Þegar börn og unglingar eru komin af stað í íþróttinni, og farin að spila að fullum krafti, færist hugurinn gjarnan nær keppnisgolfinu. Kylfingar á mismunandi getustigum í barna- og unglingastarfinu geta tekið þátt í mótum við sitt hæfi á sínum forsendum og fært sig yfir í hærri þrep eftir því sem geta og áhugi á keppnisgolfinu eykst.
Innanfélagsmótin
Flestir af stærri golfklúbbunum halda úti innanfélagsmótaröð þar sem yngstu kylfingarnir geta brotið ísinn og fengið jákvæða reynslu af því að keppa, í umhverfi sem þau þekkja vel þar sem þau etja kappi við æfingafélaga sína. GR heldur 10 mót yfir sumarið fyrir iðkendur frá 6-18 ára á Icelandair Cargo-mótaröðinni. Flokkunum er skipt upp eftir aldri og getu og er mikið lagt upp úr því að þau sem eru að stíga fyrstu skrefin finni jákvæða upplifun af því að vera með. Þau yngstu leika af gullteigum sem eru fremstu teigarnir á vellinum og leika níu holur en þau eldri og reyndari leika 18 holur af aftari teigum.
Áskorendamótaröð GSÍ
Eftir að hafa leikið á mótaröðinni í heimaklúbbnum vilja börnin oft taka næsta skref og liggur leiðin þá á Áskorendamótaröðina þar sem fimm mót eru haldin á laugardögum yfir sumarið víðs vegar um landið. Þar á að vera gaman á vellinum og aðaláherslan lögð á að læra leikinn og mismunandi leikform hans. Þjálfarar og foreldrar eru hvattir til virkrar þátttöku og að gera þessi mót sem skemmtilegust fyrir þátttakendur með jákvæðu hugarfari í kringum umgjörð móta.Þátttakendur geta valið um að leika í níu eða 18 holu flokki og er áhersla lögð á jákvæða upplifun umfram úrslitin á vellinum. Að móti loknu er boðið upp á grillaðar pylsur sem börn og foreldrar gæða sér á meðan á verðlaunaafhendingu stendur.
Unglingamótaröð GSÍ
Mótaröðin er fyrir framtíðarkylfinga 21 árs og yngri sem komnir eru með reynslu af keppnisgolfi í sínum heimaklúbbi á áskorendamótaröð og tilbúnir að taka næstu skref. Mótaröðin inniheldur alls fimm mót á hverju tímabili og haldinn er sérstakur stigalisti yfir stöðu leikmanna á mótaröðinni sem er uppfærður eftir hvert mót. Í lok tímabils eru efstu leikmönnum hvers aldursflokks veitt verðlaun fyrir stigameistaratitil GSÍ.Mótaröðin er samstarfsverkefni Golfsambands Íslands og þeirra golfklúbba sem halda mótin, en mótaröðin hefur vaxið hratt á undanförnum árum bæði í fjölda og styrk keppenda. Elstu aldursflokkarnir hefja því keppni einum degi fyrr en aðrir keppendur. Alls eru keppnisflokkarnir fjórir hjá báðum kynjum á mótaröðinni: 19-21 árs, 17-18 ára, 15-16 ára og 14 ára og yngri.
Stigamótaröð GSÍ
Stigamótaröðin er mótaröð fyrir bestu kylfinga landsins og til að fá þátttökurétt þarf að uppfylla ákveðin forgjafarskilyrði. Einnig getur staða á stigalista ráðið því hvort leikmenn fá boð til þátttöku á einstökum mótum. Efnilegustu unglingarnir sem leika á unglingamótaröðinni taka yfirleitt þátt í stigamótaröðinni ef mótin skarast ekki og ná sér þar með í mikilvæga reynslu með því að reyna sig á meðal þeirra bestu á stærri vettvangi. Í lok hvers tímabils hljóta efstu kylfingar, í hvorum flokki fyrir sig, titilinn stigameistarar GSÍ.Íslandsmótið í golfi hefur verið hátindur tímabilsins en þar er leikið um Íslandsmeistaratitilinn í höggleik sem er án efa eftirsóttasti titill sem völ er á í íslensku golfi. Til mikils er að vinna en verðlaun á mótaröðinni eru glæsileg og afreksstjóri GSÍ fylgist vel með árangri leikmanna og styðst við það í vali sínu á leikmönnum sem sendir eru í landsliðsverkefni erlendis á vegum GSÍ.
Íslandsmót golfklúbba
Íslandsmót golfklúbba er hápunktur keppnistímabilsins hjá flestum í barna-, unglinga- og afreksgolfinu. Mótið er haldið í öllum aldursflokkum frá 12 ára og yngri og allt upp í öldungaflokka karla og kvenna. Mótið hefur þá sérstöðu að vera liðakeppni milli golfklúbbanna þar sem klúbbarnir keppa sín á milli í riðlum áður en farið er í úrslitakeppni um sæti.Þegar kylfingarnir sem vanir eru að leika sem einstaklingar koma saman sem lið og keppa fyrir félagið sitt verður oft til frábær stemning í hópnum ásamt mikilli spennu og dramatík á vellinum þar sem leikfyrirkomulagið er holukeppni sem býður upp á miklar sviptingar meðan á leiknum stendur.
Hjá yngri liðunum eru foreldrar oft þátttakendur og fylgja börnum sínum og liðsfélögum eftir ásamt því að smyrja nesti og rétta þjálfurum hjálparhönd við skipulagið svo allt gangi sem best, þau eru því þátttakendur í verkefni liðsins og smitast þessi góða stemning yfir á alla sem taka þátt í mótinu.