Ómar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri GR.
Ómar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri GR. — Ljósmynd/GR
Áhugi Íslendinga á golfíþróttinni heldur enn áfram að aukast

Ómar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Reykjavíkur, hefur í mörg horn að líta á þessum árstíma. Til að mynda er klúbburinn nýlega búinn að opna vellina. Spurður um áhrif kórónuveirunnar á golfið segir Ómar ekki vera um miklar breytingar að ræða úti á golfvelli.

„Komandi sumar lítur afar vel út enda höfum við orðið vör við aukinn áhuga fólks á golfíþróttinni. Golfið er almenningsíþrótt þar sem kynslóðir koma saman. Að sjálfsögðu höfum við þurft að laga okkur að breyttum aðstæðum líkt og aðrir vegna aðstæðna en faraldurinn kemur í raun lítið niður á iðkun golfíþróttarinnar þar sem hún er stunduð utanhúss, á stóru svæði, þar sem gott bil getur verið á milli fólks. Þetta hefur m.a. leitt til þess að gríðarleg eftirspurn er eftir rástímum á völlunum, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum, en faraldurinn setur litlar sem engar hömlur á þá sem iðka íþróttina.

Nú þegar á fyrstu dögum opnunar golfvalla klúbbsins hefur verið mikið líf í báðum klúbbhúsum okkar, þ.e. við Korpúlfsstaði og í Grafarholti. Í vor var golfskálinn í Grafarholti mikið endurnýjaður og hafa þá bæði klúbbhúsin verið endurnýjuð að hluta. Á báðum stöðum er að finna afar mikið úrval girnilegra veitinga og er öllum velkomið að heimsækja okkur þangað hvenær sem er. Enginn verður svikinn af því.“ Segir Ómar vellina sjaldan hafa verið jafn góða á þessum árstíma. Áhyggjur sem á hann leituðu í vetur hafi reynst óþarfar.

„Veturinn var harður og óttuðumst við á tímabili að vellirnir kæmu illa undan vetrinum. Það er jafnan stærsta áhyggjuefni okkar. Það var því einstaklega ánægjulegt að sjá að vellir félagsins hafa sjaldan verið jafn góðir á þessum árstíma og nú. Það eina sem okkur vantar er að hitastigið hækki um nokkrar gráður en samkvæmt jákvæðum veðurspám er það í kortunum og þá mun grasið taka vel við sér.“

Ungu fólki fjölgar í GR

GR-ingar hafa tekið eftir fjölgun meðlima á þrítugsaldri á þessu ári.

„Golfklúbbur Reykjavíkur er stærsti golfklúbbur landsins, en félagar eru nærri 3.000. Félagsmenn eru á aldursbilinu 6-100 ára. Því er óhætt að segja að klúbburinn hafi innan vébanda sinna afar stóran, fjölbreyttan og skemmtilegan hóp. Í ár hefur til að mynda verið áberandi mikil fjölgun félagsmanna í aldurshópnum 19-26 ára, auk þess hefur fjölgað mikið í hópi kvenna undanfarin ár,“ segir Ómar, en fyrir þá sem ekki þekkja til er það ekki hrist fram úr erminni að halda tveimur golfvöllum við svo vel sé.

„Starfsemi félagsins er mjög umfangsmikil. Á skrifstofunni starfa fjórir starfsmenn allt árið um kring, auk 7 vallarstarfsmanna. Vélafloti félagsins er afar stór og verðmætur, enda þarf mikið til að halda völlum félagsins góðum með 60 golfbrautum auk æfingasvæða. Þjálfarar í barna- og unglingastarfinu eru þrír vel menntaðir PGA-golfkennarar og vinna þeir við þjálfun félagsmanna allt árið. Heildarfjöldi starfsmanna er því fjórtán sem vinna allt árið um kring. Á hinn bóginn fjölgar starfsmönnum klúbbsins mikið yfir sumartímann og fer heildarfjöldinn þá upp í sjötíu þegar mest lætur. Þar vega störf á völlunum langsamlega þyngst.“

Spennandi tímar fram undan

Ómar horfir bjartsýnn til framtíðar, en á döfinni er uppbygging æfingaaðstöðu innandyra.

„Stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur vinnur þessa dagana ásamt starfsfólki hörðum höndum að uppbyggingu nýrrar inniæfingaaðstöðu fyrir golfara. Hugmyndavinna vegna þessa verkefnis er í fullum gangi, sem felst ekki hvað síst í því að greina þarfir allra aldurshópa sem stunda golfíþróttina og reyna að koma til móts við þær. Á næstu mánuðum mun stjórn félagsins boða til félagsfundar þar sem tillögur þar að lútandi verða kynntar félagsmönnum og ákvarðanir vonandi teknar í framhaldinu. Þessi aðstaða mun breyta golfiðkun íslenskra kylfinga til muna allt árið um kring.

Þá eru ávallt mörg verkefni í gangi við að fegra og bæta vellina okkar og liggur áhersla okkar í Grafarholtinu um þessar mundir. Það er því bjart fram undan hjá GR,“ segir Ómar Örn Friðriksson.