Auður Linda Zebitz var fædd 11. desember 1935 í Bakkabæ við Brunnstíg 9, Reykjavík. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 6. maí 2020.
Foreldrar hennar voru Wilhelm Zebitz og Steinunn Ásta Guðmundsdóttir Zebitz. Linda var fjórða í röðinni af sex systkinum. Að henni genginni eru nú á lífi bræður hennar þeir Gunnar Carl, Örn og Reynir. Látnar eru systur hennar þær Hjördís Úlla og Bergþóra Elva.
Linda giftist eftirlifandi maka sínum, Ólafi Kristinssyni, 26. júlí 1957. Börnin þeirra eru: 1) Ásta Ólafsdóttir, f. 28. nóvember 1957. Börn hennar eru Ólafur, Auður Bergdís og Kormákur Örn. 2) Kristinn Guðni Ólafsson, f. 13. nóvember 1959, kvæntur Ingunni Ingimarsdóttur. Börn þeirra eru Kolbrún, Atli Rúnar og Ingunn Erla. 3) Guðrún Ólafsdóttir, f. 1. maí 1961, gift Erlingi Bótólfssyni. Börn þeirra eru Margrét Linda og Guðrún Erla.
Útför Lindu fór fram frá Bústaðakirkju 18. maí 2020. Vegna aðstæðna í þjófélaginu voru aðeins viðstaddir nánustu ættingjar.
Elsku Linda. Við systurnar, dætur systra þinna, Úllu og Elvu, kveðjum þig með kærleika og þökk í hjarta. Þú stóðst traust við hlið okkar sem móðurímynd eftir að systur þínar fóru allt of ungar að árum.
Efalítið eru nú miklir fagnaðarfundir, allar þrjár samankomnar, í lífi handan okkar lífs. Þú ert nú dýrmætur hluti af þeirra lífi eins og þú ætíð varst með traustri nálægð þinni, ástúð og ljúfri ræktarsemi sem við fengum líka að njóta óspart. Þú dvelur í hjarta okkar jafnt á rauna- og gleðistundum. Lifandi fas þitt og fáguð framkoma, umvefjandi umhyggja, innsæi og skerpa hugsunar þinnar, er sá það sem skipti sköpum í gegnum margar hulur, snerti okkur djúpt og veitti stuðning út í lífið. Beittur húmor þinn og hlátur sem ætíð var stutt í gladdi um leið og hann vakti til umhugsunar um það sem skiptir máli. Slík einlæg hreinskilni er fáum gefin og náði hún að fegra líf margra sem þér urðu samferða. Þér var gefin listræn sýn á tilveruna og skarpt innsæi er gerði vegferð þína einstaka og þig að einstakri konu með geislandi og lifandi nærveru.
Við kveðjum Lindu með þakklæti fyrir allt það sem hún gaf okkur systrunum í lífinu.
Guðrún Ara Arason,
Aðalheiður Lilja
Guðmundsdóttir.