Sævar Kristinsson
Sævar Kristinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sævar Kristinsson og Karl Friðriksson: "Fíllinn í herberginu stendur fyrir viðburði sem þú veist af en virðir ekki viðlits."

Yfirleitt mótast framtíðarviðburðir í samtímanum, eða eiga sér fordæmi í fortíðinni. Veirusýkingin Covid-19 er dæmi um viðburð sem hefði verið hægt að sjá og undirbúa sig fyrir. Hann á sér fordæmi í fyrri en smærri veirusýkingum og því voru sterk líkindi til að slíkur viðburður gæti átt sér stað. Oft hefur að undanförnu verið bent á Ted-fyrirlestur Bills Gates frá árinu 2015 þar sem hann fjallaði um mögulegt vírussmit sem eina mestu ógn mannkynsins. Jafnframt hafa framtíðarfræðingar bent á sambærilega möguleika og afleiðingar í ýmsum sviðsmyndum undanfarinna ára.

Samlíkingar

Framtíðarfræðingar nota oft dýrafyrirmyndir til að lýsa ákveðnum atriðum eða hegðun gagnvart því sem gæti gerst. Til dæmis er rætt um fyrirbrigðið svarta svaninn sem stendur fyrir hugsanlegar og miklar breytingar sem erfitt er að sjá fyrir.

Fíllinn í herberginu stendur fyrir viðburði sem þú veist af en virðir ekki viðlits. Svo er hægt að tengja þessa þætti saman og þá er talað um svarta fílinn! Hann stendur fyrir óvæntan og áhrifaríkan viðburð, sem þú þekkir frá fyrri tíð og þú hefðir getað undirbúið þig fyrir.

Sumir halda því fram að Covid-19 flokkist undir formerkjum svarta svansins. Viðburðurinn sé alger „jóker“, en sú samlíking er einnig oft notuð um áhrifamikla viðburði sem erfitt er að sjá fyrir. En því miður: Eftir að hafa skoðað söguna, þá flokkast Covid-19 að okkar mati undir formerkjum svarta fílsins; óvæntur viðburður sem var þekkt fyrirbrigði frá fyrri tíð og hefði átt að vera „auðvelt“ eða a.m.k. mögulegt að sjá fyrir.

Það er nefnilega þannig að við sjáum oft bara það sem við erum að leita eftir og til að sjá svarta fíla þarf að gera þrennt:

Að vita hvernig á að leita að þeim. Hvernig opnum við hugann fyrir öðrum þáttum en viðfangsefnum og dægurmálum líðandi stundar?

Að vita hvar á að leita. Við þurfum að skilja uppruna (drifkrafta) breytinga og áhrifamátt þeirra á viðfangsefnið.

Loks þurfum við að vilja sjá þá. Þannig og einungis þannig getum við hindrað þá ógn sem af viðburðinum stafar eða nýtt okkur þau tækifæri sem gætu opnast.

Það er umhugsunarvert í ljósi Covid-19 að rýna mismunandi og mjög ólík viðbrögð stjórnvalda og æðstu stjórnenda ríkja víða um heim í þessu samhengi.

Er framtíðin óþekkt?

Margir eiga erfitt með að meðtaka inntak framtíðarfræða, hvað þá að líta á þau sem vísindagrein eins og gert er í samanburðarlöndum okkar. Framtíðin er jú ekki til; hún er okkur óþekkt enda er hún ókomin. Í þessu sambandi hefur reyndar einnig verið bent á að fortíðin er ekki heldur til, hún sé liðin og því horfin, búin að vera. Samt fjalla yfirgripsmiklar vísindagreinar um fortíðina, bæði mannkynssagan, jarðsagan og fleiri slíkar. Fortíðin hefur jú raunverulega verið til á einhvern hátt og þess vegna er hægt (með vísindalegum vinnubrögðum) að ná í upplýsingar um hvernig hún var. Við höfum minjar frá fortíðinni, bækur, handrit, áhöld og myndir sem sýna okkur það.

Það eru ekki til neinar slíkar minjar um framtíðina, en það er til heilmikið af upplýsingum um þróun framtíðarinnar; fjöldi fæddra barna á hverjum tíma segir nokkuð nákvæmlega fyrir um fjölda nemenda á ólíkum skólastigum, við getum greint áframhaldandi áskoranir á sviði umhverfis- og loftslagsmála ásamt mengun sem mun valda vaxandi áhuga á hreinum svæðum og ómenguðum. Einnig er heilmikið vitað um tækni- og samfélagsþróun sem mun hafa veruleg áhrif til næstu áratuga. En það þarf vilja til að sjá þróunina og skilning til að nýta sér hana. Þar koma framtíðarfræðin sterk inn því með sviðsmyndum drögum við fram hvernig framtíðarþróun geti orðið – hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Sýnum vilja til að sjá og gera

Í fyrra gaf Framtíðarsetur Íslands út skýrsluna Menntagreining til ársins 2028. Sú skýrsla var kynnt hagaðilum, en niðurstöður hennar sýna m.a. að viðhorf skólaumhverfisins til breytinga er ekki á neinn hátt í samræmi við þá tækniþróun sem gæti stuðlað enn frekar að einstaklingsmiðuðu námi og almennt gert það skilvirkara.

Fjölda annarra dæma má nefna í þessa veru en þó ekki til að segja „ég vissi þetta“ því það veit enginn um það sem koma skal. Samt er hægt að draga fram líkur á að ákveðnir hlutir muni gerast og undirbúa sig til að taka á móti mögulegum framtíðum, ef vilji og víðsýni er fyrir hendi.

Það er mikilvægt að bæði stjórnvöld og aðilar atvinnulífsins séu með opinn huga til að skilja hvernig framtíðir geti beðið okkar og ekki síst til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að mæta þeim. Það var ekki ómerkari maður en Mahatma Gandhi sem orðaði þetta svo skýrt: „Framtíðin veltur á því hvað þú gerir í dag.“

Höfundar eru sérfræðingar í framtíðarfræðum. Framtíðarsetur Íslands.

Höf.: Sævar Kristinsson, Karl Friðriksson