Ástandið er mismunandi eftir löndum og aðferðafræðin er ólík eftir því. Englendingar eru t.d. í miklu basli með að koma fótboltanum aftur af stað hjá sér og horfa öfundaraugum til Þjóðverja sem eru komnir í gang.
Eitt er það sem vekur athygli í öllu þessu og það er að alls staðar snýst þetta um að koma stærstu deildum karlafótboltans í gang.
Kvennadeildirnar koma svo einhvers staðar í kjölfarið eða þá að keppni í þeim er aflýst. Hvers vegna? Jú, þar eru miklu minni peningar í húfi.
Mér sýnist Ísland vera eina landið þar sem konur og karlar fara af stað á sama tíma hvað fótboltann varðar. Hér verður fyrstu umferðinni í úrvalsdeild kvenna lokið áður en flautað verður til fyrsta karlaleiksins.
Enda standa konur í fótbolta og flestum öðrum íþróttum betur að vígi hérlendis en víðast hvar annars staðar, hvað varðar umgjörð, umfjöllun og almennt viðhorf.
Ummæli „sérfræðings“ í hlaðvarpsþætti í vikunni um að íslensk landsliðskona sem samdi við íslenskt félag á dögunum fengi meira borgað en leikmenn í kvennafótbolta ættu að fá voru í besta falli kjánaleg. Þau hljóma eins og aftan úr grárri forneskju, enda þótt ótrúlega margir virðist enn fastir í gömlum kreddum á þessu sviði.
Ef íslenskt íþróttafélag er tilbúið til að greiða konu hærri laun fyrir að spila fótbolta en karlmanni þá er það einfaldlega enn eitt skrefið í rétta átt.