Magnús Sigurðsson fæddist 15. júlí 1959. Hann lést 12. apríl 2020.

Útför Magnúsar hefur farið fram.

Þín augu mild mér brosa

á myrkri stund

og minning þín rís hægt

úr tímans djúpi

sem hönd er strýkur mjúk

um föla kinn

þín minning björt

(Ingibjörg Haraldsdóttir)

Á sorgarstundu minnumst við okkar góða vinar, Magnúsar Sigurðssonar.

Við fengum á páskadagsmorgun fregnir af andláti hans, ótímabæru en ekki alveg óvæntu, eftir erfiðar vikur í aðdraganda þessa sára missis.

Leiðir okkar hafa legið saman um langa hríð. Maggi og Brynja voru boðuð í lítið þorrablót sem stóð fyrir dyrum hjá Guðmundi og Stínu í janúar 1988. Auk þeirra var boðið Hvítsíðingnum Sigurði, Jóhönnu konu hans og Grími, fyrrum vinnumanni á Kolsstöðum. Seinna bættist Valgerður hans í hópinn. Sumir þekktust betur en aðrir í þessum hópi en eftir þetta kvöld varð ekki aftur snúið, Þorrablótsfélagið varð til.

Án þess að til þess væri sérstaklega stofnað urðu Maggi og hans sterku skoðanir ómeðvitað gott mótvægi við fremur fornan alþýðusmekk hvítsíðska karlpeningsins í hópnum.

Maggi var víðlesinn, kynnti okkur það sem á náttborði hans hafði legið, gjarnan verk yngri skálda.

Hafði hann þannig drjúg áhrif á það hvað heillaði okkur hin í nálægum bókahillum.

Margt höfum við brallað saman í áranna rás. Auk árlegra þorrablóta voru sumarferðir farnar. Áföngum í lífi barna okkar var iðulega fagnað saman og jafnvel kosninganætur urðu tilefni vinafunda.

Í pólítík var ekki komið að tómum kofunum hjá Magga; hjartað sló alla tíð vinstra megin, af mikilli sannfæringu. Í tilefni sextugsafmælis Magga í fyrra fögnuðum við lífinu á einstökum sólardegi í Suðurenginu. Meinið, sem uppgötvast hafði nokkrum mánuðum fyrr, gaf grið svo að veisla var haldin.

Í hugann koma ótal myndir:

Maggi, sem fangaði andartakið með listrænu auga myndavélarinnar. Maggi, viðmótsþýði og hláturmildi náttúruunnandinn, sem kleif urð og grjót íslenskrar náttúru af ástríðu og drakk í sig íslenskt sumar, hvernig sem viðraði. Maggi, sem hafði lesið allar nýjustu bækurnar. Maggi, sem hafði meiningar um hlutina svo allar samræður urðu innihaldsríkar.

Fasið hlýtt, blik í auga. Fagnaði hverjum endurfundi. Tryggur vinum sínum.

Elsku Brynja og aðrir ástvinir:

Maggi var bjartur yfirlitum og það er minning hans líka. Við þökkum fyrir líf hans og vináttu.

Magga góðu minningar

megi sorgir lina.

Sterkur hann til staðar var

í stórum hópi vina.

Eftir langan vetur – vor

vekur aftur trúna.

Fyrir lífs hans fögru spor

færum þakkir núna.

(Guðmundur Guðlaugsson)

Guðmundur, Kristín,

Sigurður, Jóhanna, Grímur og Valgerður.