London Ekki er víst að þessi kona hafi fundið mikla blómaangan í gegnum andlitsgrímu sína þar sem hún gekk um í veðurblíðunni í Rósagarði Maríu drottningar við Regent Park í gær. Æ fleiri vilja njóta veðursins á almannafæri.
London Ekki er víst að þessi kona hafi fundið mikla blómaangan í gegnum andlitsgrímu sína þar sem hún gekk um í veðurblíðunni í Rósagarði Maríu drottningar við Regent Park í gær. Æ fleiri vilja njóta veðursins á almannafæri. — AFP
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Á sama tíma og embættismenn Evrópusambandsins (ESB) vinna að útfærslu tillagna kanslara Þýskalands og forseta Frakklands um hjálparsjóð til styrktar aðildarríkjum sem lent hafa í efnahagslegum hremmingum vegna kórónuveirunnar hafa leiðtogar fjögurra ríkja innan ESB hafið undirbúning að eigin tillögum í málinu sem líklega verður rætt á fundi fjármálaráðherra ESB á þriðjudaginn. Óvíst er þó hvenær það verður afgreitt.

Vilja lán frekar en styrki

Það eru Hollendingar, Austurríkismenn, Danir og Svíar sem ekki eru sáttir við að hjálparsjóðurinn fyrirhugaði úthluti eingöngu óafturkræfum styrkjum. Þeir vilja tryggja að ríki sem fá aðstoð ráðist í umbætur á kerfum sínum og að hluti framlaganna verði í formi lána sem verði endurgreidd.

Tillagan sem Emmanuel Macron og Angela Merkel urðu ásátt um á mánudaginn gerir ráð fyrir að stofnaður verði sjóður með 500 milljarða evra framlagi. Frakkar og Þjóðverjar eru atkvæðamestir innan ESB en samtals eru 27 ríki í sambandinu.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagði á blaðamannafundi í gær að frá sínum bæjardyrum séð yrðu þau ríki sem biðja um efnahagsaðstoð að taka til hjá sér; gera róttækar efnahagsumbætur heima fyrir svo þau þyrftu ekki aftur á aðstoð að halda næst þegar vandi steðjaði að.

Allt frá því í fjármálakreppunni fyrir rúmum áratug hafa ESB-ríkin í Norður-Evrópu fylgt mjög aðhaldssamri stefnu gagnvart efnahagsstoð við aðildarríkin í Suður-Evrópu. Þessi afstaða hefur leitt til þess að mjög stirt hefur verið á milli ríkjanna í norðri og suðri.

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, hafði áður greint frá því á Twitter að hann hefði átt gagnleg samtöl um málið við forsætisráðherra Hollands, Danmerkur og Svíþjóðar. Afstaða Austurríkismanna væri óbreytt; þeir væru reiðubúnir að hjálpa þeim þjóðum sem orðið hefðu fyrir mestum skakkaföllum vegna kórónuveirunnar með lánum en vildu ekki að útgjöld fjármálaáætlunar ESB til næstu ára yrðu aukin.

Nær 170 þúsund látnir

Tölur sem birtar voru í gær sýna að nær 170 þúsund Evrópubúar hafa látist af völdum kórónuveirunnar samkvæmt opinberum tölum. Í Bandaríkjunum og Kanada hafa um 98 þúsund látist, rúmlega 32 þúsund í Suður- og Mið-Ameríku, tæplega 13 þúsund í Asíulöndum, rúmlega átta þúsund í Mið-Austurlöndum, tæplega þrjú þúsund í Afríku og 128 í Ástralíu. Tölur um dauðsföll eru þó langt frá því að vera nákvæmar og geta í reynd verið að minnsta kosti helmingi hærri.

Andrea Ammon, forstöðumaður Evrópumiðstöðvar sjúkdómavarna (ECDC), sagði í gær að enginn vafi væri á því að önnur bylgja kórónuveirufaraldurs myndi koma á eftir þeirri sem nú geisar. „Spurningin er bara hvenær og hve stór hún verður.“ ECDC er einn helsti ráðgjafi ESB-ríkjanna á sviði farsóttavarna. „Við verðum að vera raunsæ, nú er ekki tíminn til að slaka á árvekninni,“ sagði Ammon.