Rekstur Það hefur verið í mörgu að snúast á athafnasvæði Slippsins á Akureyri að undanförnu og er búist við að það verði staðan áfram, að minnsta kosti fram á haust. Veirufaraldurinn er sagður hafa valdið fáum töfum.
Rekstur Það hefur verið í mörgu að snúast á athafnasvæði Slippsins á Akureyri að undanförnu og er búist við að það verði staðan áfram, að minnsta kosti fram á haust. Veirufaraldurinn er sagður hafa valdið fáum töfum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is „Verkefnastaðan er viðunandi.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

„Verkefnastaðan er viðunandi. Við erum að vinna í mörgum krefjandi verkefnum og höfum töluvert af verkefnum fram undan sem bíða okkar,“ segir Bergþór Ævarsson, framleiðslustjóri Slippsins á Akureyri, en deild hans sinnir framleiðslu og uppsetningu á vinnslulínum í skip og landvinnslur. „Þetta eru bæði innlend og erlend verkefni sem við höfum verið að vinna að en lausnir okkar hafa í auknum mæli verið settar upp í erlendum skipum og vinnslum. Við höfum því tekið fullan þátt í að flytja út þá afburðaþekkingu sem byggst hefur upp í íslenskum sjávarútvegi.

Við vorum að klára smíði og uppsetningu á vinnsludekki í Harðbak EA 3 fyrir Útgerðarfélag Akureyringa og fór skipið í fyrstu veiðiferð sína á dögunum. Svo erum við að hefja uppsetningu á móttöku í fiskvinnslu Samherja á Dalvík, það verkefni er gríðarlega spennandi og næsta verkefni sem er fram undan hjá okkur.“ Þó svo að verkefnastaðan sé góð getur Slippurinn bætt við sig fleiri verkefnum að sögn framleiðslustjórans. „Þar sem við erum einnig að sinna þjónustuhlutverki gerir maður ráð fyrir að um 20% af mannskapnum séu alltaf laus þannig að hægt sé að bregðast við ef eitthvað kemur upp.“

Um 25 starfsmenn sinna verkefnum félagins á framleiðslusviðinu en litlar tafir urðu á verkefnum vegna kórónufaraldursins að sögn Bergþórs. „Vegna Covid og samkomubannsins hægði töluvert á okkur um tíma og þurftum við að skipta deildinni í tvennt og gat eingöngu helmingur starfsmanna deildarinnar verið í vinnu. Við óttuðumst að þeim verkefnum sem við vorum að vinna að myndi seinka en með samstilltu átaki tókst að standa við gefin loforð gagnvart viðskiptavinum og fyrir það fá starfsmenn Slippsins mikið hrós.“

Vona að landamæri opnist

„Staðan er og hefur verið góð. Það hægði á hjá okkur í kjölfar samkomubanns, en við höfum náð að halda nokkuð góðri verkefnastöðu í gegnum þennan erfiða tíma. Erum í góðri stöðu fram á haustið. Í þessum geira telst það nokkuð gott,“ segir Ólafur Ormsson, sviðsstjóri skipaþjónustu. „Við erum núna með Tasermiut GR, grænlenskan togara, hjá okkur í umfangsmiklum viðhaldsverkefnum. Almálning á skipinu, öxuldráttur, smíð á nýjum botnstykkjabáti og viðgerð á afgaskatli ásamt hefðbundnum viðhaldsverkefnum. Einnig erum við að leggja lokahönd á uppsjávarskipið Kap VE 4, sem er hjá okkur í almálningu, skrúfu- og stýrisviðgerð og fleira. Næstu verkefni eru til dæmis Margrét EA 710 og Jón Kjartansson SU 111. Eikarbáturinn Húni II EA kemur svo til okkar í byrjun júní í árlegan slipp og viðgerð á skans, Húni II er stærsti varðveitti eikarbáturinn á Íslandi.“

Ólafur segir að ríkur vilji sé fyrir hendi til að taka fleiri verkefni en nú eru hjá Slippnum á Akureyri en það sé háð því að aðstæður í þjóðfélaginu batni og sérhæft starfsfólk fáist til þeirra verka, en erfitt er að sækja starfsfólk með fagmenntun að utan eins og stendur vegna ferðatakmarkana. „Við vonum að það fari að lagast og landmærin að opnast aftur. [...] En við búum vel að því að við erum með sterkan kjarna starfsmanna. Þetta er 160 manna fyrirtæki, þannig að við höfum marga reynda starfsmenn, höfum byggt á þessum kjarna til lengri tíma og stöndum vel að vígi í þessu árferði miðað við marga aðra.“

Hann segir Slippinn Akureyri hafa hafið sölu á sjálfvirkum þvottakerfum fyrir færibönd og annan vinnslubúnað. „Þessari viðbót hefur verið vel tekið og mikill áhugi er fyrir þessum búnaði. Nýtt fiskvinnsluhús Samherja hf. á Dalvík er með þennan búnað uppsettan á færibönd sín, einnig verður þessi búnaður settur upp í nýrri fiskvinnslu Brims á Norðurgarði í Reykjavík.“

Stöðugt rennerí hjá DNG

Kristján Björn Garðarsson, rekstrarstjóri DNG, dótturfélags Slippsins á Akureyri, segir alltaf mikið um að vera á þessum árstíma enda margir að undirbúa sumarvertíðina og ekki síst hefja strandveiðar. Fyrirtækið framleiðir færavindur og margs konar rafeinda- og tæknibúnað. „Þetta er ákveðinn hápunktur í viðgerðum, menn að gera sig tilbúna fyrir sumarvertíð. [...] Þegar kemur að vindunum er þetta býsna svipað og síðastliðin ár, kannski eilítið líflegra á þessum tíma þegar strandveiðarnar eru að byrja og svo makríllinn í kjölfarið, það koma miklir toppar í þetta.“

Hann segir að þótt ávallt hafi verið gert ráð fyrir að af vertíðinni yrði hafi komið aðeins á óvart að tímabilið hafi gefið jafn mörg verkefni og raun ber vitni, þar sem virðist hafa hægt á víða og verð á fiskmörkuðum er heldur lágt. „Við höfum ekki tekið eftir samdrætti í þessu miðað við þennan árstíma.“ Kristján treystir sér ekki til þess að giska á hversu margir bátar nýti þjónustu DNG á ári. Spurður hvort um sé að ræða nokkra tugi báta svarar hann: „Nei, það eru miklu fleiri, þetta er standandi. Sumir koma á haustin og á veturna þegar þeir eru ekki í útgerð og aðrir koma í aðdraganda vertíðarinnar og skella þeim til okkar í yfirhalningu og eftirlit eða viðgerðir. [...] Þetta er gríðarlegur fjöldi hérna á Íslandi, það eru mörg hundruð vindur í gangi og ekki allt bundið við strandveiðar.“

Spurður hvort því sé ekki fagnað að hafa nóg að gera í þessu árferði kórónuveirunnar segir Kristján svo vera. „Við höfum verið í fullum gangi í gegnum Covid-ástandið. Það hefur ekki verið lokað einn dag hér.“

DNG þjónustar ekki bara íslenskan markað heldur hefur staðið í talsverðri sölu og þjónustu við útgerðaraðila víða um heim, að sögn Kristjáns. „Þetta eru Norðmenn, Írar, Skotar, Færeyingar mikið og Grænlendingar. Nýfundnaland, báðar strendur Bandaríkjanna að hluta. Þetta er um allt, einu sinni var Alaska markaðssvæði og svo er þetta um hvippinn og hvappinn. Við erum alveg niður í Nýja-Sjáland og Ástralíu.“