Á Tungumelum Eins og sjá má er mikið af bílhræjum og rusli á lóð Vöku.
Á Tungumelum Eins og sjá má er mikið af bílhræjum og rusli á lóð Vöku. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Vaka hefur verið að nota þetta land til að geyma bílflök og ýmislegt annað lauslegt. Það er ekkert leyfi fyrir slíku,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Vaka hefur verið að nota þetta land til að geyma bílflök og ýmislegt annað lauslegt. Það er ekkert leyfi fyrir slíku,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ.

Á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar í gær var fjallað um nýtingu Vöku hf. á landi fyrirtækisins á Leirvogstungumelum. Í bókun sem samþykkt var á fundinum kemur fram að brotið hafi verið gegn reglum um umgengni og nýtingu á landinu og þrátt fyrir loforð um hreinsun hafi fyrirtækið ekki brugðist við athugasemdum bæjaryfirvalda. Er úrbóta krafist tafarlaust.

Bæjarstjórinn afar ósáttur

„Bæjarráð Mosfellsbæjar fer fram á að heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis bregðist hart við í málinu og beiti tiltækum heimildum sem eftirlitið hefur til þess að sjá til þess að fyrirtækið bregðist við athugasemdum og hætti brotum sínum um umgengi og óleyfilega nýtingu landsins tafarlaust. Bæjarráð skorar einnig á heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis að fylgja málinu eftir af fullum þunga,“ segir í bókuninni.

Í minnisblaði frá Tómasi Guðberg Gíslasyni, umhverfisstjóra Mosfellsbæjar, kemur fram að Vaka keypti umrætt land árið 2018. Þar hyggist fyrirtækið vera með starfsstöð í framtíðinni og athafnasvæði. Þá er rakið að kvartanir hafi borist í ársbyrjun vegna slæmrar umgengni og við eftirlit hafi komið í ljós að mikil uppsöfnun hafi orðið á bílhræjum og gámum á geymslusvæði sem áður var í eigu Ístaks hf. Óskað var úrbóta. Í svarbréfi Vöku frá 18. febrúar var upplýst að fyrirtækið myndi þegar hefjast handa við að hreinsa svæðið og myndi það taka að minnsta kosti fjórar vikur. Bæjaryfirvöld ákváðu að stöðva frekari viðræður við Vöku þar til brugðist hefði verið við með fullnægjandi hætti.

„Við eftirlit umhverfissviðs hefur komið í ljós að ekki hefur enn verið brugðist við athugasemdum Mosfellsbæjar um hreinsun á svæðinu, heldur virðast fleira rusl, þ.m.t. opnir gámar með rusli, hafa bæst við á svæðinu. Umgengni er því ennþá mjög ábótavant og úrbóta þörf tafarlaust,“ segir í minnisblaðinu.

Haraldur bæjarstjóri ítrekar þessa skoðun í samtali við Morgunblaðið: „Okkur finnst þetta alls ekki eiga heima á þessum stað og við erum ekki sátt við það hvernig þarna er gengið um.“

Áföll dynja á fyrirtækinu

Valur Stefánsson, framkvæmdastjóri Vöku, segir að forsvarsmenn fyrirtækisins viti upp á sig skömmina og reynt verði að bæta úr þessu hið fyrsta. „Metnaður okkar stendur til að laga þarna til en undanfarið hefur hvert atvikið rekið annað og tafið fyrir,“ segir hann og nefnir að markaður með stál hafi lokast vegna kórónuveirufaraldursins. Í kjölfarið hafi þurft að setja starfsmenn á hlutabætur segja fólki upp. „Svo hjálpar ekki til að almenningur hefur verið að henda þarna rusli. Þarna eru meðal annars brotin klósett og rusl í pokum. En að sjálfsögðu ætlum við að hafa þetta snyrtilegt,“ segir framkvæmdastjórinn. Hann bætir við að búið sé að teikna höfuðstöðvar Vöku á svæðinu og metnaður verði lagður í frágang. Trjám verði plantað við lóðarmörk til að girða starfsemina af.