Árni Arnar Sæmundsson fæddist 3. nóvember 1944. Hann lést 21. apríl 2020

Útför hans fór fram 9. maí 2020.

Guð gaf mér engil sem ég hef hér á jörð.

Hann stendur mér hjá og heldur um mig vörð.

Hann stýrir mér í gegnum lífið með ljósi sínu.

Ég er svo þakklát að hafa hann í lífi mínu.

Ég vona að hann viti að hann er mér kær.

Allar mínar bestu hugsanir hann fær.

Hans gleði og viska við alla kemur.

Við flestalla honum vel semur.

Hann stendur mér hjá þegar illa liggur við.

Hann víkur ekki frá minni hlið.

Nema sé þess viss að allt sé í lagi.

Fer þá að vesenast í málarastússi af ýmsu tagi

Hann er vandvirkur og iðinn.

Hann sinnir alltaf sínu vel.

Hann segir það aðalatriðin

sem er rétt, það ég tel.

Hann hefur kennt mér að vera þol inmóð og sterk,

hvetur mig áfram að stunda mín dags verk.

„Þú skalt alltaf standa á þínu,“ hann ávallt hefur sagt,

mikla áherslu á það lagt.

Þótt svo hann segi ekki við mann oft mikið

þá meinar hann alltaf margt.

Hann getur aldrei neinn svikið

það getur hann ekki á neinn lagt.

Hann er bara þannig maður.

Hann er bara þannig sál.

Hann er aldrei með neitt þvaður.

Hann meinar allt sitt mál.

Hann sýnir mér svo mikla ást.

Hann vill aldrei sjá neinn þjást.

Hann er minn klettur og hann er mín trú.

Hann er minn besti pabbi, staðreyndin er sú!

(Katrín Ruth.)

Þetta ljóð segir allt sem segja þarf um þig, pabbi minn, mun sakna þín endalaust. En ég veit að þú ert ekki lengur þjáður og það er fyrir öllu að þér líði vel í sumarlandinu, eins og litlu langafadrengirnir þínir segja: „Nú líður afa hallóboy vel.“ Takk fyrir allt, elsku pabbi minn, blessuð sé minning þín.

Þín uppáhaldsdóttir,

Nanna.

Elsku afi, það er skrítið að hugsa til þess að þú hafir kvatt okkur og ég eigi ekki eftir að heyra í þér hljóðið, rífa aðeins kjaft við þig og fara yfir heimsmálin. Símtölin okkar voru oft skrautleg en svo ótrúlega skemmtileg. Það kom fyrir að ég hugsaði: bullið í honum afa! En oftar en ekki varstu sannspár og það sem þú sagðir og maður hafði hrist hausinn yfir raungerðist. Það var oft gott að leita ráða hjá þér afi, þú fylgdist vel með því sem ég var að gera og stundum furða ég mig á því hvernig þú vissir suma hluti. Alltaf vildir þú þó vita hvort allir væru ekki hressir og frískir og liði vel í fjölskyldunni.

Ég á góðar minningar um okkur saman enda miklir vinir og mikil virðing og traust á milli okkar. Það var t.d. mjög gott þegar ég var yngri þegar maður var þreyttur, og kannski eitthvað búinn að meiða sig, að fá alvöru afanudd með þínum stóru höndum, það var enginn sem gat nuddað eins vel og þú. Ég vildi alltaf að þú yrðir nuddari, þar hefðir þú verið á heimavelli.

Ég á margar góðar minningar frá golfvellinum í Ólafsfirði, það var gott að læra golf hjá þér. Þar var farið eftir öllum lögum reglum og ekkert gefið eftir. Þessi setning kom oft: „Hjörvar, ekki taka svona á þessu, horfðu á kúluna og ekki flýta þér.“

Það kom nú stundum fyrir að golfferðin byrjaði í sjoppunni þar sem við tókum fyrst einn ís í brauði, enda fannst afa fátt betra en góður ís. Hann var reyndar ekki lengi með ísinn, þegar hann var búinn var „fýrað upp í einum kamma“ og lagt af stað á bláa súbbanum, sem var orðinn frekar þreyttur undir lokin. Oftast þurftum við að opna alla glugga til þess að hleypa út bæði reyknum af kammanum og ekki síður rykinu af götunni, en afi vildi þó meina að þetta væri alvöru fjallaloft.

Hvíldu í friði afi, ég veit að núna líður þér betur.

Hjörvar Maronsson.

Okkar fyrstu kynni voru þegar ég var lítill gutti á Skeiðsfossi hjá afa og ömmu, þar sem ég var alinn upp að mestu. Þá spurði ég hann hvort hann gæti ekki orðið pabbi minn. Það var auðsótt mál og gerðum við þar samning sem stóð á traustum og góðum grunni alla tíð.

Okkar leiðir lágu svo saman fyrir alvöru þegar ég var 14 ára. Þá spurði hann mig hvort ég vildi koma með sér á sjó á litlum bát, sem hann var fenginn til að róa með á handfæri um sumarið. Ég tók boðinu og rerum við tveir og áttum frábæran tíma saman. Þetta var þegar nóttin var björt og allt iðaði af lífi við fiskuðum mjög vel. Ég hlakkaði alltaf til hvers dags og þar var grunnurinn lagður að mínu ævistarfi. Ég fékk fullt traust frá pabba til að ganga í öll verk nema að hann passaði vélina. Hann var mjög gætinn á sjónum. Það var ekkert verið að ana út í neina vitleysu þótt kappið væri mikið.

Við vorum svo saman með rækjubát nokkrum árum seinna og það gekk líka mjög vel hjá okkur. Pabbi kom svo sem vélstjóri til mín á Guðmund Ólaf árið 1985 og þar kom hans góða kunnátta við vélar okkur vel. Vélin var orðin gömul og lúin og oft þurfti að beita brellum til að halda henni gangandi.

Pabbi var búinn að vinna mikið við vélaviðgerðir þegar hann var að læra vélvirkjun á Nonnaverkstæðinu í Ólafsfirði. Hann var heljarmenni að kröftum og mjög duglegur til vinnu. Alla tíð var hann var mjög hvetjandi í minn garð og hvatti mig og studdi þegar ég fór í Stýrimannaskólann. Hann var búinn að vera á ýmsum aflaskipum á sínum yngri árum, bæði við Ísland og í Norðursjó.

Pabbi átti alltaf þann draum að vinna sjálfstætt og lét verða af því. Hann átti litla trillu í nokkur ár en það var mikil vinna og bras. Hann hætti því og fór út í veitingarekstur. Það var líka mikil vinna en honum líkaði sá rekstur vel og hafði gaman af að umgangast viðskiptavini sína.

Pabbi hafði gaman af íþróttum og þá sérstaklega golfi og fótbolta. Hann lá ekkert á skoðunum sínum almennt og sagði nákvæmlega það sem honum fannst og fékk oftar en ekki dræmar undirtektir. Það var nú samt furðulegt hvað hann hafði oft rétt fyrir sér, sem kom þá í ljós seinna. Hann hafði góða yfirsýn yfir fjölskylduna og vissi stöðuna hjá öllum.

Pabbi var búinn að eiga í miklum veikindum síðastliðin 10 ár. Hann var líka ekki auðveldasti gesturinn á sjúkrastofnununum, var þrjóskur og fór ekki alltaf eftir því sem honum var sagt. Hann vildi ráða ferðinni sjálfur, það var bara hans vani. Honum var því miður ekki ætlað að geta notið efri áranna eftir að vera búinn að leggja inn í lífsins banka allt stritið og þetta var niðurstaðan. Bestu þakkir fyrir tímann sem við áttum saman.

Maron Björnsson.