrir þungum búsifjum en úrvinnslan nú sé á aðra lund en áður.

„Okkur hefur tekist að halda þjóðhagslegum stöðugleika. Þótt gengið hafi gefið aðeins eftir þá er það allt innan góðra marka. Verðbólgan hefur ekki farið af stað og verðbólguvæntingar hafa ekki versnað. Við erum að einhverju leyti með nýtt hagkerfi sem byggist upp á miklum sparnaði. Við búum núna á landi með varanlegan viðskiptaafgang öfugt við það sem áður var. Jafnvel þótt við höfum orðið fyrir miklu áfalli í ferðaþjónustu og sjávarútvegurinn hafi orðið fyrir hnjaski einnig þá erum við samt sem áður með jákvæðan viðskiptajöfnuð áfram.“

Ein bestu tíðindin

Eru það jákvæðustu tíðindin í stöðunni nú?

„Já, það má segja það.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá er bankinn að gera ráð fyrir 8% samdrætti en svartsýnni spá bendir til að hann geti orðið um og yfir 10%. Þetta er mjög þungt högg á alla mælikvarða.

„Þetta er mjög þungt högg. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans hafa hins vegar vegið þarna verulega á móti. Það að okkur hafi tekist að halda þjóðhagslegum stöðugleika, komið í veg fyrir verðbólgu, haldið krónunni stöðugri og lækkað vexti gerir það að verkum að þetta áfall verður ekki eins svakalegt og það hefði orðið að öðrum kosti. Fyrr á tíð var brugðist við áföllum af þessu tagi með því að fella gengið, taka á okkur mikinn verðbólguskell með tilheyrandi lækkun kaupmáttar og skuldavandræðum hjá heimilunum. Það hefði leitt til mun verri stöðu en við sjáum núna. Stöðugleikinn skilar sér margfalt til baka.“

Samkvæmt spánni er í raun gert ráð fyrir að ferðaþjónustan taki ekki við sér á árinu. Hingað muni einungis koma 50 þúsund ferðamenn á síðari helmingi ársins. Það jafngildir því að hingað komi ein 767-300 breiðþota með fullfermi á degi hverjum eða 274 farþega. Það verður væntanlega ekki mikil atvinnusköpun af ferðaþjónustunni ef þetta rætist.

„Við erum ekki að gera ráð fyrir ferðamönnum í neinum mæli á þessu ári erlendis frá. Við viljum þess vegna örva innlenda eftirspurn með aðgerðum okkar. Íslendingar hafa eytt mjög miklum fjármunum erlendis, í flug og hótel t.d. Þessi peningur getur núna verið notaðar til þess að kaupa innlendar vörur og þjónustu. Við þurfum auk þess að búa til ný útlán í kerfinu til að byggja upp ný tækifæri. Það er leiðin til þess að bregðast við þessu. Við erum eyja og tiltölulega lokað land. Áherslan þarf því að vera sú að fá Íslendinga til að eyða peningum innanlands í ferðaþjónustu og önnur verkefni sem örva hagkerfið.“

Ýmis tækifæri í stöðunni

Ásgeir bendir einnig á að nú þurfi aðrar greinar að nýta sér sóknarfæri sem sjáist við sjóndeildarhringinn. Það eigi m.a. við um sjávarútveginn.

„Gengið hjálpar fyrirtækjunum í dag og lægra eldsneytisverð dregur einnig úr framleiðslukostnaði. Þegar markaðirnir taka að opnast á ný, ekki síst í Bandaríkjunum, þá þarf að nýta færin vel.“

Peningamagnið skiptir máli

Það voru hins vegar ekki aðeins stýrivextirnir sem voru lækkaðir í gær. Einnig var tekin ákvörðun um að hætta að veita fjármálafyrirtækjum möguleika á mánaðarbundnum innlánum. Það kann að reynast erfitt að útskýra fyrir almenningi hvað slíkar ráðstafanir þýða fyrir þjóðarbúið en Ásgeir segir að þarna sé um afgerandi aðgerð að ræða.

„Gríðarmiklir fjármunir hafa legið inni í Seðlabankanum í mánaðarbundnum innlánum. Ég hófst strax handa þegar ég kom inn í bankann að fækka í þeim hópi sem mátti liggja með peninga inni á þessum vöxtum. Núna hefur verið ákveðið að hætta að bjóða þessi bundnu innlán. Bankarnir verða að finna nýjan geymslustað fyrir þetta fjármagn. Vonir standa til að þessir peningar miðlist út í kerfið og þannig aukist peningamagn í umferð.“

Mikilvæg skref tekin áður

Hann bendir á að fjármagnið hafi þegar tekið að miðlast út, m.a. í ríkisvíxla. Það hafi reynst mikilvægt enda hafi hár innlánastabbi að einhverju leyti haldið uppi vöxtum á víxlum og þar með torveldað miðlun stýrivaxta út á vaxtarófið.

Líkt og áður segir hefur Seðlabankinn boðað allt að 150 milljarða inngrip á eftirmarkaði með ríkisskuldabréf. Enn sem komið er hefur Seðlabankinn ekki látið mjög til sín taka á grunni yfirlýsingar um þetta efni. Því má spyrja hvort „hótunin“ um inngrip hafi dugað til að þrýsta vöxtum niður á við?

„Alla vega í bili. Þetta er að einhverju leyti óvenjuleg þróun. Venjulega grípa seðlabankar til svona aðgerða þegar vextir eru komnir í 0. Við gerðum þetta hins vegar þegar vextirnir voru enn í 1,75%. Þá hefur ríkissjóður ekki gefið mikið út í langa endanum og það liggur heldur ekki fyrir hvenær það skapast þörf fyrir það. Við höfum því ákveðið að fara varlega í sakirnar. Við höfum úr 150 milljörðum að spila og við ætlum ekki að eyða öllum skotunum í byssunni strax. Ég á t.d. von á því að veturinn verði þungur og að þá þurfi ríkissjóður að sækja sér meira fé og þá viljum við geta komið af afli inn á markaðinn.“

Ásgeir segir að dæmi hafi verið um að fjárfestar hafi stokkið til eftir að tilkynnt var um heimildina til magnbundinnar íhlutunar. Þeir hafi farið að kaupa skuldabréf í þeirri vissu von að Seðlabankinn myndi kaupa þau af þeim þá þegar.

„Það er enginn asi á okkur í þessu. Við viljum gera hlutina rétt og það væri í algjöru ósamræmi við fyrrnefnda yfirlýsingu ef við hefðum ákveðið að bregðast við auknu framboði án þess að það væri komið fram og ríkissjóður væri raunverulega byrjaður að gefa út í miklum mæli.“

Nú hafa stjórnvöld ákveðið að stíga ákveðin skref í átt til aukinnar opnunar hagkerfisins. Styr virðist standa um þá ákvörðun innan heilbrigðiskerfisins. Hefur hagkerfið burði til þess að takast á við alvarlegt bakslag með tilheyrandi lokunum að nýju, jafnvel jafn umfangsmiklum og við höfum horft upp á frá því í marsmánuði?

„Áherslan hjá okkur er að örva innlenda eftirspurn og ég tel að við getum gert það án þess að hingað komi margir erlendir ferðamenn. Hins vegar er erfitt að halda landinu lokuðu. Ekki aðeins vegna ferðaþjónustunnar heldur vegna ýmiss konar annarrar starfsemi og verðmætasköpunar sem er háð því að landið sé opið.“

Það yrði væntanlega öllu meira en 10% samdráttur í ár ef við neyðumst til þess að snöggkæla hagkerfið aftur?

„Já. Við erum að einhverju leyti að eiga við nýja vá – þessa veiru. Við vitum ekki hvernig hún mun þróast. Hún getur komið upp aftur og jafnvel verri eins og gerðist í spænsku veikinni. En við sjáum það erlendis að þjóðirnar eru að gefast upp á ströngum sóttvörnum vegna mikils efnahagslegs kostnaðar. Þess vegna skynja ég að þær raddir sem tala fyrir því að halda hagkerfinu gangandi og opnu séu að verða háværari og því er alls ekki víst að gripið yrði til viðlíka lokana aftur eins og gert var hér á síðustu vikum. Við erum hins vegar að mörgu leyti heppin að vera eyja og getum haft meiri stjórn á þessu en flestir aðrir.

Þú nefnir að sennilega muni sumri fylgja erfiður vetur. Þið gerið þó ráð fyrir 5% hagvexti á næsta ári. Munum við sjá atvinnustigið batna hratt og allt komast í blóma á ný innan fárra missera?

„Það er eitt fyrir okkur hagfræðinga að reikna út krónur og aura. Það er þó ljóst að mikið atvinnuleysi mun hafa mikil áhrif og valda miklu álagi á velferðarkerfið. Aukin svartsýni getur leitt af sér að einkaneysla dragist mikið saman. Það er eitthvað sem við þurfum að huga vel að fyrir veturinn. En það er fleira sem við þurfum að skoða gaumgæfilega. Við fórum fram úr okkur í ferðaþjónustunni – það var offjárfesting í greininni. Bankarnir voru farnir að vinda ofan af þeim vanda áður en kórónuveiran gerði vart við sig en það undirstrikar líka að við eigum ekki að horfa um of í baksýnisspegilinn og reyna að koma hlutum í fyrra horf. Ferðaþjónustan verður ekki söm og það er ekki endilega eftirsóknarvert að hún verði það. Hún var leiðandi í hagvextinum síðustu sjö árin en við eigum ekki að gera ráð fyrir að hún verði það með sama hætti hér eftir. Við verðum áfram ferðaþjónustuland en með öðru móti.“

Ekki sama ferðaþjónustan

Af þessum sökum segir Ásgeir að við eigum ekki að fleyta óhóflegu magni fjármuna inn í ferðaþjónustuna á þessum tímapunkti til þess að halda öllum fyrirtækjum á lífi.

„Það er ekki skynsamlegt að mínu viti að koma í veg fyrir aðlögun jafnvel þótt hún sé sársaukafull. Ég held að við eigum að nýta þetta tækifæri til þess að hugsa um nýja hluti, sem ekki byggi með sama hætti á auðlindum landsins og stóru útflutningsgreinarnar þrjár gera. Frumkvöðlar munu núna spretta fram og finna nýjar lausnir og skapa ný verðmæti. Staða ferðaþjónustunnar nú er ekki ósvipuð og sjávarútvegurinn lenti í í kringum 1988 þegar mikill samdráttur varð á aflaheimildum. Það var mjög erfitt tímabil fyrir greinina og kallaði á uppstokkun og hagræðingu. En upp úr því fengum við þennan gríðarlega öfluga atvinnuveg sem við þekkjum í dag.“

En er óeðlilegt að atvinnulífið kalli eftir aðstoð?

Nei. En stórkostlega aukin útgjöld núna kalla á meiri skattheimtu í framtíðinni og ég er ekki viss um að aðilar atvinnulífsins séu mjög hlynntir slíkri þróun til lengri tíma litið. Þetta er ákveðið fórnarval sem þarna þarf að hugsa um en það er hættulegt að kalla á ríkið til aðstoðar, það fer ekki svo auðveldlega aftur til baka eða endilega á þeim tíma sem mönnum þykir henta.“

Ásgeir ítrekar að hlutirnir verði að hafa sinn gang og að rétt skref hafi verið stigin að undanförnu til þess að lágmarka skaðann. Miklu skipti að halda áfram á þeirri braut og lenda ekki í sömu gildrum og á fyrri tíð þegar efnahagsþrengingar gengu yfir landið.

„Skítareddingar eru ekki lausnin. Það er ekki lausn á neinum efnahagsvandavanda að fikta og t.d. taka vísitölur úr sambandi og svo framvegis. Það er röng aðferðafræði sem hefur gefist illa á fyrri tíð. Núna njóta heimilin í landinu þess að vextir fara lækkandi og við gætum séð lægri vexti til frambúðar með auknum trúverðugleika peningastefnunnar. Heimilin munu í einhverjum tilvikum lenda í vandræðum með að greiða af lánum vegna tekjufalls en ólíkt því sem áður var mun greiðslubyrðin ekki hækka. Það er nýr veruleiki og mun reynast mjög dýrmætt til lengri tíma litið og tryggja betri velferð.“