Það halda borgaryfirvöldum engin bönd gefist tækifæri til að setja fót fyrir miðbæinn

Fréttastofa „RÚV“ sagði frá því nýverið að hálf Lækjargatan væri enn lokuð vegna hótelframkvæmda, þótt þær séu stopp af alkunnum ástæðum. Þar kom einnig fram að það kostaði verktakann ekki nema 22 þúsund krónur að fá götunni lokað í ár, en Reykjavíkurborg hefði til skoðunar að breyta gjaldtökunni. Og svo segir:

„Íslandshótel hófu framkvæmdir á Íslandsbankareitnum við Lækjargötu vorið 2018 en kórónuveirufaraldurinn hefur sett strik í þann reikning eins og svo marga aðra. Framkvæmdir við Hótel Reykjavík hafa verið á bið vegna efnahagsástandsins síðan um miðjan apríl.

Síðan hefur meira og minna allt verið stopp og alveg óvíst um framhaldið. Lækjargatan er hins vegar enn lokuð til hálfs eins og hún hefur verið í tvö ár. Fyrir það hefur verktakinn greitt borginni tvisvar sinnum 22 þúsund krónur.

Þetta leyfisgjald er föst tala, og óháð því hversu stórt verkefnið er, hversu mikið borgarland það leggur undir sig eða hvað er gert við það á meðan – eina krafan er að landinu sé skilað í nákvæmlega sama horfi.“

Þá vitnar fréttastofan

í skrifstofustjóra rekstrar og umhirðu hjá Reykjavíkurborg sem segir að þessar greiðslur fyrir lokun gatna um langa hríð séu vissulega ekki háar en borgaryfirvöld séu „að skoða það núna að hefja undirbúning að nýrri gjaldskrá sem gerir ráð fyrir því að við ætluðum að leigja landið undir þessar framkvæmdir eða viðburði“.

Skrifstofustjórinn tekur fram að í flestum tilvikum mundi gjaldið þá hækka og virðist þar úr hófi varlega talað, enda harla augljóst miðað við þá viðmiðun sem hann nefnir að verið sé að skoða.

Það var fullgilt fréttamat að vinna og birta þessa frétt enda hafa ýmsir velt fyrir sér hversu lengi þessi lokun hefur staðið með tilheyrandi óþægindum fyrir ökumenn bifreiða og aðra þá sem eiga leið um svæðið.

En það hefði farið vel á því að setja fréttina einnig í annað samhengi. Núverandi yfirvöld höfuðborgarinnar eru fræg fyrir að hafa beinlínis gengist upp í því að hefta aðgengi að miðborginni og gera ekkert með það þótt mikill meirihluti rekstraraðila í miðborginni kvarti sáran undan afstöðu og athöfnum þeirra í þessum efnum. Ljóst er að þeir sem hafa ríka hagsmuni af því að tryggja sem best aðgengi borgarbúa og nærsveitamanna sem annarra að verslunum og margvíslegri annarri miðlægri þjónustu hafa reynt að nálgast yfirvöld af háttvísi og virðingu og vænst málaefnalegra svara og fyrirgreiðslu.

Viðmótið sem þeim hefur mætt hefur þó ekki verið það sem vænta hefði mátt. Þetta eru þó þeir aðilar sem ekki hafa aðeins ríkulegra hagsmuna að gæta heldur eru um leið fyrirsvarsmenn starfsemi sem svo sannarlega flokkast undir eftirsóknarverða starfsemi miðborgar og er til þess fallin að draga að fólk og ýta undir iðandi mannlíf og blómleg viðskipti. Þeir hafa verið með útrétta hönd til samstarfs og samvinnu við borgaryfirvöld um að tryggja heilbrigt aðgengi að miðbæjarstarfsemi höfuðborgar landsins, þar sem tekið væri eðlilegt tillit til annarrar umferðar. Enda er þetta síðara atriði sameiginlegt hagsmunamál allra.

Hingað til hefur í öllum tilvikum verið slegið á þá útréttu hönd, sem er næsta óskiljanlegt.

Og er þá aftur vikið að einu megininntaki fréttar „RÚV“ um þetta mál, en það eru hugmyndir um aukna skattheimtu í tilefni af lokun verktaka og handhafa byggingarrétta á hluta gatna á byggingartíma.

Miðað við stefnu og framgöngu borgarstjóra og meirihluta borgarstjórnar sem fylgt hefur verið eftir af töluverðu yfirlæti og óskiljanlegum þótta gagnvart rekstraraðilum hefðu borgaryfirvöld nú fremur átt að verðlauna þá sem hafa lokað götum og torveldað aðgengi í anda þeirra sjálfra, fremur en að ætla sér að nota tækifærið til að hlaða nýjum sköttum á þá. En minnsta tilefni til skattheimtu er algjörlega ómótstæðilegt í augum meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur.