Notalegt Nýju Giljaböðin umvefja gesti með hreinni íslenskri náttúru.
Notalegt Nýju Giljaböðin umvefja gesti með hreinni íslenskri náttúru.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hótel Húsafell er gott dæmi um þá uppbyggingu og þann metnað sem einkennt hefur ferðaþjónustuna í Borgarbyggð á undanförnum árum.

Hótel Húsafell er gott dæmi um þá uppbyggingu og þann metnað sem einkennt hefur ferðaþjónustuna í Borgarbyggð á undanförnum árum. Hótelið tók á móti fyrstu gestunum árið 2015 og hefur reksturinn gengið mjög vel alla tíð síðan enda þykir hótelið og veitingastaðurinn þar bjóða upp á upplifun sem er í algjörum sérfloki.

Kristján Guðmundsson er sölu- og markaðsstjóri hótelsins og segir hann að við opnun hafi þegar verið mikil vöntun á góðu hóteli á þessum stað, enda liggi straumur ferðamanna í gegnum svæðið. Margir staldra þar við á leið sinni umhverfis landið, en svo eru líka ófáir sem gera sér gagngert ferð í Borgarbyggð til að skoða söfn og náttúruundur eins og Hraunfossa, virða fyrir sér hrikalega hella eða heimsækja Langjökul.

Hótel Húsafell stendur undir nafni sem sælureitur þeirra sem vilja njóta þess að vera til og skartar m.a. góðri sundlaug, níu holu golfvelli og úrvali fallegra göngu- og hjólaleiða um nágrennnið en hægt er að fá reiðhjól að láni hjá hótelinu. Nýjasta viðbótin eru Giljaböðin sem eigendur hótelsins hafa komið upp steinsnar frá hótelinu. „Gestum er ekið um fimm mínútna leið í átt að Hraunfossum og tekur svo við stutt ganga niður í gil þar sem er að finna fallegan foss og náttúrulegar baðlaugar,“ útskýrir Kristján en búið er að leggja slóða niður að laugunum, koma þar fyrir búningsklefum og gera snotra hleðslu í kringum laugarnar svo að mjög vel fer um þá sem þangað koma.

Kristján segir að miðað við aðstæður sé staðan þokkaleg í augnablikinu, og þótt reikna megi með skorti á erlendum ferðamönnum virðist Íslendingar ætla að vera duglegir að ferðast innanlands í sumar og hafa sérstök sumartilboð hótelsins vakið lukku. „Við bjóðum upp á fjóra mismunandi pakka sem spanna allt frá gistingu í eina nótt yfir í tveggja nátta dvöl með kvöldverði á veitingastaðnum,“ segir Kristján en hótelið var opnað á ný í gær, 20. maí, eftir kórónuveirulokun. „Nú þegar er uppselt fyrstu helgina og nokkuð þétt bókað helgarnar þar á eftir, en nóg af lausum herbergjum þegar líður á sumarið.“ ai@mbl.is