Leitin Björgunarsveitin Vopni sér um leitina að skipverjanum.
Leitin Björgunarsveitin Vopni sér um leitina að skipverjanum. — Ljósmynd/Jón R. Helgason
Leit að skipverjanum sem talið er að hafi fallið fyrir borð af fiskiskipinu Erling KE-140 í Vopnafirði á mánudaginn bar engan árangur gær.

Leit að skipverjanum sem talið er að hafi fallið fyrir borð af fiskiskipinu Erling KE-140 í Vopnafirði á mánudaginn bar engan árangur gær. Hætta þurfti leitinni um kvöldmatarleytið, en veður fór þá versnandi í Vopnafirði og var talsverður sjógangur vegna vinds.

Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar voru fimm leitarhópar að störfum í gær, bæði á sjó og á landi. Voru gengnar fjörur frá Tangasporði að Sandvík auk þess sem leitað var í sandfjörum í Sandvík.

Jón Sigurðsson, formaður björgunarsveitarinnar Vopna, sagði við mbl.is í gær að leitin hefði verið nokkuð umfangsminni en síðustu daga, en björgunarsveitin hyggst halda áfram leit í dag.

„Það er bara farið yfir svæðin aftur og aftur. Við leituðum í þaula á svæðinu í [fyrradag], með gríðarlegum mannskap, til að útiloka að hann væri kominn upp í fjöru einhvers staðar. Við leitum í minni hópum núna og bætum síðan í að nýju um helgina, sama svæði aftur og aftur,“ sagði Jón, en hann telur að veðurskilyrði til leitar verði aftur orðin góð í dag.