Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Við finnum sannarlega fyrir auknum áhuga. Bæði á Jordan-vörum og Bulls-tengdum fatnaði en líka almennt í körfuboltavörum,“ segir Arnar Freyr Magnússon, eigandi körfuboltaverslunarinnar Miðherja í Faxafeni.
Mikið umtal hefur verið um þættina The Last Dance, sem nýverið fóru í sýningar á Netflix. Í þáttunum er fjallað um lið Chicago Bulls í NBA-deildinni á tíunda áratugnum og byggja þeir meðal annars á óbirtu myndefni frá síðasta tímabili Michael Jordan þar, 1997-1998. Augljóst er að margir hafa gaman af að rifja upp þessa tíma, en NBA-deildin naut mikilla vinsælda hér á þessum árum.
„Fólk ætti að vera að horfa á úrslitakeppni NBA núna svo þessir þættir eru hiklaust að bjarga sjónvarpsáhorfinu. Þeim var enda flýtt út af kórónuveirunni. Þetta virðist mikið vera nostalgía, fólk á milli 35-50 ára sem horfir og kaupir sér svo treyjur frá þessum tíma. Krakkarnir kaupa þó sér frekar skó frá þeim leikmönnum sem eru að spila í dag,“ segir Arnar.
Hann segir að áhugi og áhorf á körfubolta sé mjög hátt á Íslandi í dag. Aðspurður segist hann telja að yngri kynslóðin horfi ábyggilega á The Last Dance en kannski ekki af sama eldmóð og sú eldri. „Krakkarnir tengja ekki jafn heitt við þetta og þeir sem eru fæddir í kringum 1980. Næntís-fílingurinn hreyfir við mörgum.“
Hörður Magnússon, rekstrarstjóri hjá Útilífi, segir að mikið hafi selst af körfuboltum í vor. „Það er tvöfalt meiri sala á körfuboltum hjá okkur en í fyrra. Hvort það tengist Jordan-þáttunum eða því að Íslendingar vilja komast út að leika sér veit ég ekki.“