Íran Klerkastjórn Ayatollah Ali Khamenei ríkir með harðri hendi.
Íran Klerkastjórn Ayatollah Ali Khamenei ríkir með harðri hendi. — AFP
Amnesty International hvatti til þess í gær að Sameinuðu þjóðirnar gengjust fyrir rannsókn á drápum íranskra öryggissveita á fjölda mótmælenda víðs vegar um landið 15. nóvember í fyrra.

Amnesty International hvatti til þess í gær að Sameinuðu þjóðirnar gengjust fyrir rannsókn á drápum íranskra öryggissveita á fjölda mótmælenda víðs vegar um landið 15. nóvember í fyrra. Til mótmælanna var efnt þegar stjórnvöld hækkuðu óvænt verð á eldsneyti um 200 prósent. Til átaka kom víða á mill þátttakenda og öryggissveita sem bundu enda á mótmælin af mikilli hörku. Segir Amnesty að samtals hafi 304 látist, karlar, konur og börn. Slökkt var á netsambandi innanlands og við útlönd á meðan sveitirnar börðu mótmælin niður.

Í fréttatilkynningu samtakanna segir að samkvæmt rannsókn þeirra hafi 220 þátttakenda látist innan tvegga daga frá mótmælunum. Flestir hafi látist eftir að hafa verið beittir harðræði af öryggissveitum sem beitt hafi ólögmætu valdi þar sem ekkert bendi til þess að fólkið hafi haft vopn um hönd eða ógnað öryggi annarra. Frá þessu hafi aðeins verið undantekning í einni borg Írans, þar sem mótmælendur gripu til vopna og skiptust á skotum við öryggissveitir.

Amnesty segir að fjölskyldur hinna látnu hafi búið við ofsóknir yfirvalda síðustu sex mánuði samtímis því sem þær hafi leitað sannleikans um örlög ástvina sinna. Öryggissveitirnar njóti friðhelgi og geti því komist upp með glæpsamlegt framferði gagnvart öllum sem mótmæla.

Samkvæmt gögnum sem Amnesty hefur aflað drápu öryggissveitirnar mótmælendur í 37 borgum víðs vegar um Íran. Flestir létust í mótmælum í fátækrahverfunum í útjaðri höfuðborgarinnar Teheran, 163. Samtökin segjast hafa áreiðanlegar upplýsingar um 304 einstaklinga sem létust, þar af 10 konur og 23 börn. Líklegt sé að miklu fleiri hafi látist í mótmælunum. Flestir hafi fallið fyrir skotkúlum öryggissveitanna. Hafi þær greinilega miðað á höfuð mótmælenda með þann ásetning að drepa.