Kristín Ragna Gunnarsdóttir
Kristín Ragna Gunnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðleikhúsið auglýsti eftir leikritum fyrir börn í lok febrúar og bárust hvorki meira né minna en 150 umsóknir.

Þjóðleikhúsið auglýsti eftir leikritum fyrir börn í lok febrúar og bárust hvorki meira né minna en 150 umsóknir. Leikhúsið festi sér tvö verk, annars vegar leikrit eftir nýjan höfund, Gunnar Eiríksson, sem sýnt verður strax á næsta leikári, og hins vegar verk eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur sem verður þróað áfram innan leikhússins, að því er fram kemur í tilkynningu. Nokkur fleiri leikverk voru valin til nánari skoðunar og þróunar innan leikhússins, segir þar. „Okkur þykir einstaklega vænt um þessi góðu viðbrögð við auglýsingu leikhússins eftir barnaleikritum,“ er haft eftir Magnúsi Geir Þórðarsyni þjóðleikhússtjóra en fjögurra manna nefnd, skipuð dramatúrgum og forstöðumanni barna- og fræðslustarfs leikhússins, las verkin og leikhússtjóri tók einnig þátt í valinu.

Þjóðleikhúsið mun sviðsetja strax á næsta leikári leikritið Kafbát eftir Gunnar og er það hans fyrsta leikrit en hann hefur starfað sem leikari í leikhúsi, kvikmyndum og sjónvarpi í Noregi á liðnum árum, auk þess að hafa samið tónlist fyrir leikhús. Sögusvið verksins er kafbátur og það mjög óvenjulegur en um borð eru stúlka og faðir hennar. Hugmynd Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur að fjölskyldusöngleik byggðum á sagnaheimi hennar um Úlf og Eddu þótti hrífandi og verður hann þróaður fyrir stóra sviðið. Í bókum sínum um stjúpsystkinin Úlf og Eddu nálgast Kristín menningararfinn á nýstárlegan og skemmtilegan hátt, segir í tilkynningunni og segir Magnús verkið sem hún vilji þróa upp úr þeim ævintýraheimi sérlega spennandi.