Þórunn Þorvaldsdóttir fæddist 6. janúar 1925. Hún lést 2. maí 2020.

Útförin fór fram 15. maí 2020.

Ég var svo lánsöm að kynnast Tótu og fjölskyldu þegar þau fluttu í Eikjuvog 6 á áttunda áratugnum, en ég bjó á númer fimm. Ég eignaðist frábæra vinkonu og varð fljótt heimagangur á númer sex. Þórunn, sem var alltaf kölluð Tóta, var stórbrotinn karakter, snögg upp á lagið og alltaf gleði og hlátur. Við máttum gera tilraunir í eldhúsinu, t.d. búa til popp með súkkulaði, skúffukökur með rommdropum og snúa kleinum á ýmsan máta. Við máttum vera í allskonar leikjum hvort sem var í tindátaleik á ganginum, hoppa niður af bílskúrsþakinu, glamra á píanóið eða í fótbolta í garðinum. Tóta bara hló og hvatti okkur áfram.

Fjölskyldan á sex stundaði ýmsar íþróttir, m.a. skíðamennsku og um hverja helgi var öllum troðið í brúnan Jeep Wagoner og brunað í Bláfjöll. Mátti ég koma með? Tóta skellti sér á lær og sagði ekkert mál og svo var bara troðið meira í bílinn.

Á mínu heimili voru til forn tréskíði sem Tótu leist ekkert á svo eftir nokkrar ferðir í Bláfjöll skundaði hún yfir á fimm og sagði að stúlkan yrði að fá almennileg skíði og ekkert múður. Tóta var nefnilega líka hrein og bein og sagði sína skoðun umbúðalaust. Og auðvitað voru keypt ný skíði, maður gerði einfaldlega eins og Tóta sagði.

Það koma margar minningar upp í hugann. Ég fékk oft að heimsækja Mæju í sveitina að Álfhólum þar sem Tóta ólst upp.

Á leiðinni voru iðulega teknir upp puttalingar sem oftar en ekki litu út eins og útigangsmenn en Tóta fór aldrei í manngreinarálit, því skrítnari – því skemmtilegri. Og þegar Mæja var 14 ára þá leyfði Tóta henni að keyra í bæinn, stelpan kunni að keyra eftir sumrin í sveitinni og Tóta var ekkert að víla fyrir sér að hún væri ekki komin með bílpróf! Á unglingsárunum fékk ég lánuð föt af Tótu en hún átti forláta grænar stretsbuxur frá fimmta áratugnum. Tóta bara hló og gaf mér buxurnar og aðrar svartar í kaupbæti.

Þegar mikil veikindi gerðu vart við sig á númer fimm var náð í Tótu, hún var nefnilega lærður hjúkrunarfræðingur og kunni fag sitt upp á 10 þó svo hún ynni ekki sem slíkur, ég man ekki eftir henni öðruvísi en heimavinnandi. Hún og mamma voru báðar sjómannskonur og þegar Áman var opnuð skunduðu þær í búðina og fóru að gera bruggtilraunir. Tóta var ansi lunkin í þeim efnum.

Því miður hitti ég Tótu ekki oft á síðustu áratugum en það var alltaf jafn gaman að heimsækja hana, hvort sem var heima hjá þeim hjónum eða þegar hún var langt leidd af alzheimer á Hrafnistu.

Hún var alltaf sama skemmtilega konan. Nýlegar fréttir af henni gáfu til kynna að hún hefði getað orðið heimsfrægur uppistandari miðað við uppákomurnar sem hún stóð fyrir.

Minningin um Tótu lifir lengi og ekki síst í afkomendum hennar. Mæja vinkona mín er til dæmis svo skemmtilega lík henni. Ég votta öllum aðstandendum samúð mína en ekki síst Ingimundi sem lifir elskandi eiginkonu. Ég er sannfærð um að hún valdi daginn til að kveðja sjálf, snögg upp á lagið sem fyrr og gaf sér ekki tíma til að kveðja áður en símtalið slitnaði.

Steinunn Guðbjörnsdóttir.