Einar Benediktsson
Einar Benediktsson
Eftir Einar Benediktsson: "Slík er orðin samtenging allra landa heimskringlunnar, að veira sem á upptök í Wuhan í Kína hefur á skömmum tíma breiðst út til allra heimsins horna."

Þá má það vera okkur og öðrum furðuefni, að á Íslandi, einu Evrópulanda, skyldu ráð heilbrigðisyfirvalda gera okkur kleift að komast undan áfalli vegna COVID-19-faraldursins. Það er sérlega þýðingarmikið að íslensk stjórnvöld, sem fengu upplýsingar um faraldurinn þegar í janúar, hófu strax undirbúning að viðbrögðum, sem grípa varð til seint í febrúar þegar fyrstu sýkingarnar voru greindar. Þá gerði starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar það kleift að skima verulegan hluta þjóðarinnar um útbreiðslu veirunnar, sem var rakin af sérstöku starfsliði. Þróun faraldursins var, að þjóðinni virtist, fyrirsjáanleg af sóttvarnalækni og allur nauðsynlegur undirbúningur á bráðamóttökum og sjúkrahúsum stóðst raunina með miklu álagi á starfsliðið. Þetta vekur að sjálfsögðu verðskuldaða athygli erlendis. Mér var það mikil ánægja að sjá viðtal á CNN-sjónvarpsstöðinni við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í þætti sem sinnir þjóðarleiðtogum og fjallaði um þennan stórmerkilega árangur okkar sem óaðfinnanlegur var.

Covid-faraldurinn hefur vonandi raskað þeirri trú Evrópubúa, að með friði og velsæld, þar með góðri heilsugæslu, geti ríkin hvert og eitt komist undan alvarlegum skakkaföllum af mannfalli vegna einhverrar óþekktrar sýkingar. Svo er þó ekki vegna þeirrar gjörbreytingar í samfélagi þjóðanna, sem tilkomin er vegna tækniþróunar heimsvæðingarinnar. Slík er orðin samtenging allra landa heimskringlunnar, að veira sem á upptök í Wuhan í Kína hefur á skömmum tíma náð útbreiðslu til allra heimsins horna. En þegar mest kallaði á brast vilji til sameiginlegs átaks á þeim vettvangi þjóða, sem þetta varðar, Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna – World Health Organisation - WHO. Líta verður um öxl til sögu alþjóðasamstarfs frá stríðslokum ef reyna skal um skilning á aðgerðaleysi þegar fjöldi mannslífa liggur við.

Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar eftir seinni heimsstyrjöldina til að tryggja frið og velferð mannkyns. Ísland, nýorðið frjálst og fullvalda, varð þátttakandi. Stofnskrá SÞ kvað á um víðtækar skuldbindingar samvinnu í ýmsum sérstofnunum, en fyrst og fremst gæslu friðar, og þar skyldi Öryggisráðið gegna lykilhlutverki. En vonir um friðsamlega sambúð urðu að engu við andstöðu Sovétríkjanna og allt SÞ-kerfið var undirlagt af þeim pólitísku deilum sem áttu heima á allsherjarþingunum í New York.

Þá var það var árið 1949, að íslensk stjórnvöld taka þá sögulegu ákvörðun að standa með öðrum lýðræðisríkjum um stofnun varnarsamvinnu í NATO. Sovétríkin brugðust öllum fyrirheitum en tóku til við hervæðingu með kjarnavopnum í Varsjárbandalaginu og áróðri um heimsbyltingu sem tryggja skyldi alræði öreiganna. Það er búið en annað tekið við. Samstarfið innan NATO hefur líka breyst með árunum. Sem dæmi má nefna, að aukið tvíhliða varnarsamstarf NATO og Noregs hófst fyrir nokkrum árum og hefur þróast síðan. Norski flugherinn er búinn nýjustu bandarísku orrustuþotunum og hið sama á við um Finna. Þeir eins og Svíar standa utan en nærri NATO, m.a. vegna þátttöku í sameiginlegum verkefnum, eins og eftirlitsflugi bandalagsins við Ísland. Þetta nána samstarf, og t.d. mannvirkjagerð Atlantshafsbandalagsins í Noregi, er mér vitanlega talið eðlilegt hagsmunamál og að sjálfsögðu hafið yfir gagnrýni.

En deila á fortíðarnótum um hugsanlegar ráðstafanir mannvirkjasjóðs NATO hér á landi er séríslenskt eftirmál liðins tíma, það leyfir undirritaður sér að segja sem fyrrverandi fastafulltrúi Íslands í NATO, síðast í kalda stríðinu og árum þar á eftir. Þáverandi framkvæmdastjóri bandalagsins lagði til 2009 í ræðu á NATO-ráðstefnu í Reykjavík, að umræðu um öfluga leitar- og björgunarstarfsemi á norðurslóðum, sem rætt var um að yrði hér, skyldi skotið til NATO Russia Council. En það var þá.

Höfundur er fyrrverandi sendiherra.

Höf.: Einar Benediktsson