Afrekshópur Golfklúbbs Vestmannaeyja á heimavellinum glæsilega í Herjólfsdal.
Afrekshópur Golfklúbbs Vestmannaeyja á heimavellinum glæsilega í Herjólfsdal. — Ljósmynd/GV
Golfklúbbur Vestmannaeyja tekur vel á móti þér í sumar líkt og undanfarin ár.

Í Vestmannaeyjum er að finna mikla golfsögu á íslenskan mælikvarða. Völlurinn í Eyjum hefur vissa sérstöðu vegna umhverfisins en einnig vegna þess að sumt úr upphaflegri hönnun vallarins hefur haldið sér.

„Golfklúbbur Vestmannaeyja var stofnaður árið 1938, sem gerir hann að einum elsta golfklúbbi landsins. Völlurinn er í stórbrotinni náttúru við Atlantshafið inni í Herjólfsdal. 18 holu völlurinn var tekinn í notkun árið 1993, en Íslandsmótið í golfi hefur verið haldið í fjögur skipti í Vestmannaeyjum frá þeim tíma. Golfvöllurinn hefur að geyma elstu flatir Íslands á fyrri 9 holunum, en þær eru við Herjólfsdal. Upplifun margra kylfinga er ógleymanleg vegna umhverfisins, en vindáttir geta til dæmis breyst í einu og sama högginu vegna fjallanna,“ segir Rúnar Gauti Gunnarsson hjá Golfklúbbi Vestmannaeyja.

Hverjir eru hápunktarnir í starfinu hjá GV?

„Mörg stór mót fara fram hjá GV ár hvert, má þar helst nefna Sjómannamót Ísfélags Vestmannaeyja og Icelandair Volcano Open. Ávallt er mikill áhugi fyrir fyrrgreindum mótum og full skráning ár eftir ár. Sjómannamótið fer fram hinn 5. júní í ár en Volcano Open verður haldið dagana 3. til 4. júlí. Glæsilegir vinningar eru í boði í báðum mótum og er matur og drykkur í boði að loknum báðum mótum. Volcano Open fer fram yfir goslokahelgina og er um að gera að spila golf og njóta annarrar skemmtunar í Eyjum á þeim tíma.

Vert er að benda á að nánast alltaf eru lausir rástímar hjá GV, en það eru mikil forréttindi fyrir kylfinga að geta bókað tíma hvenær sem er og ekki með löngum fyrirvara. Því er tilvalið að fara í golfferð til Eyja í sumar og njóta þess að spila einn flottasta golfvöll landsins. Herjólfur siglir alla daga á milli 7 og 23 en einnig erum við með golftilboð í samstarfi við Hótel Vestmannaeyjar, hægt er skoða þau á miðlum GV.“

Kraftur í starfinu

Að sögn Rúnars hefur æfingaaðstaðan í Eyjum batnað til muna á umliðnum árum.

„Æfingaaðstaða Golfklúbbsins hefur verið á uppleið undanfarin ár. Æfingaskýlið býður upp á aðstöðu til að slá golfbolta allan ársins hring en inni í skýlinu er einnig hægt að slá í net ef ekki viðrar vel. Klúbburinn fjárfesti í TrackMan-golfhermi árið 2017 og hefur notkun hans aukist verulega með hverju ári. Á áætlun er einnig að setja upp púttaðstöðu á efstu hæð skálans, en það myndi gera kylfingum í Eyjum kleift að æfa bæði vipp og pútt allt árið um kring.

Kylfingar á öllum aldri æfa golf hjá GV. Karl Haraldsson, PGA-golfkennari, er með hópa hjá sér í kennslu, allt frá 5 ára aldri og upp í eldri borgara. Ungir iðkendur hafa náð langt í íþróttinni undanfarin ár, en það má sjá í gengi þeirra í mótaröðum GSÍ. Mikil aukning hefur verið í þátttöku yngri kylfinga frá okkur á Áskorenda- og unglingamótaröðinni og hafa sumir þeirra náð á verðlaunapall. Einnig hafa fremstu unglingar okkar skrifað undir samninga hjá bandarískum háskólum. Fullorðinssveitin okkar vann á síðastliðnu sumri 2. deildina í sveitakeppninni og stefnum við hátt á komandi sumri. Þakka má velgengni undanfarinna ára góðu og uppbyggilegu barna- og unglingastarfi hjá golfkennurunum okkar,“ segir Rúnar Gauti Gunnarsson.