Senuþjófur Jordan er góður í hlutverki Bryans en Foxx stelur senunni í hlutverki Johnny D.
Senuþjófur Jordan er góður í hlutverki Bryans en Foxx stelur senunni í hlutverki Johnny D.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Destin Daniel Cretton. Handrit: Destin Daniel Cretton og Andrew Lanham. Kvikmyndataka: Brett Pawlak. Klipping: Nat Sanders. Aðalhlutverk: Michael B. Jordan, Jaime Foxx, Brie Larson, Rob Morgan, Tim Blake Nelson, Rafe Spall. 136 mín. Bandaríkin, 2019.

Samkvæmt rannsóknum eru að minnsta kosti 4% þeirra sem dæmdir eru til dauða í Bandaríkjunum saklausir menn. Hlutfall þeirra mála sem byggja á veikum grunni eða þar sem vafi liggur á sakhæfi vegna geðraskana og þroskaskerðinga er jafnvel hærra. Fjórir af hundrað eru kannski ekki margir en það eru samt viðbjóðslega margir þegar eins alvarlegt mál og að svipta menn lífi er annars vegar. Bandaríkin eru ein fárra þróaðra ríkja sem enn nota dauðarefsingu; hún hefur verið afnumin í gervallri Evrópu, Kanada og flestum löndum Suður-Ameríku. Einu löndin sem tilheyra hinum svokallaða fyrsta heimi og enn dæma fólk til dauða eru Bandaríkin, Japan, Suður-Kórea og Taívan. Manni er nánast ofviða að reyna að skilja eða viðurkenna þær röksemdir sem réttlæta það að taka fólk af lífi. Að þetta sé enn gert í Bandaríkjunum og að þar séu allt að 60% landsmanna fylgjandi dauðarefsingum virðist handan skilnings.

Just Mercy er sannsöguleg kvikmynd sem byggir á endurminningum lögmannsins Bryan Stevenson. Myndin hefst undir lok níunda áratugarins þegar Stevenson, nýútskrifaður úr lögfræði frá Harvard, ákveður að flytja til Alabama til að reka mál fyrir fanga á dauðadeild. Fjölskyldu hans líst ekki vel á þetta plan, annars vegar af því að verjendur þeirra sem eru sakaðir um alvarlega glæpi eru sjaldnast vinsælir og hins vegar af því að Alabama-ríki er annálað fyrir kynþáttahyggju. Ekkert fær haggað áætlunum þessa unga hugsjónamanns, sem hefur einsett sér að vera rödd hinna raddlausu.

Í Alabama er og var hæsta hlutfall dauðadóma í Bandaríkjunum. Þetta er m.a. vegna þess að Alabama leyfði dómurum að breyta úrskurði kviðdóms, þannig að ef kviðdómur fór fram á lífstíðarfangelsi gat dómari breytt því í dauðadóm. Þetta ákvæði var fellt úr gildi fyrir þremur árum.

Stevenson kynnist ýmsum föngum þegar hann kemur til Alabama, þ. á m. fyrrverandi hermanninum Herbert, sem er alvarlega geðveikur og framdi morð af gáleysi þegar hann var í geðrofi. Það er augljóst að Herbert er maður sem þarf læknisaðstoð og Bryan þykir sýnt að málsmeðferð hans hafi verið ósanngjörn og verjendur Herberts aldrei staðið sig sem skyldi.

Það er hins vegar mál eins manns, Johnny D, sem vekur sérstaka athygli Bryans. Það var einmitt eitt þeirra mála þar sem kviðdómur mælti með lífstíðardómi en dómarinn ákvað að dæma hann frekar til dauða. Johnny D var dæmdur fyrir að myrða unga hvíta konu. Glæpurinn, sem fór fram um hábjartan dag í fatahreinsun, þótti einstaklega hryllilegur og skók samfélagið. Bryan þarf ekki að liggja lengi yfir dómsskjölunum til að sjá að málið stendur á algjörum brauðfótum. Það eru engin sönnunargögn í málinu önnur en vitnisburður tveggja hvítra manna og vitnisburður þeirra er afar vafasamur. Johnny D hafði enga tengingu við konuna og enga ástæðu til að drepa hana og í ofanálag var hann með fjarvistarsönnun sem meira en tuttugu einstaklingar gátu staðfest. Þessir einstaklingar eru að vísu allir svartir og af einhverjum ástæðum þótti engin ástæða til að taka orð þeirra trúanleg. Ljóst er að Johnny D er fórnarlamb rasisma og lögregluofbeldis í ríki þar sem svartir menn eru „sekir frá því augnabliki sem þeir koma í heiminn“, eins og Johnny kemst að orði.

Myndin er virkilega vel gerð, með góðu handriti og klippingu tekst að halda uppi góðri spennu út í gegn án þess að myndin verði nokkurn tímann að spennumynd. Kvikmyndatakan er nokkuð hlutlaus en tekst á flug á köflum, eins og í atriði þar sem Bryan þarf að fara í gegnum neyðarlega líkamsleit. Þar er ekkert sagt en heilmiklu miðlað gegnum innrömmun og klippingu. Michael B. Jordan er góður í hlutverki Bryans en það er þó Jamie Foxx sem stelur senunni í hlutverki Johnny D. Foxx er frámunalega góður í þessari mynd og enginn vafi á að þetta er ein besta frammistaða hans á ferlinum.

Vissulega er þetta ekki í fysta sinn sem maður sér sögu af þessu tagi á hvíta tjaldinu. Raunar er mikil áhersla lögð á textatengsl við To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee, en það vill svo til að myndin gerist í sama bæ og skáldsagan fræga. Skáldsagan fjallar um lögmanninn Atticus Finch sem gerist verjandi fyrir svartan mann sem bornar eru á rangar sakir. Hvítir heimamenn þreytast ekki á að minna Bryan á að hann sé staddur í heimabæ Harper Lee og spyrja hvort hann sé ekki örugglega búinn að fara á To Kill a Mockingbird -safnið til að minnast hins merka mannréttindafrömuðar Atticus Finch. Þetta undirstrikar að sjálfsögðu hræsni hvítu heimamannanna, sem geta ekki viðurkennt að kynþáttahyggja á borð við þá sem fjallað er um í skáldsögunni er algjörlega enn við lýði.

Því verður seint sagt að Just Mercy sé frumleg mynd, hér er ekkert mikið verið að bregða út af frásagnarhefðinni um ranglega dæmdan mann. Það breytir því ekki að sagan er sönn og það er alltaf áríðandi og mikilvægt segja sögur eins og þær sem birtast í myndinni.

Kjörorð Equal Justice Initiative, góðgerðarsamtaka sem Bryan Stevenson stofnaði, eru að hver manneskja sé meira en það versta sem hún hefur gert og því sé alltaf óverjandi að taka fólk af lífi. Þessu má vera sammála og mæla með Just Mercy sem er áhrifamikil og haganlega gerð bíómynd. Þessi rýnir játar að hafa fellt nokkur tár.

Brynja Hjálmsdóttir

Höf.: Brynja Hjálmsdóttir