Grindavík
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Kristinn Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta, skrifaði síðastliðinn laugardag undir tveggja ára samning við Grindavík. Kristinn er uppalinn Njarðvíkingur og mun hann í fyrsta skipta leika fyrir annað félag hér á landi næsta vetur. Kristinn, sem er 22 ára, hefur einnig leikið með Stella Azura á Ítalíu og í Marist-háskólanum í Bandaríkjunum.
„Mér fannst þetta vera rétti tíminn til að prófa eitthvað nýtt og takast á við nýjar áskoranir. Ég vil sýna hvað í mér býr hjá öðru félagi. Þótt maður sé kominn í Grindavík verður maður alltaf Njarðvíkingur,“ sagði Kristinn við Morgunblaðið er hann var í skólaferð með Njarðvíkurskóla þar sem hann starfar ásamt því að spila körfubolta. Bakvörðurinn viðurkennir að það sé erfitt að yfirgefa uppeldisfélagið.
Erfitt en rétti tíminn
„Þetta hefur tekið ágætlega langan tíma. Það er erfitt að kveðja uppeldisfélagið og fara í annað lið á Íslandi en stundum þarf maður að gera það sem er rétt fyrir sig og mér fannst þetta rétti tíminn til að taka þessa ákvörðun. Ég þurfti tíma til að hugsa mig um og þetta var erfið ákvörðun,“ sagði Kristinn, en hvers vegna Grindavík?„Það er erfitt að segja. Ég og Ólafur Ólafsson erum góðir vinir og erum mikið saman í kringum landsliðið. Hann hjálpaði mér rosalega við að taka þessa ákvörðun. Það er ekki mikill munur á þessum liðum en vonandi getur innkoma mín hjálpað Grindavík að berjast um titla,“ sagði Kristinn.
Fleiri félög höfðu áhuga á leikmanninum, sem hefur spilað 15 landsleiki, en hann er sáttur við lokaákvörðunina. „Það voru einhver félög, en ég ákvað að velja Grindavík og er ánægður með þá ákvörðun.“
Daníel Guðni Guðmundsson þjálfar Grindavík og þekkjast þeir ágætlega, þar sem Kristinn spilaði undir stjórn Daníels hjá Njarðvík síðari hluta tímabilsins 2017/18. „Hann var hjá Njarðvík fyrsta hálfa árið eftir að ég kem heim frá Bandaríkjunum. Ég er sannfærður um að þetta verður skemmtilegt tímabil. Ég er spenntur og tilbúinn fyrir nýjar áskoranir.“
Markmið snúast um liðið
Kristinn segist ekki endilega hafa einhver markmið inni á vellinum næsta vetur, heldur snúist markmiðin um Grindavík sem lið. Segir hann félagið staðráðið í að berjast um þá titla sem eru í boði. Skoraði Kristinn sjálfur 9,8 stig, tók 5,4 fráköst og gaf 1,6 stoðsendingar að meðaltali í deildinni með Njarðvík í vetur.„Ég vil bæta mig sem alhliða leikmaður og gera liðið í kringum mig betra. Það er helsta markmiðið. Ég vil vera liðsmaður og við viljum saman vera eins nálægt toppnum og við getum. Við viljum berjast um titla. Það eru helstu markmiðin. Ég mun æfa eins og brjálæðingur í sumar og koma enn sterkari til leiks en ég gerði í fyrra.“
Pabbi var ánægður í Grindavík
Með félagsskiptunum fetar Kristinn í fótspor föður síns, Páls Kristinssonar. Páll lék í rúman áratug með Njarðvík, áður en hann fór í Grindavík og lék þar frá 2005 til 2011. „Hann setti þetta svolítið yfir á mig, en auðvitað ræddi ég við föður minn. Hann talaði vel um klúbbinn enda var hann þarna frekar lengi. Hann var ánægður með sína reynslu í Grindavík og auðvitað hugsaði maður um það líka.“Kristinn segir Njarðvíkinga hafa tekið vel í óskir hans um að skipta um félag, þrátt fyrir að rígur sé á milli Suðurnesjafélaganna. „Ég verð að hrósa þeim. Þeir voru mjög opnir, sérstaklega eftir allt sem við höfum gengið í gegnum saman,“ sagði Kristinn. Njarðvík þurfti að greiða ítalska félaginu Stella Azura 1,2 milljónir í uppeldisbætur er hann kom heim úr háskólaboltanum í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að hann væri uppalinn hjá Njarðvík. Félagið hefur því gert mikið fyrir Kristin.
Ekkert neikvætt hingað til
„Ég var mjög opinn með mitt og sagði þeim hvað væri í spilunum og hélt engu frá þeim. Þegar kom að því að taka ákvörðun skildu þeir hana alveg. Hingað til hef ég ekki fengið neitt neikvætt út á þessi félagsskipti. Mér finnst ekki ólíklegt að ég klæðist grænu einhvern tímann aftur á ferlinum,“ sagði Njarðvíkingurinn.Kristinn fór ungur að árum til Ítalíu og varð hann m.a. Ítalíumeistari 18 ára og yngri með Stella Azura. Hann stefnir aftur út í atvinnumennskuna. „Það er alltaf draumurinn að komast aftur út að spila og það er mikið undir mér komið og liðinu sömuleiðis og hvernig tímabilið fer. Eitt af helstu markmiðunum er að láta drauma sína rætast og fara aftur út,“ sagði Kristinn Pálsson við Morgunblaðið.