Sigmundur Ernir sinnti hlutverki sínu á Reykjavík Junior Open af alúð
Starfs míns vegna sem sjónvarpsmaður þarf ég hafa fatnaðinn í þokkalegu lagi, en þessa daga sem ég stýrði Reykjavík Junior Open í Grafarholtinu á síðasta ári toppaði ég sjálfan mig í klæðaburði og fór eiginlega gott betur en alla leið,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson sem sló í gegn sem vallarræsir á mótinu fyrir íslensk ungmenni á síðasta ári. Þar tóku 130 ungmenni af öllu landinu þátt í tveggja daga móti undir heiðum himni og er óhætt að segja að framkvæmd þess hafi tekist eins og best verður á kosið.
Uppáklæddur eins og lávarður
Sigmundur Ernir stóð báða dagana við háborð sitt á fyrsta teig í holtinu, uppáklæddur eins og enskur lávarður af óræðri öld, frá toppi til táar og var eftir því tekið hvað hann hvatti þátttakendurna af mikilli alúð, innsæi og augljósum áhuga. „Ég var í hlutverki gestgjafans og tók hlutverk mitt alvarlega. Það er nefnilega ekki nóg að taka vel á móti fólki, maður verður líka að gefa allt það af sér sem maður á af hlýju og umhyggju. Og krakkarnir tóku þessu vel, allir sem einn og gott ef ég sá þá ekki svífa yfir teignum eftir að ég var búinn að fara með hvatningarræðu mína fyrir hvern ráshópinn af öðrum,“ segir Sigmundur Ernir.
Augnablik sem gleymist ekki
Sigmundur segir mikinn metnað hafa blundað á meðal skipuleggjenda mótsins og hann hafi gripið þann anda á lofti: „Krakkarnir okkar eiga bara það besta skilið. Þetta eru snillingar sem leggja gífurlega mikið á sig við æfingar allan ársins hring, í hvaða veðrum sem er, oft við aðstæður sem eru á mörkum þess mögulega. Þess vegna var svo ánægjulegt að sjá hvað þeim fannst mótið vera mikil uppskeruhátíð. Þau voru stjörnurnar og áhorfendur, jafnt foreldrar, ættingjar, vinir og aðrir, fundu vel fyrir því hversu vel krakkarnir nutu sín úti á vellinum. Vegna þess að þetta var alvöru og án alls afsláttar,“ segir Sigmundur Ernir sem ítrekar hvað mótshaldarar hafi lagt sig fram við að gera umrætt mót að mikilvægu augnabliki sem aldrei muni gleymast í lífi þessara 130 ungmenna sem örkuðu um Grafarholtið um mánaðamótin ágúst/september á síðasta ári.