Snorri Páll Ólafsson, Derrick Moore og David Barnwell.
Snorri Páll Ólafsson, Derrick Moore og David Barnwell. — Morgunblaðið/Hari
Þjálfararnir þrír hjá GR eru þrautreyndir

Snorri Páll Ólafsson, Derrick John Moore og David George Barnwell eru allir PGA-menntaðir golfkennarar sem starfa hjá GR og búa þeir yfir mikilli reynslu þegar kemur að þjálfun barna, unglinga og afrekskylfinga.

Snorri hefur verið meðlimur í GR í 25 ár og hefur starfað hjá GR við þjálfun undanfarin 10 ár ásamt því að sinna skipulagshluta starfsins, samskiptum við foreldra og upplýsingagjöf undanfarin 2 ár.

David er fæddur í Englandi en flutti til Íslands árið 1986. David starfaði um árabil hjá Golfklúbbi Akureyrar við miklar vinsældir heimamanna. David hefur starfað við góðan orðstír um land allt en hann hefur starfað hjá GR sem ungmennaleiðtogi undanfarin 10 ár.

Derrick er fæddur og uppalinn í Skotlandi en flutti til Reykjavíkur árið 1999 þar sem hann starfaði sem yfirkennari til ársins 2006. Derrick kom aftur til starfa hjá GR árið 2019 eftir að hafa starfað um árabil hjá GKG við góðan orðstír og vinnur nú náið með David við þjálfun og fræðslu yngri iðkenda GR.

Þremenningarnir segjast leggja mikið upp úr því að búa til jákvætt umhverfi innan klúbbsins fyrir alla iðkendur og er stóra markmiðið að iðkendurnir læri leikinn, reglurnar, gildi og siði og stundi íþróttina á eigin forsendum sér til ánægju í nútíð og framtíð.

Hafa þeir allir gaman af því að fá að vinna með kylfingum í öllum aldurshópum á hverjum degi og hafa metnað til þess að viðhalda því sem við höfum gert vel og bæta það sem við getum bætt til þess að gera vinnuumhverfið enn betra og skemmtilegra fyrir iðkendur og félagsmenn.