Við sem erum svo lánsöm að vera fædd á Íslandi fengum í vöggugjöf okkar ástkæra, ylhýra mál, íslenzkuna. Þetta eru einstök sérréttindi, því við erum bara um 350.000 hræður í heimi milljarða. Útlendingum reynist oftast erfitt að læra okkar tungu, sem er allt í lagi, en við eigum léttara með að læra helztu tungumál heimsins. Því má náttúrulega ekki gleyma, að við erum upp til hópa gáfaðri, ha, ha!
Þegar ég var að læra ensku var ekki einu sinni komið sjónvarp og hvað þá heldur tölvur. Unga fólkið nú á tímum heyrir stöðugt ensku í þessum tveim miðlum og er því fljótt að læra tungumálið. Orðabækurnar voru þá mikið notaðar og allir kunnu brandarann um unga nemandann sem átti að þýða einfalda setningu yfir á ensku. Hún var: Hver á þessa bók? Hann greip orðabókina góðu og þýddi setninguna í snarhasti: Hot spring river this book?
Í gegnum tíðina hefir málið tekið allmiklum breytingum, sem við er að búast. Málspekingar okkar hafa setið með sveittan skallann að finna upp nýyrði fyrir útlenzk orð á nýjum uppfinningum og hlutum úti í heimi. Yfirleitt hefir þetta tekist vel, en stundum hafa málfræðingarnir ekki haft undan og þá tekur landinn útlenzku orðin beint inn í okkar mál, sem ekki er alltaf gott.
Ég hefi stundum sjálfur lagt hönd á plóginn og reynt fyrir mér í smíði nýyrða. Aðeins eitt orðanna hefir fundið sess í tungumálinu. Það er orðið skyndibiti, sem ég eigna mér, þótt möguleiki sé á því að einhverjir aðrir telji sig líka höfundana. Ég var afar ánægður þegar ég sá að orðið var oftsinnis notað á prenti. Sá ég fyrir mér að þegar ég yrði allur myndi vera skráð á legsteininn: Hér hvílir Þórir S. Gröndal, höfundur orðsins SKYNDIBITI.
Nokkur önnur nýyrði smíðaði ég en þau fengu ekki náð fyrir augum samlanda okkar. Eitt þeirra var morhád, þýðing á enska orðinu brunch, sem er sambland af orðunum breakfast og lunch, morgun- og hádegisverði. En það var önnur orðsmíði, sem mér fannst sérlega vel heppnuð. Það er þýðing á orðunum, sem Skotar nota yfir sitt bezta viskí, single malt. Mitt framlag er einmöltungur, sem ég vona enn að geti átt framtíð fyrir sér á okkar ástkæru tungu.
Fyrst við erum að tala um viskí ætla ég að kynna fyrir ykkur mína nýjustu orðsmíði, sem er fyrirsögnin á þessum pistli, glaumstund. Það splunkunýja orð leysir af hólmi hin tvö útjöskuðu ensku orð happy hour. Séð hefi ég nokkrum sinnum á prenti að landar hafa nefnt þetta fyrirbæri hamingjutíma. Það finnst mér ekki nógu góð þýðing. Margir telja sig náttúrulega upplifa hamingjuna þegar þeir finna á sér, en orðið er of hátíðlegt. Glaumur og gleði eiga betur við og glaumstund held ég að henti bezt.
Það er ofboðslega gaman, jafnvel fyrir leikmann, að spekúlera í hinum ýmsu tungumálum. Einhvern tíma fyrir mörgum öldum, þegar tungur hinna ýmsu þjóðflokka voru að þróast, virðast þeirra tíma menn hafa gert ýmis mistök, eða alla vega hefir misskilningur náð að grasséra. Tökum til dæmis íslenzka orðið ský. Það er þetta gráa, sem endalausa rigningin kemur úr. En á enskri tungu þýðir sama orðið, sky, himinn. Fyndin skýring gæti verið að það var alltaf skýjað á Íslandi og við héldum, að þetta gráa væri himinninn! Líka hefir orðið einhver misskilningur með nöfnin á andlitspörtunum. Haka virðist vera sama orðið og cheek á ensku. Gallinn er bara sá, að enska orðið er notað fyrir kinnina. En engilsaxnesku aularnir nota svo orðið chin, sem er auðvitað sama orðið og okkar kinn, yfir höku! Algjört rugl.
Margir hafa leikið sér að því að þýða úr einu tungumáli á annað eftir orðanna hljóðan, sér til gamans. Í Pennsylvaníu heitir aðal bílabrautin frá austri til vesturs Pennsylvania Turnpike. Þegar ég bjó í ríkinu í dentíð kölluðum við landar veginn aldrei annað en turnpíkuna. Um miðja síðustu öld var uppi þekktur stjórnmálamaður í Bretlandi að nafni Sir Heathcoat Amery. Sómamaðurinn Sigurður heitinn Markússon, sem gaman hafði af svona þýðingum, sagði mér að Halldór Kiljan Laxness hefði þýtt nafn þessa þekkta Englendings eftir orðanna hljóðan og útkoman var Séra Heiðakútur á Merinni!
Þótt ég sé búinn að dvelja lengi í henni Ameríku hugsa ég oftast á mínu gamla tungumáli. Til dæmis ávarpa ég stundum fólk hér, mér til gamans, og þýði þá beint úr íslenzkunni: How do you have it? Hvernig hefir þú það? Eitt sinn var ég í viðræðum við mann nokkurn og sagði hann þá eitthvað sem kom mér mjög á óvart. Varð mér þá að orði: I am so over myself surprised. Ég er svo yfir mig hissa. Maðurinn leit á mig í undrun.
Höfundur er fyrrverandi fisksali og ræðismaður í Flórída. floice9@aol.com